Endurgreiðsla á gjaldi af erlendum lánum
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrir jól gerði ég grein fyrir áliti meiri hl. fjh. - og viðskn. í þessu máli, en þar var lagt til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Nú hefur flm. frv. farið þess á leit að ég geri frekari grein fyrir því af hverju við leggjum þetta til og hefur haft uppi mikið mál um vanda skipasmíðastöðva og telur að þetta frv. geti leyst þann vanda. Því fer fjarri. Mál skipasmíðastöðvanna verður að taka í heild sinni. Hér er um að ræða mjög litla fjármuni. Vandi skipasmíðastöðva á Íslandi er miklu stærri og það verður að leysa hann með allt öðrum hætti en hér er lagt til. Á þeirri forsendu er lagt til að þetta mál komi til skoðunar þegar sá vandi er leystur eða gerð tilraun til þess að leysa þann vanda. Ég trúi því að ríkisstjórnin og við sem stöndum að meirihlutaálitinu lítum til þessara tillagna sem annarra þegar á þeim vanda verður tekið.
    En vegna orða hv. 2. þm. Norðurl. e. um það hvað meiri hl. fjh.- og viðskn. er kaldlyndur gagnvart skipasmíðastöðvunum og atvinnuuppbyggingu í landinu má benda á það að þessi ómögulegu lög sem hér er um að ræða voru sett á árinu 1988 þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var við völd og þetta ákveðna ákvæði um lántökugjald var inni í þeim pakka. Og meira að segja má benda á að þá var hv. 2. þm. Norðurl. e. formaður fjh. - og viðskn. og mælti með samþykkt frv. hér á Alþingi svo að það má segja að hann hafi verið frumkvöðullinn að því að þetta gjald komst á. Það á því ekki við að við séum að sýna íslenskum skipasmíðastöðvum ofbeldi. Hér er verið að tala um það hvort eigi að breyta þeim reglum sem hv. 2. þm. Norðurl. e. setti á á sínum tíma. Við sem erum í meiri hl. í fjh. - og viðskn. viljum líta til þess að það eigi að skoða málið í heild sinni því auðvitað viljum við sem aðrir að hér sé blómlegur skipasmíðaiðnaður sem geti fullnægt þeim kröfum sem til hans eru gerðar fyrir íslenskar skipasmíðar.