Endurgreiðsla á gjaldi af erlendum lánum
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég óska eftir því að frsm. meiri hl. fjh. - og viðskn. sé viðlátinn. Nú orðið byrja allar umræður með því að athuga hvort nokkur stjórnarliði megi vera að því að vera viðstaddur. Það er hálfnöturleg venja hér í deildinni að ef um viðkvæm stórmál er að ræða, þá hlaupast hæstv. ráðherrar á brott og þegar um hin smærri málin er að ræða, þar sem maður vill kannski ræða við þá sem bera ábyrgð á afgreiðslu málsins í deildinni, þá eru þeir ekki heldur viðlátnir. Þeim hefur fjölgað hér sem skrifa undir meirihutaálitið, herra forseti, það hefur fjölgað um helming. Tveir af þeim fjórum sem skrifuðu undir nál. eru komnir í salinn.
    Forsaga þessa máls er kunn. Á árinu 1988 var uggur í mönnum yfir því að of mikil þensla, eins og það heitir á hagfræðimáli, væri í þjóðfélaginu þó svo hún tæki ekki til allra starfsgreina, sums staðar væru erfiðleikar. Var af þeim sökum ákveðið að sérstakt lántökugjald skyldi lagt á erlendar lántökur. Þó náðist fram að þetta sérstaka lántökugjald var endurgreitt af þeim lánum sem tekin voru til viðgerða á fiskiskipum ef viðgerðin fór fram hér á landi. Það var þó ekki fyrr en hinn 21. des. 1989 sem fullnaðaryfirlýsing dróst út úr hæstv. fjmrh. þess efnis að lántökugjaldið vegna ársins 1989 skyldi endurgreitt en þá um áramótin hefði runnið út heimild til að endurgreiða lántökugjaldið eins og lögin um það voru. Það var á næstsíðasta degi þingsins sem þessi viðurkenning dróst loksins út úr hæstv. fjmrh. Þann hinn sama dag var boðsent upp í Byggðastofnun bréf frá fjmrn. til þess að staðfesta að svo skyldi verða.
    Í þeim umræðum sem þá fóru fram í Sþ. lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að hann teldi lögin um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 101/1988 og nr. 51/1989, ekki þannig orðuð að í þeim fælist heimild til þess að endurgreiða það lántökugjald sem tekið hafði verið vegna lána á fiskiskipum sem hafin var smíði á hér á landi. Ég var ósammála þessum skilningi hæstv. ráðherra, taldi þvert á móti að lögin gæfu fyrirheit um að svo skyldi verða og færði sterk rök að því að með því að synja um endurgreiðsluna væri ríkisstjórnin að níðast sérstaklega á þeim fyrirtækjum sem hér áttu hlut að máli, einu fyrirtæki frá Ísafirði, einu fyrirtæki frá Akureyri og einu fyrirtæki frá Seyðisfirði.
    Nú vill svo til að í þessari deild eru einmitt þingmenn sem eru sérstaklega kunnugir rekstri þeirra fyrirtækja sem hér um ræðir og getið er um í fskj. með nál. mínu, þ.e. Slippstöðin hf., Akureyri, Skipasmíðastöð Marsellíusar hf., Ísafirði og Vélsmiðja Seyðisfjarðar. Ég veit að þeir þingmenn allir sem ég vísa til geta auðvitað staðfest það að ég fer með rétt mál þegar ég segi að á öllum þessum þrem stöðum eru sakir þannig að skipasmíðastöðvunum veitir ekki af að fá þá endurgreiðslu sem ég er hér að tala um. Skipasmíðastöðvarnar hafa ekki bolmagn til að bera þennan sérstaka skatt, sem kalla má með réttu einkaskatt þeirra, einkaskatt ríkisvaldsins á þessum stöðvum.

    Þegar ég tók þetta mál upp á síðasta þingi og átti m.a. orðaskipti við ráðherra skipasmíðaiðnaðarins, hæstv. iðnrh., lýsti hann því yfir að í löndum Efnahagsbandalagsins væru skipasmíðar styrktar að 26 -- 36%. Það var á sama tíma og þessum skipasmíðastöðvum var synjað um endurgreiðslu á lántökugjaldinu, herra forseti. Hann lýsti því jafnframt yfir að hann teldi eðlilegt að íslenskir útgerðarmenn notfærðu sér þessa opinberu styrki erlendis og sniðgengju íslenskar skipasmíðastöðvar. Hann sá ekki ástæðu til að leggja sérstakan jöfnunarskatt á þá sem létu smíða skip erlendis, og má skilja vel að það hefði verið erfitt, og hann sagði að það væri ekki fyrr en eftir árið 1992, kannski á árinu 1993, kannski síðar, sem íslenskur skipasmíðaiðnaður gæti búist við því að geta náð eðlilegri samkeppnisstöðu við þann skipasmíðaiðnað sem nú nýtur sérstakrar fyrirgreiðslu í löndum Evrópubandalagsins.
    Ég hef, herra forseti, í fjh. - og viðskn. skýrt formanni nefndarinnar og frsm., hv. 5. þm. Reykv., sem hefur notfært sér þann frið sem hann hefur hér undir ræðu minni til þess að fara inn í hliðarherbergi og vera í símanum allan tímann, þó að hann sé í þessu máli málsvari ríkisstjórnarinnar, og nú vill svo til að ég ætla að fara að beina orðum mínum til hv. formanns nefndarinnar og vil þá óska eftir því að lokað verði inn til hans svo að maður sjái hann ekki í símanum rétt á meðan, ég kann betur við það. Ég óska eftir að annaðhvort verði herberginu lokað eða frsm. komi í þingsalinn. Ég kann betur við það að frsm. nefndarinnar sé inni svona í tvær mínútur meðan verið er að ræða þingmál.
    Ég gerði formanni nefndarinnar grein fyrir því á fundi í fjh. - og viðskn. að ríkisstjórnin telur sig ekki hafa lagaheimildir til þess að endurgreiða þetta lántökugjald af lánum vegna smíði fiskiskipa hér á landi. Þess vegna er óhjákvæmilegt að ekki aðeins formaður nefndarinnar heldur aðrir þeir sem skrifuðu undir nál. um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, t.d. þingmaður skipasmíðabæjarins Akraness --- en á síðasta þingi þegar staðgengill formanns þingflokks Alþfl. sat hér á þingi, maður sem var mjög kunnugur skipasmíðaiðnaði á Akranesi og annars staðar, greiddi hann atkvæði gegn því að lántökugjald vegna skipasmíða yrði endurgreitt. Nú er aðalmaðurinn í þingsalnum. Hann hefur skrifað undir nál. þess efnis að þessu máli skuli vísað til ríkisstjórnarinnar, treystir sér greinilega ekki til að ganga jafn hreinlega til verks og varamaður hans sem lét sig hafa það að greiða atkvæði á móti málinu. Það er Jóhann Einvarðsson, hv. 8. þm. Reykn. Nú er hann fjarverandi, herra forseti, enda vill svo til að hér inni í salnum er hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, 5. þm. Norðurl. e., þingmaður Akureyrar. Ég hef stundum haldið því fram að sá þingmaður sem ekki hafi dirfsku til þess á Alþingi að standa vörð um Slippstöðina á Akureyri skuli láta það vera að þykjast vera þingmaður Akureyrar. Svo mikið er undir því komið að þetta atvinnufyrirtæki geti staðið undir sér.
    Hér er þingmaður frá Seyðisfirði, hv. 1. þm. Austurl., staðgengill sjútvrh., en þar sem hann er varaþingmaður og kemur óviðbúinn inn í þessa umræðu skal ég ekki hafa fleiri orð um það en skil að hann er í vandræðum í þessu máli að koma inn fyrir hæstv. sjútvrh. og vera í raun og veru skuldbundinn til að haga sér með sama hætti og sjútvrh. gerði á síðasta þingi.
    Nú má vera að nokkrar milljónir króna sýnist ekki vera há fjárhæð. Hjá Slippstöðinni á Akureyri, samkvæmt gengi á hverjum tíma frá 3. mars 1988 til 5. febr. 1989, erum við að tala hér um 5,8 millj. Í sambandi við Vélsmiðju Seyðisfjarðar erum við að tala um 560 þús. kr. á tímabilinu frá 10. ágúst 1988 til 25. apríl 1989. Og vegna Skipasmíðastöðvar Marsellíusar Bernharðssonar erum við að tala um 1,7 millj. á tímabilinu frá 6. okt. til 20. mars 1989. Þetta yfirlit fylgir sem fskj. með frv. Ég hef ekki séð ástæðu til að reikna það til núvirðis. Við sjáum að hér er um verulegar fjárhæðir að ræða fyrir allar þessar stöðvar og auðvitað með öllu óafsakanlegt að í íþyngja þessum sérstöku skipasmíðastöðvum sérstaklega.
    Herra forseti. Það getur verið
að svo sé komið nú sem fólk sé kærulausara en áður fyrir því að einhver missi atvinnu sína. Þegar ráðist var í smíði skips í Slippstöðinni á Akureyri lá það fyrir að yrði að segja um 50 manns upp vinnunni ef ekki yrði ráðist í þessa nýsmíði. Tvö árin var það svo og hið þriðja árið hefði einnig komið til nokkurra uppsagna hjá Slippstöðinni á Akureyri. Það liggur líka fyrir að þeir járniðnaðarmenn sem þar vinna nú eru mjög þjálfaðir í skipasmíðum og allri járnavinnu sem lýtur að þeim iðnaði. Það er öldungis ljóst að Slippstöðin gæti ekki haldið þeim úrvalsstarfskrafti sem þar er nú ef iðnaðarmennirnir geta búist við því að þeir verði að una árstíðabundnu atvinnuleysi vegna þess að atvinnugrein þeirra mætir litlum skilningi hjá stjórnvöldum og vegna þess að á henni er troðið með þeim hætti sem ég hef nú gert grein fyrir.
    Á sl. ári samdist um það við mikinn aflamann, útgerðarmann í Eyjum, að Slippstöðin á Akureyri réðist í smíði fiskiskips fyrir hann. Það verk hefur gengið mjög vel og sýnt starfshæfni starfsmanna Slippstöðvarinnar og þá miklu tæknikunnáttu sem þar er til að dreifa. Það liggur alveg ljóst fyrir að vegna þessa skipasmíðaverkefnis, vegna smíði þessa skips, hefur ekki komið til þess á þessu ári að starfsmönnum hafi verið sagt upp. Ef skipið hefði hins vegar ekki komið til sögunnar hefðu uppsagnir starfsfólks Slippstöðvarinnar á Akureyri verið óhjákvæmilegar.
    Það er nú svo að ýmsir hafa sýnt áhuga á því að kaupa það skip sem Slippstöðin hefur nú lagt til hliðar í bili. Ýmsir hafa sýnt því máli áhuga og enginn vafi á því að með því að endurgreiða þennan skatt sem af Slippstöðinni hefur verið tekinn yrði stigið eitt lítið skref til þess að gera það mögulegt að einstaklingar geti komist yfir skipið. Ég hef heyrt það á skotspónum, skal ekki segja hvort rétt sé, að hæstv. fjmrh. hafi talað um það að hann mundi e.t.v. hlaupa undir bagga ef kaupandi fyndist að nýsmíði Slippstöðvarinnar á Akureyri. Þá mundi hann kannski bara draga einhverja peninga upp úr skúffunni til þess að

auðvelda slík viðskipti. Ég get, herra forseti, ekki séð að fjmrh. hafi þvílíkt vald og vil minna á að sala hans á hlutabréfum í Þormóði ramma er alræmt hneyksli sem nú er mjög fjallað um þessa dagana í blöðum og af Ríkisendurskoðun. Fleiri dæmi eru um það að einstökum fyrirtækjum hafi verið gefnir peningar úr ríkissjóði. Hér er ekki um það að ræða. Hér er um það eitt að ræða að endurgreiða lántökugjald sem aldrei var ætlast til að skipasmíðaiðnaðurinn bæri, endurgreiða lántökugjald sem var endurgreitt af öllum viðgerðum sem unnar voru í fyrirtækjum í sjávarútvegi. Þess vegna er hér beinlínis um átroðslu, vil ég segja, ríkisvaldsins að ræða. Og ég vil segja að þeir ráðherrar sem um þessi mál hafa fjallað hafa bæði brugðist þeim trúnaði sem Alþingi hefur sýnt þeim og þar að auki ekki staðið við þau fyrirheit sem þeir hafa gefið um það að þetta lántökugjald yrði endurgreitt. Ég vil mjög beina því til meiri hl. fjh. - og viðskn. að hann endurskoði sína afstöðu til þessa frv. og sýni með þeim hætti að hann vilji með þessu litla móti styðja skipasmíðaiðnaðinn sem á um sárt að binda og sem sums staðar er í þeirri kreppu að spurning er hvort fyrirtækin geti haldið nægilegum mannafla til þess að geta veitt fiskiskipum okkar þá þjónustu sem ætlast er til og þau þurfa á að halda.