Héraðsskógar
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. landbn. Ed. og ekki síst formanni hennar fyrir góða vinnu að vanda við þetta þingmál sem nú er til umræðu. Nú sem oftar hefur tekist góð samstaða með nefndarmönnum um afgreiðslu mikilvægs máls og fyrir það ber að þakka einnig. Það er ekki síst mikilvægt þegar mál af þessu tagi á í hlut þar sem hrint er úr vör verkefni sem vonandi á eftir að standa um áratugi eða jafnvel aldir, ef maður má taka svo hátíðlega til orða. Vel skal það vanda sem lengi á að standa, segir einhvers staðar, og grunnurinn að slíkum langtímaverkefnum er auðvitað afar mikilvægur og hann er tæplega hægt að leggja með traustari hætti en algerri pólitískri samstöðu um afgreiðslu máls af þessu tagi. Þess vegna fagna ég því sérstaklega og ég er viss um að það á eftir að verða ekki síst gæfa þessa verkefnis að svo tókst til eða svo stefnir í að takist til.
    Ég er fyllilega sáttur við þær breytingar sem hv. landbn. gerir á frv. Ég gat þess í minni framsöguræðu að þetta væri eitt af þeim atriðum sem rétt væri að nefndin færi vandlega yfir, enda höfðu menn nokkuð mismunandi sjónarmið um það hvar væri eðlilegast að þessar prósentutölur lægju, samanber þær breytingar sem urðu á frv. milli ára. Ég tel að hv. nefnd hafi þarna ratað á nokkuð góðan meðalveg og mörg rök megi færa fyrir því að það sé skynsamleg niðurstaða að hverfa frá því að um algera kostnaðarþátttöku ríkisins, eða 100% framlag, sé að ræða þannig að til komi á hverjum tíma a.m.k. táknræn þátttaka þeirra sem aðild eiga að verkefninu. Hins vegar er jafnljóst, og það hygg ég að hljóti að hafa ráðið niðurstöðu nefndarinnar um að færa þetta hlutfall aftur upp á við, að bolmagn þeirra sem gerast fullir þátttakendur í þessu verkefni til að leggja þar mikið fram af eigin aflafé er takmarkað, einkum fyrri hluta verkefnisins, fyrstu árin eða áratugina.
    Á móti má segja að ekki sé óeðlilegt að ríkið eigi þá von í hærri hlut afrakstursins eða hagnaðarins þegar þar að kemur.
    Það er svo að lokum, herra forseti, von mín að með þessu frumvarpi, sem vonandi verður að lögum á yfirstandandi þingi, og með þeim fjárveitingum, sem hv. Alþingi ákvað í desembermánuði sl. að leggja til þessa verkefnis og er allmyndarleg fjárhæð á upphafsstigi þess, sé búið að festa þetta stóra verkefni, sem tvímælalaust er mesta samfellda áætlun um skógrækt sem litið hefur dagsins ljós í landinu til þessa, svo vel í sessi og búa þannig um hnútana að ekki verði aftur snúið. Og þá er ég viss um og get tekið þar undir með hv. síðasta ræðumanni og 4. þm. Austurl. að við þetta mál og undangengin 2 -- 3 ár verða í sögunni örugglega miðuð ákveðin tímamót og þar sérstaklega að skógarbúskapur sem slíkur er í raun og veru í fyrsta sinn að halda innreið sína í alvöru með þessum áformum. Og hvort sem tímasetningin verður miðuð við afgreiðslu þingsályktunartillögu Alþingis í maímánuði 1988 eða samþykkt ríkisstjórnar á Þingvöllum vorið 1989 eða við afgreiðslu þessa frumvarps þegar að lögum verður skiptir ekki máli. Aðalatriðið er að nú er þetta stóra mál vonandi að komast í heila höfn.