Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Ragnar Arnalds :
    Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu felur í sér almenna löggjöf um erlenda fjárfestingu á Íslandi. Það er byggt á starfi tveggja nefnda og átti ég sæti í síðari nefndinni sem um það fjallaði en hún skilaði af sér seint á seinasta ári.
    Tilgangur þessa frv. er að sjálfsögðu sá að samræma lagaákvæði um fjárfestingu erlendra aðila en ákvæði um þetta efni eru á víð og dreif í íslenskri löggjöf.
    Það hafa átt sér stað miklar umræður um stefnumótun Íslendinga í framtíðinni gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu. Þar hefur margt verið samtímis í umræðu. Það er ljóst að þegar það Alþingi, sem þjóðin kýs í vor, kemur saman, þá fær það fljótlega það verkefni að svara einhverri stærstu og örlagaríkustu spurningu sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir um áratuga skeið, þ.e. spurningunni um samskipti okkar við Evrópubandalagið. Það er hins vegar afar auðvelt að villast og ruglast í myrkviði þessa máls sem er afar flókið. En ég sé ekki betur en allt bendi til þess að Íslendingar eigi þriggja kosta völ: Í fyrsta lagi geta þeir gengið formlega í Evrópubandalagið. Í öðru lagi geta þeir hugsanlega gert samning við Evrópubandalagið ásamt öðrum EFTA - ríkjum um svonefnt Evrópskt efnahagssvæði. Og í þriðja lagi geta þeir staðið utan við hvort tveggja og gert þá nýjan tollasamning við Evrópubandalagið.
    Auðvitað er höfuðnauðsyn að allir landsmenn átti sig á þeim reginmun sem er á þessum þremur kostum.
    Með aðild að Evrópubandalaginu eru dyrnar opnaðar upp á gátt fyrir fólki, fjármagni og fyrirtækjum frá Evrópu. Íslenska samfélagið verður þá hluti af stærri heild og t.d. yrðum við þá að opna landhelgi okkar milli 12 og 200 mílna fyrir bandalagsþjóðunum. Þessari leið höfnum við alþýðubandalagsmenn algjörlega.
    Evrópska efnahagssvæðið, sem er annar kosturinn, er millileið. Því er ætlað að opna tollfrjálsan markað innan Evrópubandalagsins fyrir EFTA - ríkin án þess að þau þurfi að gerast formlegir aðilar að Evrópubandalaginu. Ég vil taka það skýrt fram að við alþýðubandalagsmenn höfum samþykkt að kannað sé í viðræðum hvað í þessu gæti falist. En við höfum ítrekað hvað eftir annað að hafa verður fullan fyrirvara áframhaldandi um óskert forræði Íslendinga yfir landi sínu og landhelgi, atvinnulífi, efnahags - og menningarlífi. Í því sambandi vil ég taka alveg sérstaklega fram að við alþýðubandalagsmenn viljum halda fast við þá fyrirvara sem fram komu í ræðu hæstv. forsrh. í marsmánuði 1989 þegar þessar viðræður fóru af stað eða ákvarðanir voru teknar af hálfu EFTA um að hefja þær.
    Auðvitað er Evrópskt efnahagssvæði miklu skárri kostur fyrir Ísland heldur en aðild að Efnahagsbandalaginu og á þessu tvennu er reginmunur þótt sumir vilji reyna að rugla þessu sem mest saman og villa um fyrir fólki, jafnvel telja því trú um að á þessu sé

sáralítill munur. ( FrS: Hvort er reginmunur eðlis - eða stigsmunur?) Alveg hiklaust eðlismunur. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að á þessu stigi málsins er ekki hægt að átta sig á því hvort þessi leið er yfirleitt fær fyrir Íslendinga. Enn er of margt óljóst í sambandi við þessar viðræður og niðurstöðu þeirra, sérstaklega hvað varðar hina fjölmörgu fyrirvara sem óhjákvæmilegt er að Íslendingar setji í þessu samhengi til að hægt sé að fullyrða hvað hentar Íslendingum í þessu efni.
    Sérsamningur Íslands við Efnahagsbandalagið er svo aftur þriðja leiðin. Ég vil taka það sérstaklega fram að það væri sannarlega engin einangrunarstefna sem í því fælist. Þótt við hleyptum ekki þessum þjóðum alveg inn á gafl hjá okkur þá gætum við átt við þær stóraukið samstarf á fjölmörgum sviðum og við gætum aðlagað efnahagslíf okkar að alþjóðlegri þróun með ýmsum hætti og það er einmitt það sem í raun og veru er verið að gera með flutningi þess frv. sem hér er til umræðu um erlenda fjárfestingu á Íslandi. Það er frv. sem ætlað er að aðlaga íslenskt efnahagslíf að nokkru að þeirri alþjóðlegu þróun sem átt hefur sér stað í nálægum löndum og í því felst hiklaust nokkur opnun. En ég legg hins vegar áherslu á það að um leið er þar ákveðin varnarlína dregin til verndar íslensku atvinnulífi og ég teldi afar mikilvægt ef íslenskir stjórnmálaflokkar bæru gæfu til að fylkja sér um þá varnarlínu sem þar er dregin. Í þessu felst að samkomulag næðist milli stjórnmálaflokkanna um það að hér væru mörkin dregin. Í því felst þá um leið að um væri að ræða málamiðlun eins og þetta frv. að sjálfsögðu hlýtur að vera. Og ég þarf auðvitað ekki að taka það fram að ef við alþýðubandalagsmenn hefðum mátt ráða þessum málum alfarið sjálfir þá hefði þetta frv. að sjálfsögðu litið eitthvað öðruvísi út.
Frv. er málamiðlun. Það er ekkert leyndarmál. Sumir samstarfsaðilar í þessari ríkisstjórn vildu ganga lengra til opnunar eins og greinilega mátti heyra á máli hæstv. viðskrh. þegar hann ræddi þessi mál í gær. En við alþýðubandalagsmenn vorum með ákveðna áherslupunkta. Við lögðum sérstaka áherslu á það hvað íslenskt atvinnulíf er smávaxið og viðkvæmt og því mikilvægt að landsmenn hafi forræði þess í eigin höndum og við töldum að frv. hefði við umræður milli samstarfsflokkanna mótast og þróast á þann veg að hægt væri að una við, þannig að við ákváðum að standa að flutningi þess.
    Þau ákvæði sem við teljum hvað mikilvægust í þessu frv. snerta einmitt þá varnarlínu sem þarna er dregin. Ég nefni sérstaklega þá öryggisventla sem í frv. eru, annars vegar þann öryggisventil að ef fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi fer fram úr 250 millj. kr. á einu almanaksári skal sú fjárfesting háð sérstöku leyfi viðskrh. Þetta er ákveðinn öryggisventill sem við töldum mjög mikilvægan. Ég nefni í öðru lagi það ákvæði frv. að heildarfjárfesting erlendra aðila í hverri atvinnugrein fyrir sig fari ekki fram yfir 25% nema til komi leyfi viðskrh. Í þessu felst líka ákveðinn öryggisventill þó ég taki að vísu greinilega fram að við alþýðubandalagsmenn hefðum

kosið að þetta ákvæði hefði gilt um allar atvinnugreinar en ekki fyrst og fremst um almennan iðnað eins og hér er raunin. Þetta þyrfti að gilda einnig og ekkert síður um verslun og þjónustu.
    Ég tek það líka fram hvað bankana varðar að ég geri mikinn mun á því hvort erlendum bönkum er heimilað að kaupa upp íslenska banka eða kaupa sig inn í þá eða hvort þeim er einungis heimilað að setja upp eigin útibú í samkeppni við íslenska banka. Við alþýðubandalagsmenn lögðum áherslu á það að þessi síðari leið yrði valin og það varð ofan á og ég tel að lengra sé ekki hægt að ganga í þeim efnum, því það er auðvitað grundvallaratriði að Íslendingar hafi fullkomið vald á bankastarfsemi sem hér fer fram.
    Það eru ýmis áhersluatriði sem vissulega hefðu átt heima í þessu frv. Ég nefni bara sem dæmi að við alþýðubandalagsmenn hefðum talið að verja hefði átt íslenska menningarstarfsemi með sérstöku ákvæði til þess að koma í veg fyrir að erlendir aðilar hasli sér þar völl. Þetta náðist nú ekki fram við undirbúning málsins og verður þá að leggja áherslu á það atriði við önnur tækifæri. Einnig hefðum við viljað sjá þarna ákvæði sem fæli það í sér að reynt væri að vernda innlendan ferðamannaiðnað, enda er alveg ljóst að nái erlendar ferðaskrifstofur forustu í þessari atvinnugrein, þá mun það mjög þrengja atvinnumöguleika Íslendinga, ekki síst íslenskra leiðsögumanna.
    Þannig má ýmis dæmi nefna um það sem betur hefði mátt fara í þessu frv. en í heildina tekið töldum við samt það mikinn ávinning í því að í því fælist ákveðin varnarlína til verndar íslensku atvinnulífi að við vildum standa að flutningi þess.
    Auðvitað verður aldrei nógsamlega varað við því að Íslendingar opni ekki allt upp á gátt hvað varðar fjárfestingu erlendra manna á Íslandi.
    Ég minni á yfirlýsingu Verslunarráðsins, sem fram kom í greinargerð frá starfsmönnum Verslunarráðs, þar sem talið er að allt að 30% af verslun og þjónustu gæti komist á hendur erlendra manna ef útlendir menn fengju fullt frelsi til fjárfestingar í þessum atvinnugreinum hér á landi. Auðvitað væri okkur mikil hætta búin ef svo færi og það er enginn vafi á því að einmitt verslunin og þjónustan eru mikið áhyggjuefni. Íslendingar eru auðvitað ekki nein venjuleg smáþjóð. Þeir eru tuttugu sinnum fámennari en minnstu smáríkin sem eru að reyna að halda uppi raunverulegu sjálfstæði. Hér er fjármagn af ákaflega skornum skammti og hér eru engin íslensk stórfyrirtæki á alþjóðamælikvarða. Margar atvinnugreinar standa hér veikt og á ég þar ekki síst við dreifbýlisverslunina og ýmiss konar þjónustustarfsemi.
    Það er alveg ljóst að ef erlend stórfyrirtæki ná undirtökum í verslun og þjónustu þá er viss hætta á því að erlend fyrirtæki gætu komist bakdyramegin inn í íslenskan sjávarútveg, jafnvel þótt ákvæði væru af því tagi sem eru hér í þessu frv.
    Ég hjó eftir því að hv. 6. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir spurði hæstv. forsrh. að því hvort efni þessa frv. væri í samræmi við samningsstöðuna gagnvart hinu Evrópska efnahagssvæði og það væri sannarlega

ágætt að hæstv. forsrh. treysti sér til að svara þessari spurningu hér á eftir. Sjálfur get ég auðvitað auðveldlega gert það, því að mér sýnist einsýnt að svo er ekki. Í þessu frv. er greinilega gengið miklu styttra en gert hefur verið í viðræðunum um evrópskt efnahagssvæði. Í þessu frv. er einmitt dregin ákveðin varnarlína og það er ljóst að það er miklu meiri hætta á ferðum ef sú stefna yrði samþykkt sem virðist vera að mótast í viðræðunum um evrópskt efnahagssvæði. Hins vegar er ljóst hvort sem af þeim samningum verður eða ekki og hvort sem þeir ná meirihlutafylgi íslenskra alþingismanna þegar þar að kemur, að þörf er á samræmingu af því tagi sem felst í þessu frv. vegna þess að þá munu gilda tvenns konar ákvæði, annars vegar gagnvart þessum nýju samstarfsaðilum á evrópska efnahagssvæðinu og svo hins vegar ákvæði gagnvart öllum öðrum þjóðum.
    Herra forseti. Ég hef lagt áherslu á það í mínu máli hér að Íslendingar eiga þriggja kosta völ. Það er einmitt reginmunur á því sem uppi er í viðræðum um evrópskt efnahagssvæði annars vegar og því sem felst í þessu frv. hins vegar. 250 millj. kr. formúlan í þessu frv. er ekki til umræðu í viðræðum um evrópskt efnahagssvæði. 25% formúlan, sem ég nefndi hér áðan, er heldur ekki til umræðu í viðræðum um evrópskt efnahagssvæði. Ég held þess vegna að það fari ekkert milli mála að með samþykkt þessa frv. væri dregin ákveðin varnarlína og ég vildi sannarlega sjá það að allir alþingismenn treystu sér síðan til að standa við þá línu. ( SV: Er hún ekki of veik?) Hún þyrfti að vera traustari.