Mannanöfn
Þriðjudaginn 05. febrúar 1991


     Sólveig Pétursdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að gera nokkrar athugasemdir við þetta frv. því ég tel að ýmis atriði í því þurfi betri skoðunar við. Nú hefur þetta mál verið afgreitt úr hv. Ed. og af menntmn. þar en svo virðist sem ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda er fram koma í bréfi til menntmrn., dags. 17. sept. sl., sem prentað er sem fylgiskjal með frv. og svo virðist einnig að ekki hafi verið haft samráð við dómsmrn. áður en nefndin gaf álit sitt um það.
    Með leyfi forseta langar mig til að rekja aðeins þessar athugasemdir sem koma fram hjá dóms- og kirkjumrn. í þessu bréfi, sem er fylgiskjal með frv. þessu eldra frv. sem síðan hefur verið breytt að einhverju leyti, en þar eru gerðar athugasemdir m.a. við 3. mgr. 7. gr. frv. sem hljóðar svo:
    ,,Dómsmálaráðuneyti er heimilt að leyfa manni nafnabreytingu ef telja verður að nafn hans sé honum til ama eða aðrar gildar ástæður mæli með því.``
    Ráðuneytið lagði til að þessu ákvæði yrði breytt á þann hátt að dómsmálaráðuneytinu væri heimilt að leyfa hverjum sjálfráða manni nafnbreytingu ef telja verður að gildar ástæður mæli með því. Nafnbreyting verði einungis heimiluð manni einu sinni nema alveg sérstaklega standi á. Fyrir nafnbreytingu skuli greiða gjald til ríkissjóðs samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Það er álit starfsmanna dóms- og kirkjumrn. að það geti skapast margháttuð vandamál við þessa huglægu túlkun ,,að nafn sé til ama`` og verði erfitt að meta í hvaða tilvikum slíkt er. Reyndar sýnist mér af umsögnum í þessu máli að það hafi komið fram athugasemdir í þessa átt frá öðrum umsagnaraðilum. Svo virðist sem það sé ákveðið misræmi sem komi fram milli þessa ákvæðis, þ.e. 3. mgr. 7. gr. og 16. gr. frv. annars vegar og athugasemda við 7. gr. hins vegar, þar sem í athugasemdum frá þeirri nefnd er frv. samdi er ítrekað tekið fram að nefndin sé á þeirri skoðun að það skuli vera meginstefnan að menn beri sama nafn alla ævi og að ekki komi til álita að veita jafnvíðtækar heimildir til nafnbreytinga og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum. Það yrði erfitt að áliti ráðuneytisins að standa gegn umsóknum um nafnbreytingar er byggjast á huglægu mati umsækjanda og að búast megi við að réttur til nafnbreytinga verði nánast án takmarkana ef frv. verður samþykkt óbreytt að þessu leyti.
    Það koma einnig fram í fylgiskjalinu og í þessu sama bréfi til menntmrn. athugasemdir varðandi 2. mgr. 12. gr. frv. sem hljóðar svo:
    ,,Heimilt er með leyfi dómsmálaráðuneytis að feðrað barn sé kennt til stjúpföður síns. Leita skal umsagnar kynföður barnsins, ef unnt er, áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi.``
    Mér sýnist að eina breytingin sem hafi verið gerð frá eldra frv. í það frv. sem hér liggur fyrir sé að stjúpföður er breytt í stjúpforeldris. En það er mjög skiljanlegt að dómsmrn. hafi áhyggjur af þessu ákvæði hér og leggur reyndar til að þessi grein verði orðuð

svo, með leyfi forseta:
    ,,Heimilt er með leyfi dómsmálaráðuneytis að feðrað barn sé kennt til stjúpföður síns enda liggi fyrir samþykki kynföður sé unnt að afla þess. Ráðuneytinu er þó heimilt ef alveg sérstaklega stendur á að leyfa slíka breytingu á kenninafni þrátt fyrir synjun kynföður enda telji ráðuneytið að slík nafnbreyting sé barni til verulegs hagræðis.``
    Og ég held áfram: ,,Eins og 2. mgr. 12. gr. frv. er nú orðuð er ráðuneytinu veitt heimild til að breyta kenninafni barns þannig að það sé kennt til stjúpföður í stað kynföður og einungis skuli leitað umsagnar kynföður áður en ákvörðun er tekin. Afstaða kynföður er hins vegar ekki bindandi við ákvörðunartöku. Ljóst er að hér er um viðkvæmt mál að ræða fyrir marga forsjárlausa feður sem telja sig oft eiga undir högg að sækja í samskiptum við mæður barnanna varðandi umgengni við börnin og fleira.``
    En hér þarf að huga að ýmsum atriðum í sambandi við þetta ákvæði. Ég tel að það mætti e.t.v. skoða það betur. Er rétt að benda á að ættleiðing er í fæstum tilvikum veitt nema að fengnu samþykki kynföður. Hagsmunir barnsins þurfa að vega þarna þyngra en hagsmunir foreldra.
    Það eru einnig athugasemdir varðandi 16. gr. frv. sem er svohljóðandi:
    ,,Dómsmálaráðuneyti er heimilt að leyfa manni breytingu á kenninafni aðra en þá, sem um getur í lögum þessum, ef telja verður að kenninafn hans sé honum til ama eða aðrar gildar ástæður mæli með því.``
    Ráðuneytið leggur til að þessi grein falli alfarið niður.
    Enn fremur eru athugasemdir við 23. gr. frv. sem hljóðar svo: ,,Nú er barni ekki gefið nafn innan þess tíma sem um getur í 2. mgr. 4. gr. og skal Þjóðskrá þá tilkynna það dómsmrh. Heimilt er ráðherra, að undangenginni skriflegri áskorun, að leggja dagsektir á forsjármann/forsjármenn barns og falla þær á þar til barni er gefið nafn. Dagsektir renna í ríkissjóð og má gera aðför til fullnustu þeirra.``
    En það virðist vera breytt orðalag í nýju frv. sem hér liggur fyrir hv. deild og ráðuneytið leggur til að þessi grein orðist svo, sem reyndar er ekki farið eftir að því er mér sýnist: ,,Nú er barni ekki gefið nafn innan þess tíma sem um getur í 2. mgr. 4. gr. og skal Þjóðskrá þá skriflega skora á forsjármann/forsjármenn barns að bæta úr því innan tilgreinds tíma. Verði ekki orðið við þeirri áskorun er Þjóðskrá heimilt að leggja dagsektir á forsjármann/forsjármenn barns þar til barni er gefið nafn. Dagsektir renna í ríkissjóð og má gera aðför til fullnustu þeirra.``
    Það sem hér liggur á bak við að því er mér sýnist er það að dómsmrn. fer með ákaflega viðkvæma málaflokka sem snerta börn, t.d. forsjármál, og getur maður því hugsað sér að það sé andstætt því hlutverki sem ráðuneytið gegnir í þessum málum, m.a. til að leita sátta í viðkvæmum deilumálum, að ráðuneytið þurfi að beita viðurlögum við foreldra vegna þess að þau hafi vanrækt það að gefa barni nafn.

Dómsmrn. hefur heimild til þess að beita dagsektum í sínum málaflokkum, enda er þetta almenn regla að álagning dagsekta heyri til þeirri stofnun er um framkvæmd mála fjallar.
    Þetta eru svona þær athugasemdir sem ég vildi gjarnan gera í byrjun umræðu á þessu máli, hæstv. forseti. Ég tel að það sé ástæða til að þetta mál verði athugað nánar og verður það væntanlega gert í hv. menntmn. Nd.