Endurgreiðsla á gjaldi af erlendum lánum
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég hlýt að biðja hæstv. forseta að gefa mér tækifæri til þess að eiga orðastað við hæstv. iðnrh., sem er ráðherra skipasmíða, vegna þeirra ummæla sem hv. 5. þm. Norðurl. e. Valgerður Sverrisdóttir hafði hér og þeirra upplýsinga sem hún gaf um að það lægi fyrir hjá ríkisstjórninni loforð um að hún mundi hlaupa undir bagga til þess að greiða fyrir sölu á fiskiskipi því sem er í smíðum í Slippstöðinni á Akureyri. Ég vona að hæstv. forseti skilji að þetta eru algerlega nýjar upplýsingar í málinu og eðlilegt að frsm. frv. og nefndarmaður fái að eiga orðastað við ráðherra um það. Þessar upplýsingar komu ekki fram í fjh. - og viðskn. þar sem þær hefðu að sjálfsögðu átt að liggja fyrir þegar málið var rætt.
    Formaður nefndarinnar er aftur kominn í símann þannig að það sýnir nú áhuga hans á málinu. En ég vil spyrja hæstv. forseta hvort möguleiki sé á að fá að eiga orðastað við ráðherra áður en umræðu um málið lýkur. ( Forseti: Er óskað eftir því að iðnrh. komi? Hann er því miður við umræðu í Nd.) Þá óska ég eftir að fá að gera hlé á ræðu minni og ljúka henni þegar iðnrh. hefur tök á að vera hér viðstaddur og helst fjmrh. og vil ég óska eftir að þeir verði báðir viðstaddir þegar þessari umræðu lýkur þannig að það fáist staðfest af þeirra munni að þeir hafi gefið loforð um það að greiða fyrir sölu á fiskiskipi á Akureyri með fé úr ríkissjóði vegna þess að það hefur komið fram hjá þingmanni Framsfl. að það er forsendan fyrir því að hann kýs að standa á móti því frv. sem ég hef hér flutt.