Héraðsskógar
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu mikið lengur en af því að minnst var á hagsmunagæslumenn annarra kjördæma, þá vildi ég gjarnan fá því svarað fyrir hönd hv. þm. annarra kjördæma og jafnframt þá hagsmunagæslumenn þeirra kjördæma, hvort við megum eiga von á því að það verði farið út í að skipuleggja skógræktarverkefni á svipaðan máta og hér um ræðir í öðrum kjördæmum. Ég fagna því líka að ekki er verið að tala um að skógræktin eigi að koma í stað hefðbundins búskapar vegna þess að staðreyndin er sú að skógrækt getur það ekki. Ég er svo sem ekki hissa á því þótt ekki skorist margir úr leik þegar 97% af kostnaði er greitt úr ríkissjóði. Það væri nú meiri bjálfagangurinn að neita því að fá slíka aðstoð. ( Landbrh.: Vill hv. þm. endurtaka spurninguna?) Já, hv. þm. skal endurtaka spurninguna til hæstv. landbrh. Hún var um það hvort við, hv. þm. í öðrum kjördæmum, hagsmunagæslumenn eins og hæstv. landbrh. talaði um, mættum eiga von á því að verkefni eins og það sem hér um ræðir, Héraðsskógar, verði skipulögð í öðrum kjördæmum, eða á öðrum svæðum landsins og hvort sú vinna er farin í gang og hver skipuleggur þá vinnu.