Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh. um þingsköp í gær að það er afar óheppilegt að það hafi þurft að slíta þessa umræðu í sundur. Hér er á ferðinni mjög veigamikið mál og eðlilegt að viðhorf sem flestra stjórnmálaflokka fái að koma fram strax á fyrsta degi umræðunnar. En það var kannski athyglisverðast við þá umræðu sem fram fór hér í gær að hæstv. iðnrh. og viðskrh., Jón Sigurðsson, lýsti því yfir að hann hefði viljað ganga lengra í opnunarátt en frv. gerir ráð fyrir. Þegar umræðunni var hætt var það af þeim ástæðum að boðaður hafði verið fundur í hv. utanrmn. Sþ. til að ræða um málefni Litáens og samskipti Íslands og Litáens. Og eftir að hafa lesið blöðin í morgun þá skilur maður betur hvers vegna sá fundur var haldinn og kannski hefði maður átt von á því að einhver yfirlýsing kæmi frá hæstv. ríkisstjórn í dag varðandi það málefni. En af því hefur ekki orðið.
    Ég vek einnig aðhygli á því, virðulegi forseti, að hæstv. viðskrh., sem hér talaði í umræðunni í gær og fékk til þess leyfi að tala á undan þeim ræðumanni sem fyrstur var á mælendaskrá, ætlaði sér að vera viðstaddur þessa umræðu og svífur hér inn í salinn í þeim svifum. Það hefði verið ákjósanlegt einnig, virðulegi forseti, að hæstv. utanrrh. hefði séð sér fært að vera viðstaddur umræðuna en ekki skulu gerðar kröfur til þess. Hann veit af þessari ósk og kemur ugglaust síðar á þennan fund.
    Við 1. umr. þessa máls er eðlilegt að fjalla nokkuð almennt um frv. en einnig er nauðsynlegt að ræða sér í lagi þær viðræður sem nú eiga sér stað milli EFTA-ríkjanna og Lichtenstein annars vegar og Evrópubandalagsríkjanna hins vegar um evrópska efnahagssvæðið, enda er það ljóst að þessi mál, sem hér er verið að ræða, mun þurfa að ræða aftur þegar og ef Íslendingar ákveða að taka þátt í því samstarfi sem hlotið hefur heitið Evrópska efnahagssvæðið.
    Á bls. 18 í athugasemdum með þessu frv. sem hér er til umræðu er á þetta minnst, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin [þ.e. nefndin sem undirbjó þetta frv. sem hér er til umræðu] hefur ekki tekið afstöðu til þess hvaða fyrirvara Ísland verði að gera um erlenda fjárfestingu í viðræðum við Evrópubandalagið. Samningaviðræðurnar um hið Evrópska efnahagssvæði hafa ekki heldur verið til sérstakrar umfjöllunar í nefndinni sem samdi frumvarp þetta, en reikna má með því að ef úr stofnun EEA verði þurfi að taka til endurskoðunar þau ákvæði, sem hér er lagt til að gildi um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, þ.e. að því er varðar borgara annarra EEA - ríkja. Nefndin telur samt sem áður brýnt að lögfesta frumvarpið nú sem fyrst enda núgildandi reglur sundurlausar og ósamstæðar.``
    Með öðrum orðum lýsir nefndin því yfir að það starf, sem hefur verið unnið af nefndinni, hafi reyndar tekið tillit til þessara viðræðna og hugmynda um að opna fyrir aukið samstarf við útlendinga en það sé þó

fyrirsjáanlegt og nauðsynlegt að taka málið algjörlega upp til skoðunar ef og þegar Ísland verður aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Það er því alveg bráðnauðsynlegt hér í þessari umræðu að fjalla nokkuð um þetta mál.
    Fyrst vil ég þó snúa mér að frv. eins og það liggur fyrir og lýsa yfir stuðningi við þá meginstefnu sem kemur fram í því en taka jafnframt fram að æskilegt hefði verið að frv. gengi lengra í nokkrum atriðum en gert er eins og það lítur út núna og áður en hv. fjh.- og viðskn. hefur fengið tækifæri til að fjalla um það.
    Það er ljóst að Íslendingar þurfa á auknu áhættufjármagni að halda og það kann að vera heppilegt og eðlilegt og æskilegra að leita eftir samstarfi við erlenda aðila þannig að það samstarf beri í sér áhættu útlendinganna fremur en að taka lán, oft með ríkisábyrgð eða opinberri ábyrgð einhvers konar, hjá útlendingum og greiða erlendum aðilum það aftur algjörlega án tillits til þeirrar áhættu sem felst í áhættusömum atvinnurekstri.
    Það má gera ráð fyrir að slíkt samstarf og samvinna ýti undir útflutning, en eins og fram kemur í skýrslum OECD er eitt það mikilvægasta sem Íslendingar þurfa að gera og átta sig á á næstu árum, og reyndar allar þjóðirnar sem þar starfa, að ýta undir útflutning og utanríkisviðskipti og framkalla þannig þann hag sem fæst af sérhæfingu í framleiðslu einstakra ríkja og svæða. Með því að auka samstarf yfir landamæri má búast við að slíkt verði hægara því oft eru þeir tilbúnir til að leggja fé í fyrirtæki annars staðar sem þekkja vel til markaðarins þar sem vörurnar eiga að seljast.
    Því miður hafa Íslendingar verið heldur óheppnir að undanförnu í vali á nýjum útflutningsgreinum. Ég ætla ekki að sakast við einn eða neinn í því sambandi en ég hygg að flestir geti nú verið sammála um að loðdýrarækt og fiskeldi hafi ekki skilað því sem ætlast var til þegar þeim atvinnugreinum var ýtt úr vör eða þær a.m.k. stórauknar eins og gert var fyrst og fremst og ekki síst vegna áhrifa frá stjónvöldum fyrir nokkrum árum síðan. Að vísu eru þau mál flókin og alls ekki ætlunin hér að fara að gagnrýna þá sem að verki stóðu. Það má ugglaust sýna fram á að það hefði verið hægt að ná betri árangri með öðrum vinnubrögðum en ekki er tækifæri til þess að fjalla frekar um það við þessa umræðu málsins.
    Þetta er fyrst og fremst nefnt hér til þess að benda á að Íslendingar hafa lagt verulega fjármuni, mjög mikla fjármuni í útflutningsgreinar sem ekki hafa skilað sér og þetta er nefnt hér til þess að leggja áherslu á nauðsyn þess að Íslendingar vandi valið. Það kann að vera heppilegt að velja útflutningsgreinar í samráði og samvinnu við erlenda aðila sem eru nær markaðnum og geta þess vegna gefið okkur nauðsynlegar upplýsingar um það hvernig vel sé að verki staðið.
    Ég fagna því að sjálfsögðu að í þessu frv. er verið að stíga ákveðið skref í átt til þess sem við getum kallað vestrænar leikaðferðir, þ.e. þær leikaðferðir sem tíðkast í Vestur - Evrópu og hjá iðnvæddum ríkjum, en þau ríki hafa verið einna fremst í því að opna fyrir

erlenda fjárfestingu. Og þykir mér full ástæða til að nefna það hér, ekki síst vegna þess að hæstv. forsrh. gat þess í stefnuræðu núv. hæstv. ríkisstjórnar að vestrænar leikaðferðir í efnahagsmálum ættu ekki við hér á landi. Þykir mér full ástæða til að benda á að hér virðist vera nokkuð skipt um stefnu og er full ástæða til að fagna því.
    Það frv. sem hér er til umræðu er byggt að langmestum hluta á frv. sem hefur verið flutt áður, fyrst til sýnis af ríkisstjórn hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteins Pálssonar en síðan af nokkrum þingmönnum Sjálfstfl., síðast á síðasta þingi. Ég rifja það upp að það frv. var samið af fulltrúum sem þáríkjandi stjórnarflokkar settu á laggirnar. Í þeirri nefnd, sem undirbjó það frv., voru fulltrúar Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. Niðurstaða fékkst í það samstarf án nokkurs fyrirvara, en í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar gerðist það að Framsfl. hafði fyrirvara og reyndist vilja fara gegn
frv. eins og það lá þá fyrir en frv. var lagt fram á Alþingi án þess að ætlunin væri að afgreiða það þá.
    Það er einnig ljóst að Alþb. hefur í gegnum tíðina verið á móti opnun fyrir erlenda fjárfestingu. Vil ég rifja upp í því sambandi málflutning sem bæði hv. 4. þm. Norðurl. v. og hæstv. menntmrh. viðhöfðu þegar verið var að breyta iðnaðarlögunum og gefa iðnrh. tækifæri til að opna möguleika fyrir erlenda aðila að eiga iðnfyrirtæki að meiri hluta til hér á landi. Það atriði er tekið upp í þetta frv. sem hér er til umræðu. Ég nefni þetta hér vegna þess að svo virðist vera sem Alþb. hafi einnig skipt um stefnu í þessum málum og ber vissulega að þakka það þótt ekki sé gengið eins langt og við hefðum kosið, þeir sem hafa meiri áhuga en kemur fram í þessu frv. á því að opna fyrir erlendar fjárfestingar hér á landi og að ýta undir fjárfestingar Íslendinga erlendis.
    Mig langar nú, virðulegi forseti, til að fara nokkrum orðum um fyrirliggjandi frv. og varpa fram fyrirspurnum og athugasemdum um einstök atriði þess.
    1. gr. frv. og 2. gr. eru nákvæmlega eins og greinarnar í frv. sem flutt var af fyrri ríkisstjórn, en í 3. gr. er breyting eins og kom fram hjá hæstv. forsrh. þegar hann mælti fyrir frv. Þessi breyting er sú að nú er gerður sá fyrirvari um erlenda fjárfestingu að þeir einir geti notið þess að fjárfesta hér á landi sem koma frá löndum þar sem Íslendingar hafa sama rétt til fjárfestingar. Slíkar reglur eru stundum kallaðar gagnkvæmnisreglur og má segja að hugmyndin sé góðra gjalda verð. Ég bendi hins vegar á að það er ekkert einfalt mál að fylgja slíkri reglu eftir, ekki síst vegna þess að í mjög mörgum tilvikum og kannski flestum horfa mál þannig að fyrirtæki af erlendum toga eru í eigu manna og fyrirtækja frá mörgum þjóðum. Það er einnig mjög erfitt að bera saman réttindi í mismunandi löndum, hvort réttur eins sé lakari en réttur annars. Þetta hlýtur þess vegna að vera flókið í framkvæmd og mjög erfitt að meta þetta atriði, enda er það svo að mismunandi reglur gilda á mismunandi sviðum. Ég verð því að segja að ég hef miklar efasemdir um að þessi regla geti gengið upp í íslenskum rétti og hefði kosið að hæstv. forsrh. gerði betur

ljóst en gert er í athugasemd við þessa grein hvernig fylgja á þessari hugmynd eftir vegna þess að það liggur fyrir að mismunandi reglur gilda á mismunandi sviðum atvinnulífs í hinum ýmsu löndum.
    4. gr. frv. er auðvitað aðalgreinin, rétt eins og 4. gr. í fyrra frv. og byggir hún að sjálfsögðu í meginatriðum á því frv. sem þá var til skoðunar í tíð fyrri ríkisstjórnar og eins á síðasta þingi þegar nokkrir sjálfstæðismenn undir forustu formanns Sjálfstfl. endurfluttu það frv.
    Í 1. tölul. er gert ráð fyrir því að íslenskir ríkisborgarar einir geti átt fyrirtæki sem stundar fiskveiðar og virðist vera mjög víðtækt samkomulag hér á landi um það eins og fram hefur komið hjá öllum þeim sem talað hafa í þessum málum, að ástæða sé til að takmarka, jafnvel útiloka, fjárfestingar erlendra aðila í náttúruauðlindum landsins.
    Ég ætla ekki hér við 1. umr. að ræða það mál mjög mikið en vissulega hefði gefist tilefni til þess og gefst kannski síðar því að hér er verið að ræða um málefni sem hefur þýðingu langt umfram það sem um getur í þessum tölulið vegna þess að hér er komið að kjarna þess máls, hver eigi auðlindirnar. Hver á fiskimiðin? Hvað þýðir 1. gr. laga um stjórn fiskveiða? Á að greiða fyrir það að fá að njóta þess réttar að fiska í fiskveiðilögsögunni? Og hverjum ber að greiða? Kann að vera að reglur um sölu veiðileyfa eða uppboð á kvótum mundu hjálpa okkur ef einhvern tíma kynni að koma að því að við þyrftum að eiga samstarf við annað ríki og teldum það heppilegt fyrir okkar hagsmuni að veita erlendum aðilum einhvern rétt til veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu vegna þess að við fengjum önnur veigameiri réttindi í staðinn? Með þessum orðum er ég ekki að stinga upp á slíku, heldur aðeins að nefna það að það eru fjölmörg álitaefni sem þarf að svara og það er full ástæða til að kanna það þegar rætt er um jafnmikilvægan hlut og þann að breyta íslenskum lögum eins og hér er verið að gera ráð fyrir í það horf að einungis íslenskir ríkisborgarar megi veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu.
    Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að það er stefna Sjálfstfl. að hafa þennan 1. tölul. eins og þarna getur og hann er í fullu samræmi við 1. tölul. í því frv. sem lagt var fram af ríkisstjórn 1. þm. Suðurl. Ég hef hins vegar kosið að nefna þessi atriði hér því ég held að þau hangi saman og veit reyndar að ýmsir ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn hafa gefið þessu máli gaum og hugað að málum eins og þessu.
    Varðandi 2. tölul. hef ég athugasemdir fram að færa. Hér er gert ráð fyrir því að einungis íslenskir ríkisborgarar, og einungis þeir ríkisborgarar sem lögheimili eiga hér á landi, geti átt fiskvinnslufyrirtæki, en fiskvinnsla er skýrð í 2. tölul. Hins vegar geti útlendingar og íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis átt í frekari úrvinnslu, eins og það er kallað, eins og segir í lokaorðum 2. tölul. 4. gr.
    Ég verð að játa það að mér finnst þessi tölul. of þröngur. Ég hefði kosið að íslenskir ríkisborgarar með lögheimili erlendis og erlendir aðilar ættu þess kost að eignast hlut í fyrirtækjum í fiskvinnslu öðrum en þeim

sem eiga í fyrirtækjum eða gera út báta sem fiska í íslenskri fiskveiðilögsögu. Ég er þess vegna sammála þeim sjónarmiðum sem koma fram í fyrra frv. Þar að auki tel ég að þessi grein sé þannig að það sé ekki vegur að greina á milli frumvinnslu og úrvinnslu í fiskvinnslunni sjálfri og sú greining, sem hér er um að ræða, sé þvert á rök og skynsemi.
    Í þessum tölul. er gert ráð fyrir því að útlendingar geti ekkert átt í venjulegri fiskvinnslu en geti átt, ja, mikinn hluta í greinum þar sem um frekari úrvinnslu er að ræða. Og hver er þessi frekari úrvinnsla? Jú, samkvæmt orðanna hljóðan er um að ræða umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnslu afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu og matreiðslu. Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að menn komi til með að lenda í gífurlegum vandræðum þegar þeir ætla að greina á milli þessarar úrvinnslu og annarrar vinnslu, eins og reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu o.s.frv. Ég tel að það sé nánast útilokað og þess vegna sé afar óheppilegt að skipta með þeim hætti sem hér er gert. Nær hefði verið að reyna að finna reglu þess efnis að erlendir aðilar, sem tilbúnir eru til að fjárfesta í fiskvinnslunni, gætu gert það svo framarlega sem fyrirtækið sem í hlut á eigi ekki hagsmuni í fyrirtæki sem stundar veiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu. Þess vegna tel ég að þessi breyting, sem hér hefur orðið á frá því að fyrra frv. var flutt, sé ekki til bóta.
    Í 3. tölul. er um að ræða nýtt ákvæði, ákvæði sem ekki var í fyrra lagafrumvarpi. Hér er um að ræða tillögu til lagabreytingar en í dag er í sérstökum lögum sagt frá því hverjir geta virkjað og eignast virkjunarréttindi, bæði vatnsfalla og jarðhita. Það skal tekið undir með hæstv. viðskrh. og iðnrh. að kominn er tími til að skýrari lagareglur gildi um þetta atriði. Ég tel að Sjálfstfl. sé sammála því að full ástæða er til þess að Íslendingar einir geti átt fyrirtæki á borð við þessi, enda er um náttúruauðlindir landsins að ræða. Hins vegar kæmi auðvitað til greina að gera á þessu undantekningar við sérstök tiltekin skilyrði sem ég ætla ekki að ræða frekar hér, en gætu t.d. opnast ef við ættum samstarf við einhverja sem vildu njóta mikillar orku frá íslenskum orkuverum. Þá mætti opna það mál með sérstökum lögum þegar tiltekin tilefni gefast.
    Það sem er hins vegar athygli vert við þennan 3. tölul. er að hæstv. viðskrh. og iðnrh. lýsti því í gær að nauðsynlegt væri að flutt yrði lagafrumvarp um þessi atriði --- og þá á hann ugglaust við jarðhitaréttindin og réttinn til að virkja vatnsföll hér á landi --- vegna hugsanlegrar inngöngu okkar í Evrópska efnahagssvæðið. Undir þetta vil ég taka en bendi á að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki flutt slík frv. Og ef ég má nefna til sögunnar það starf sem unnið er nú í hv. iðnn. Nd. undir forustu hv. 2. þm. Austurl., þá er það starf unnið á vegum þingsins en ekki á vegum hæstv. ríkisstjórnar. Það starf er gagnlegt og við höfum fallist á það, fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni, að taka þátt í því starfi sem þar er unnið, en ég tel að það sé skylda hæstv. ríkisstjórnar að leggja fram stjfrv. um

þetta efni ef hún vill fá það afgreitt á ábyrgð stjórnarmeirihlutans. Ég hygg hins vegar að það mál hafi stöðvast í þingflokki Framsfl. En ef ég fer með rangt mál í því sambandi er full ástæða til að hæstv. forsrh. geri grein fyrir því og leiðrétti þau ummæli því mér hefur skilist að Framsfl. sé ekki tilbúinn til þess að afgreiða frv. með þeim hætti sem hæstv. viðskrh. og iðnrh. kýs.
    Þetta vil ég nefna varðandi 3. tölul. 4. gr. frv. Mér finnst vera full ástæða til þess að hæstv. forsrh. skýri sín sjónarmið, ekki síst vegna orða hæstv. viðskrh. og iðnrh. sem hann viðhafði í umræðunni í gær.
    Ég er sammála hæstv. viðskrh. þegar hann segir að það hafi verið óþarfi í 4. tölul. að þrengja ákvæði gildandi laga með því að koma í veg fyrir, eins og gert er ráð fyrir í þessum tölulið, að útlendingar geti átt meira en 49% í flugfélögum eða í íslenskum flugfélögum, þ.e. flugfélagi sem starfar hér á landi á grundvelli íslenskra laga.
    Í núgildandi lögum hefur ríkisstjórnin tækifæri til að veita undanþágu ef útlendingar vilja eiga meira en en 50% í slíkum félögum.
    Um 5. tölul. er lítið að segja um fyrri partinn. Þar er gert ráð fyrir að erlendir aðilar megi eiga 25% hlutafjár í íslenskum viðskiptabanka sem rekinn er af hlutafélagi. Það er kannski þetta síðasta hugtak sem skiptir máli: ,,sem rekinn er af hlutafélagi``. Þetta þýðir það að Íslandsbanki hf. getur, ef eigendum þess banka sýnist, selt 25% hlutafjár til erlends aðila eða bætt við hlutafé sitt þannig að erlendur aðili kæmi inn til samstarfs og ætti allt að 25%. En ég vek athygli á því að Landsbankinn og Búnaðarbankinn geta ekki nýtt sér þetta tækifæri ef stjórnendur þeirra banka vildu gera það, einfaldlega vegna þess að þeir bankar starfa ekki í hlutafélagsformi.
    Fyrr á þessu þingi og reyndar á síðasta þingi hafa orðið við ýmis tækifæri umræður um bankana og form á bönkum. Hæstv. iðnrh. og viðskrh. hefur lýst skilningi á því að það kunni að vera nauðsynlegt til þess að undirbúa íslenska bankakerfið undir aukna samkeppni að reka ríkisbankana í öðru formi en nú er gert, en enn þá hefur ekkert frv. komið fram frá hæstv. ríkisstjórn um þetta efni. En ég get sagt frá því að þingmenn Sjálfstfl. hafa í hyggju að endurflytja sitt frv. á þessu þingi, en þeir hafa á undanförnum þingum flutt frv. þess efnis að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélagaform.
    Þá er gert ráð fyrir því hér að frá 1. jan. nk. geti erlendir hlutafélagabankar sem skráðir eru erlendis starfrækt rekstur útibúa hér á landi. Ég ætla ekki að vera margorður um þetta ákvæði en bendi á að hæstv. viðskrh., yfirmaður bankamála hér á landi, gerði við þetta athugasemd í sinni ræðu í gær. Ég vil enn fremur benda á að svo virðist sem hæstv. viðskrh. hafi í ýmsum efnum aðra skoðun en a.m.k. sumir stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar og kem ég síðar að því í mínu máli.
    Um 6. liðinn ætla ég ekki að vera margorður en varðandi 7. liðinn er nauðsynlegt að taka fram nokkur atriði.

    Hæstv. viðskrh. minntist á 7. liðinn í sinni ræðu hér í gær og taldi hann vera mjög þungan í vöfum. Undir það vil ég taka. Og þó vil ég sérstaklega benda á að í niðurlagi 7. tölul. 4. gr. er gert ráð fyrir því að heildarfjárfesting erlendra aðila í hverri atvinnugrein fyrir sig megi ekki fara yfir 25% nema til komi leyfi viðskrh. Ég tel að mjög erfitt sé að framkvæma þessa yfirlýsingu og ég tel alls óeðlilegt að viðmiðunin sé mat Þjóðhagsstofnunar. Ég tel það ekki vera mjög góðan lagagrundvöll að eitthvað sé ,,að mati Þjóðhagsstofnunar``, og það
verði að vera skýrari og fastari grundvöllur sem menn nota, grundvöllur sem þá er lögbundinn helst. En ég bendi á að hérna koma alls konar vandkvæði upp, t.d. þau hvort miða eigi við allan iðnaðinn. Á að miða eingöngu við byggingariðnað? Á að miða eingöngu við skóiðnað á Íslandi o.s.frv.?
    8. liðurinn er óbreyttur frá því sem var í fyrra frv. 9. liðurinn nokkuð breyttur en þó í sömu stefnu og áður hafði verið í fyrri frv.
    Í 5. gr. frumvarpsins vil ég gera þá athugasemd og gera þá fyrirspurn til hæstv. forsrh. í leiðinni --- og þá ef hæstv. viðskrh. kýs að taka það mál upp enn fremur: Hvernig stendur á því að Seðlabanki Íslands skuli birta opinberlega upplýsingar um fjárfestingu erlendra aðila eins og kemur fram í 2. mgr.? Er ekki nóg að Seðlabankinn safni saman þessum upplýsingum og þær séu til haldbærar? Hvers vegna á að birta þessar upplýsingar á hverju ári frekar en upplýsingar um fjárfestingar íslenskra aðila í innlendum atvinnurekstri? Er ekki aðalatriðið að Seðlabankinn fyrir hönd íslenskra stjórnvalda fylgist með og geti gefið stjórnvöldum og öðrum upplýsingar þegar á þarf að halda án þess að honum sé það skylt í upphafi hvers árs?
    Ég ætla ekki hér í 1. umr. að ræða um búsetuhugtakið og lögheimilishugtakið og hvort ástæða sé til þess að gera það að skilyrði stundum að um lögheimili sé að ræða en í öðrum tilvikum búsetu. Þetta þarf hv. nefnd að athuga.
    Í 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að viðskiptaráðherra geti bannað erlendum aðila fjárfestingu hér á landi ef hann hefur verið sviptur réttindum til atvinnurekstrar með dómi í öðru ríki. Þetta er nýtt ákvæði sem er ástæða til þess að taka undir en kann að vera æði erfitt í framkvæmd.
    Í 10. gr. hefur orðið sú breyting frá fyrri frumvörpum að nú er gert ráð fyrir því að sú nefnd um erlenda fjárfestingu sem þar er gerð grein fyrir skuli kosin hlutfallskosningu í Sþ. Áður var gert ráð fyrir því að ráðuneytin tilnefndu menn í þessa nefnd. Ég skildi þá hugsun vel því að þá var verið að tilnefna sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum. Nú er þetta vald framselt til Alþingis sem þýðir auðvitað það að meiri hluti nefndarinnar getur haft pólitískt stefnuljós. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja en það þýðir í raun að álitaefni sem koma upp verða leyst fremur með pólitísku en faglegu mati. En síst situr á mér að koma í veg fyrir að Alþingi fái hér aukin völd og mun ég ekki beita mér gegn breytingu á þessu ákvæði þó að ég hafi skilið ákvæðið í fyrra lagafrumvarpi

ágætlega.
    Það hefði verið full ástæða til að ræða ýmislegt sem kemur fram í athugasemdum með frv. Ég beini því til hæstv. forsrh. að umsagnir sem bárust til nefndarinnar verði sendar til hv. fjh. - og viðskn. þannig að þingnefndin geti áttað sig á því hvernig frv. hefur breyst, en mér er kunnugt um það að frv. hefur breyst í ýmsum atriðum.
    Áður en ég held lengra er þó full ástæða til þess að geta um það hér að það er ein víkkun í þessu frv. frá fyrra frv. og það varðar leyfi útlendinga til að stunda útvarpsrekstur og blaðaútgáfu hér á landi. Það er vissulega athygli vert og full ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. að því hvernig á því stendur að núv. hæstv. ríkisstjórn telur ástæðu til að rýmka þetta ákvæði miðað við það ákvæði sem var í því frv. sem áður hafði verið samið. Ekki svo að skilja að ég hafi við þetta að athuga á þessu augnabliki, en a.m.k. er full ástæða til að fá skýringar á því til hvers þessi breyting var gerð.
    Á bls. 17 í greinargerðinni er fjallað um viðhorf innan OECD sem staðfesta það sem ég fyrr hef sagt í minni ræðu um þá stefnu sem þar er rekin.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að svo komnu máli að fara í frv. frekar, í einstök atriði þess. Hér er verið að samræma lagareglur, verið að eyða réttaróvissu og verið að undirbúa Íslendinga undir opnara samstarf við aðrar þjóðir. Um það er auðvitað gott eitt að segja þótt okkur kunni að greina á um einstök atriði frv. Hv. nefnd getur auðvitað fjallað um málið ítarlegar og þá kann að vera ástæða til að ræða það betur við 2. umr. málsins.
    Mig langar nú, eins og ég gat um í upphafi, til að ræða um annan þátt þessa máls, en hann snýr að því að þessi mál munu verða aftur á dagskrá þegar og ef Íslendingar ákveða að taka þátt í Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta er skýrt tekið fram, eins og ég hef áður sagt í minni ræðu, á bls. 18 í athugasemdum með frv.
    Það er öllum kunnugt, þeim sem hafa fylgst með umræðum um evrópska efnahagssvæðið hér á Alþingi, að meiri hlutinn, stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, höfnuðu því á sínum tíma að ríkisstjórnin fengi umboð til samninga. Hæstv. ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar hér á Alþingi höfnuðu því jafnframt að teknar yrðu upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið á sama tíma og töldu það geta spillt fyrir árangri í viðræðunum. Það er líka alkunna að hæstv. forsrh. gerði mjög mikið úr þeim fyrirvörum sem Íslendingar hefðu þegar, að mig minnir í mars árið 1989, var ákveðið að Íslendingar tækju þátt í þessu sameiginlega starfi EFTA - ríkjanna og yfirlýsing kom frá EFTA um það hvernig þessar viðræður við EB yrðu lagðar upp.
    Nú hefur það gerst á síðustu dögum að hæstv. forsrh. hefur verið sakaður um tvískinnung í þessum efnum öllum, ekki af hálfu stjórnarandstöðunnar, enda hefði slíkt verið reiknað sem árás stjórnarandstöðunnar á andstæðing í stjórnmálum. Þvert á móti hefur þessi árás komið úr herbúðum stjórnarsinnanna sjálfra

því að hinn 1. febr. sl. skrifar hv. 2. þm. Austurl. opið bréf til hæstv. forsrh. og þetta bréf er birt í málgagni forsrh. sjálfs. Það er full ástæða til þess þegar verið er að ræða um þessi mál að fjalla um þetta bréf, sem hv. 2. þm. Austurl. sendi hæstv. forsrh., og spyrja af því tilefni hver sé stefna hæstv. ríkisstjórnar varðandi viðræðurnar sem nú fara fram á milli annars vegar EFTA og Lichtenstein og hins vegar Evrópubandalagsins og spyrja jafnframt um það hvort hæstv. utanrrh. hafi fullt og óskorað umboð allrar hæstv. ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna þegar hann er að vinna að þessum málefnum. En eins og allir vita hefur það gerst í samningaviðræðunum að ýmsum fyrirvörum, sem voru til í upphafi, hefur verið ýtt út af samningsborðinu.
    Með leyfi forseta vil ég fjalla örlítið um þetta bréf sem varpar ljósi á það um hvað þetta mál snýst. Ég er engan veginn að gera það álit sem kemur fram í þessu bréfi að mínu, en þetta bréf varpar þó ljósi á þær hugmyndir sem eru uppi meðal a.m.k. sumra stjórnarsinnanna og hlýtur að leiða til þess að þess verði krafist af hæstv. ríkisstjórn að hún svari ýmsum grundvallarspurningum. Hv. 2. þm. Austurl. segir orðrétt m.a. í sínu bréfi, með leyfi forseta:
    ,,Það sem ég tel alvarlegast við málsmeðferðina hingað til er að ekki fara saman orð og efndir. Málið er kynnt og rekið á allt öðrum forsendum en látið var í veðri vaka þegar upp var lagt fyrir tveimur árum. Sáralítið er gert af ríkisstjórnarinnar hálfu til að varpa hlutlægu ljósi á þessar samningaviðræður. Almenningur fær rangar og villandi upplýsingar um þýðingarmikla þætti.``
    Hér er því haldið fram að ekki fari saman orð og efndir og málið sé rekið á allt öðrum forsendum en látið var í veðri vaka þegar upp var lagt. Þetta eru stór orð og þungur dómur um málsmeðferðina í þessu mikilvæga máli.
    Hv. 2. þm. Austurl. rifjar það upp sem menn vita að ef og þegar Íslendingar verða aðilar að Evrópusamstarfinu sem kallast Evrópska efnahagssvæðið, þá má gera ráð fyrir því að Íslendingar verði að taka inn í sína löggjöf á tilteknum tíma um það bil 1400 samþykktir Evrópubandalagsins og texta sem er upp á mörg hundruð ef ekki þúsundir blaðsíðna. ( HG: 11 þúsund.) Já, 11 þúsund blaðsíðna í sama broti og íslenska lagasafnið er í dag. Það er sú tala sem menn hafa verið að tala um. Það starf jafngildir að magni til líklega nokkurra áratuga starfi Alþingis. En auðvitað er það ekki samanburðarhæft því að okkur er ekki gefinn sá kostur, eðlilega, eins og í venjulegri löggjöf að gera þær breytingartillögur sem okkur sýnist því að að sjálfsögðu þegar um er að ræða viðskiptasamning --- ef menn kjósa að kalla þetta viðskiptasamning en ekki samstarf --- þá verður auðvitað að taka hann með þeim gæðum og göllum sem hann hefur að geyma þegar við tökum þessa afstöðu.
    Ég skil það svo, virðulegi forseti, að hæstv. forsrh. hafi vikið hér af fundi vegna þess að hann hafi lesið mjög ítarlega efni þessa bréfs og hann þurfi þess vegna ekki bæði að hlusta á það eftir að hafa lesið

það þannig að ég læt það átölulaust þótt hann sé ekki hér staddur rétt á meðan ég geri grein fyrir efni bréfsins. En auðvitað mun ég víkja spurningum til hans jafnframt sem ég æski þess að hann svari hér í umræðunni.
    Hv. þm. rifjar upp hvað hæstv. forsrh. sagði í Ósló 14. og 15. mars 1989, en þar sagði hæstv. forsrh. m.a. að hann teldi að Íslendingar gætu aldrei gefið sig á vald yfirþjóðlegum stofnunum. Við gætum aldrei afsalað okkur fullveldinu. Hann taldi líka og sagði það mjög skýrt í þessari yfirlýsingu að Íslendingar ættu að gera fyrirvara í þessu samstarfi, sérstaklega hvað varðar frelsi á sviði fjármagnshreyfinga, þjónustu og fólksflutninga. Og það sama sagði hann að ætti við um frelsi á sviði þjónustu og vinnuaflsflutninga. Og orðrétt sagði hæstv. forsrh., með leyfi forseta, í þessari yfirlýsingu sinni í Ósló:
    ,,Við erum að sjálfsögðu fúsir til að kanna þessi atriði en aðlögun verður að gerast smám saman og byggja á vandlegu mati á áhrifum slíks á íslenskt fullveldi.`` --- Þetta eru orðrétt ummæli úr yfirlýsingu hæstv. forsrh.
    Síðar í þessu bréfi gerir hv. 2. þm. Austurl. grein fyrir því hvernig fyrirvararnir hafi dottið út í umræðunum hver af öðrum þannig að lítið standi eftir af þeim fyrirvörum sem gerðir voru í upphafi og hv. þm. segir að hæstv. viðskrh. hafi með reglugerðarbreytingu í sumar í raun og veru tekið ráðin af hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkum.
    Hv. þm. gerir einnig grein fyrir því að líklega sé fríverslun með fisk úr sögunni í þessum viðræðum. En eins og þeir vita sem a.m.k. horfðu á sjónvarpið á dögunum þegar stjórnmálaforingjar okkar komu saman til að ræða um þessi mál, þá virðist það vera taktík eða strategía hæstv. utanrrh. að bíða með stærsta málið þar til á örlagastundu. Ég vil gjarnan ef hægt væri að forsrh. hlustaði á þetta. ( HG: Hann kannast við þetta allt saman.) Já, hann kannast við þetta allt saman en ég tel að í þessari umræðu hér þurfi hæstv. forsrh. að svara því til hvort hann styðji eindregið þá stefnu sem rekin hefur verið af hálfu utanrrn. um taktík eða strategíu, svo að maður noti nú erlend hugtök, í þessum viðræðum sem nú eiga sér stað. En þessi taktík byggir á því að á örlagastundu, á síðustu stundu geti Íslendingar treyst á aðrar EFTA - þjóðir þannig að þær taki á sig fórnarkostnaðinn. Það þýðir á mannamáli að þær muni t.d. taka það á sig að leyfa innflutning á landbúnaðarafurðum og öðrum varningi sem ekki átti að vera kannski í upphafi í þessum samningum upp á það að Íslendingar geti hindrunarlaust og tollalaust flutt inn fisk til Evrópuríkjanna innan Evrópubandalagsins. Þetta er sagt á sama tíma og Norðmenn auka styrki sína við norskan sjávarútveg.
    Ég er ekki að spyrja vegna þess að ég hafi á móti því að Íslendingar taki þátt í þessu samstarfi. Ég er að spyrja vegna þess að það kemur fram í bréfi hv. þm. að það sé allt öðruvísi farið með þetta mál heldur en hæstv. forsrh. lagði upp með. Það hlýtur þess vegna að vera krafa okkar að hæstv. forsrh. svari þessum atriðum nú við umræðuna.
    Ég ætla ekki að gerast miklu margorðari um þetta bréf hv. þm. Hann hefur að sjálfsögðu málfrelsi hér í hv. deild og ég efast ekkert um það ef hann fylgir venju sinni að hann taki hér til máls og tali a.m.k. eitt ,,hjörl`` sem mun vera um það bil 45 mínútur þegar hann kemur að þessum þætti. Fagna ég því að hann muni taka þátt í umræðunni, sem einnig hans sessunautur, hv. 4. þm. Norðurl. v., sem var einn af þeim mönnum sem sömdu þetta frv., en það er full ástæða til að hann komi hér og staðfesti að sú opnun sem hér á sér stað sé á ábyrgð Alþb. En ég rifja það upp að fyrr á þessu kjörtímabili hafði hv. þm. --- og ég gæti flett þeirri ræðu upp mjög einfaldlega --- mörg horn í síðu þess að verið væri að örva erlendar fjárfestingar hér á landi. Þau orð lét hann falla m.a. í umræðu um breytingu á iðnaðarlögunum á sínum tíma, en einmitt sú breyting er nú orðin hluti af því frv. sem hér liggur fyrir og hv. þm. stendur að.
    En í lok bréfs hv. 2. þm. Austurl. til hæstv. forsrh. er einmitt fjallað um þetta mál með þeim hætti að ég sé ekki betur en hæstv. forsrh. verði að koma hér í umræðuna og svara skýrlega fyrir sig.
    Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í þessa umræðu alla, en ég vil þó rifja upp að hæstv. forsrh. hafði nokkuð þung orð í garð dr. Gunnars G. Schram, prófessors í lögum, þegar Gunnar G. Schram leyfði sér að segja að það væri aðeins stigsmunur en ekki eðlismunur á þátttöku okkar annars vegar í Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar innan Evrópubandalagsins.
Og hæstv. utanrrh. lofaði landsmönnum því að hann ætlaði að tala við hæstráðandi yfirvald sitt hér á landi, sem er tengdamóðir hans, til að koma skikk á Schram-ættina. Ekki veit ég hvort það hefur verið reynt en hafi það verið reynt hefur það a.m.k. gjörsamlega mistekist því að dr. Gunnar G. Schram skrifaði grein í Morgunblaðið skömmu síðar og endurtók staðhæfingar sínar. Ég hygg því að hæstv. forsrh. verði a.m.k. að gera upp sinn hug og skýra frá því hvort hann fallist á þau sjónarmið sem koma fram hjá dr. Gunnari eða hvort hann sé við sama heygarðshornið og vilji loka augunum fyrir því að þátttaka í Evrópska efnahagssvæðinu þýðir auðvitað gjörbreytingu á því sem við í dag köllum fullveldi Íslendinga.
    Ég hef gerst, virðulegur forseti, nokkuð langorður um þetta atriði, sem ég tel mjög mikilvægt, því að hér á landi er því haldið fram að ríkisstjórnin sé sammála um hvernig standa beri að viðræðunum við Evrópubandalagið. Ég hef hins vegar fyllstu ástæðu til að halda að ríkisstjórnarflokkarnir séu margklofnir um þetta mál og þeir séu að reyna að ýta þessu máli á undan sér til þess að koma í veg fyrir að þessi ágreiningur blossi upp fyrir kosningar. Það eigi að reyna að ýta ágreiningnum það langt fram í tímann að ekki verði á hann minnst fyrr en eftir kosningarnar sem verða í apríl. Vonandi skýrist samt eitthvað þegar hæstv. forsrh. hefur svarað þeim fsp. sem til hans hefur verið beint um þetta málefni.
    Ég vil minna á í þessu sambandi að önnur þjóðþing, bæði norska þingið og sænska þingið, hafa tekið miklu meiri þátt í þessum undirbúningi í þessum viðræðum heldur en nokkurn tímann Alþingi Íslendinga. Þetta veit ég og hef heyrt frá þingmönnum bæði í Svíþjóð og Noregi. Og maður hlýtur að spyrja sig: Hvernig stendur á því að Alþingi Íslendinga tekur ekki þátt í þessu með sama hætti og þing sumra annarra EFTA-ríkja?
    Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að þó þessi gagnrýni komi fram á málsmeðferð ríkisstjórnarinnar og sá grunur læðist að manni að þar sé ekki allt með feldu, þá lít ég svo á og minn flokkur að taka eigi þátt í þessum viðræðum af fullum heilindum. Við bentum reyndar á það í upphafi að við vildum að ríkisstjórnin hefði umboð Alþingis, skýrt og afmarkað umboð Alþingis, til þeirra verka og jafnframt að Íslendingar tækju upp viðræður við Evrópubandalagið til þess að finna út hvort hægt væri að ná fram betri réttindum en við höfum nú með bókunum sem Evrópubandalagið hefur gert. En þar er bókun sex sú mikilvægasta.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég hef farið mjög ítarlega í nokkur helstu atriði frv. sem fyrir liggur. Ég hef jafnframt kosið að færa inn í umræðuna nokkur mikilvæg atriði sem snerta þau efnisatriði, ekki síst vegna þess að þau efnisatriði verða aftur til umræðu ef og þegar við gerumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þær viðræður sem þar fara fram hljóta að kalla á það að í umræðunni hér verði okkur gerð skýr grein fyrir því hvað þar er að gerast því það snertir í öllum meginatriðum það mál efnislega sem hér er til umræðu.