Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég get í rauninni tekið upp þráðinn þar sem hv. 6. þm. Norðurl. e. kom inn hér um það leyti sem síðasti hv. ræðumaður var að ljúka máli sínu, varðandi þá varnarlínu sem hugmyndin er að draga með því frv. sem við ræðum hér um erlendar fjárfestingar. Ég er þeirrar skoðunar að þessi varnarlína, sem menn hyggjast draga með lögfestingu þessa frv. eins og það liggur hér fyrir, sé of veik. Ég hefði talið að það þyrfti að draga þessa línu með verulega öðrum hætti. Ég hef algjörlega óbundnar hendur varðandi afgreiðslu þessa máls og það liggur fyrir í mínum þingflokki að ég áskil mér allan rétt til að taka afstöðu til þessa frv. óbundið, einstakra ákvæða þess, vegna þess að ég tel að hér sé um það stórt og mikilsvert mál að ræða að það sé útilokað að binda sig með þeim hætti sem hér er dregið vegna þess að hér eru mjög stórir hagsmunir fyrir þjóðina í húfi til lengri tíma litið.
    Ég tel að þetta frv. sé allt of seint fram komið hér í þinginu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég hefði talið að mál af þessum toga þyrfti að fá heilt þing til umræðu og athugunar ef vel ætti að vera. En jafnframt tel ég mjög mikilsvert að það séu lögfest ákvæði, samræmd ákvæði varðandi erlendar fjárfestingar þannig að ég er ekki með ágreining um þá stefnu sem lagt er upp með í þessu frv. að samræma ákvæði þar að lútandi sem vantar í sumum lögum, er í einstökum sérlögum, en vantar hins vegar á vissum sviðum algjörlega ákvæði um þetta efni. Ég get því tekið undir það markmið að sameina í eina löggjöf meginreglur varðandi erlendar fjárfestingar.
    Hér eru hins vegar tekin skref sem erfitt verður að stíga til baka og ástæðulaust er að taka svo stór nú og mun farsælla að flýta sér hægt í máli sem þessu því það er ekkert sem rekur á eftir, ekki íslenskir hagsmunir að ég fæ séð, að ganga svo langt eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.
    Inn í umræðu um þetta mál hafa dregist samningaviðræðurnar um evrópskt efnahagssvæði og viðhorf til Evrópubandalagsins. Það er út af fyrir sig ekkert skrýtið. En þeim mun nauðsynlegra er að menn geri sér ljóst hvort eitthvert samhengi er þarna á milli og hvert þetta samhengi þá er. Mér fannst það t.d. afar þokukennt, svo ekki sé nú meira sagt, þegar hæstv. forsrh. tók þennan þráð upp í umræðuþætti í sjónvarpinu 22. jan. sl., en það var einmitt daginn sem ríkisstjórnin náði saman um það frv. sem hér er lagt fram. Og það voru fleiri ráðherrar í þeim þætti sem gerðu mikið úr því að þarna væri verið að draga skýr mörk og fyrir áheyrandann mátti ætla að verið væri að tala um það að þau mörk sem hér eru dregin mundu þá einnig gilda sem almennir fyrirvarar í sambandi við hið Evrópska efnahagssvæði. Nú kann að vera að talsmenn ríkisstjórnarinnar hafi bara verið það óskýrir í sínu máli, en öðruvísi varð þetta ekki skilið. Ég hef þessa texta hér, þarf ekki að vitna til þeirra.
    Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að menn átti sig á því að á sama tíma og þetta frv. er hér fyrir

lagt þá er það stefna ríkisstjórnarinnar, a.m.k. hluta ríkisstjórnarinnar, að reyna að ganga frá samningi um evrópskt efnahagssvæði með vorinu. Ef slíkur samningur yrði gerður sem varðar svið þar sem um 2 / 3 hlutar af útflutningi okkar, utanríkisviðskiptum, eru þessa stundina, þetta evrópska efnahagssvæði, þá stæði ekki steinn yfir steini í því sem hér er á ferðinni varðandi ýmsa þætti. Varðandi einstaka atriði er samræmi og sambærileg ákvæði sem gert er ráð fyrir, en varðandi meginmyndina þá mundi þetta frv. víkja fyrir lögfestingu þess samnings sem menn þar eru að tala um og margar af þeim hindrunum, sem hér eru fram settar, mundu fjúka út í buskann. Þá giltu ákvæði þessa frv. fyrir aðila utan svæðisins, utan EES. Það er mál út af fyrir sig. Það getur verið á sínum stað að hafa slíka almenna löggjöf og ganga svo lengra gagnvart tilteknu svæði í einhverjum samningi ef menn eru efnislega á því að það skuli gert. En umfram allt mega menn ekki leggja málin rangt fyrir. Það þarf að vera þingi og þjóð ljóst hvert verið er að fara og samningurinn um EES gengur svo miklu lengra um ýmsa þætti mála. Og ef áformin ganga upp þá er það skammt undan og þá er það verkefni næsta þings, ef ekki sumarþings, að fjalla um slíkan samning, fella hann eða lögfesta.
    Þeir þættir sem ég geri efnislegar athugasemdir við í þessu frv. eru satt að segja margir. Ég vil, virðulegur forseti, aðeins nefna hér örfá atriði.
    Ég tel að sú almenna opnun, sem hér er um að ræða varðandi atvinnulíf og fjármálastofnanir fyrir erlenda þátttöku og erlendar fjárfestingar --- að ekki sé nú talað um reglugerðina sem hæstv. viðskrh. smellti hér á á sumardögum þegar þingið var ekki að störfum og ríkisstjórnin meira og minna út um allar koppagrundir, þá var bara í einu vetfangi, með einni reglugerð opnað fyrir fjármagnsflutninga til og frá landinu í áföngum en þannig að frá 1. jan. 1992 eru þar engar hömlur uppi nema varðandi skammtímafjármagnshreyfingar. Þegar þetta er tekið saman, opnunin fyrir erlenda banka, opnunin fyrir fjármagnshreyfingar, þá tel ég að þau atriði, sem eru góðra gjalda verð í 4. gr. frv. varðandi íslenskan sjávarútveg, varðandi fiskveiðar og hluta af íslenskri fiskvinnslu, muni reynast heldur haldlítil í raun vegna þess að leiðirnar fram hjá, ef ekki beint þá óbeint, með fjármálalegum tökum á veiðum og vinnslu séu það auðveldar að þar verði ekki miklum vörnum við komið, þegar hagkerfið að öðru leyti er orðið gegnsýrt af erlendum fjárfestingum, erlendum hagsmunum og möguleikum á því að flytja hingað fjármagn án þess að spyrja kóng eða prest í fjárfestingar og til þess að bjóða innlendum fyrirtækjum, til láns ef ekki með beinum hætti sem hlutafé.
    Ég vil líka benda á, og það tel ég einn stóran galla á þessu frv., ákvæðin sem fela það í sér að það sé opnað fyrir fjárfestingu upp í 100% gagnvart meginhluta þjónustufyrirtækja og iðnaðar í landinu. Þar eru engar hömlur settar með þessu frv. Hér hefur verið tekið dæmi og ég tel það gott dæmi sem hv. 6. þm. Reykv. kom með hér inn í umræðuna. Það er ein af

þeim greinum sem teljast til vaxtarbrodda í íslensku atvinnulífi, ferðaþjónustan. Hvað halda menn að gerist í íslenskri ferðaþjónustu eftir að búið er að lögfesta ákvæði sem þessi? Í grein sem auðveldara er fyrir útlendinga heldur en varðandi flest annað að koma inn í til þess að taka af toppana, fleyta rjómann ofan af og stýra þessari grein og flytja hagnaðinn af henni úr landi. Það er það sem menn eru að gera hér. Og hvernig er eignastaðan almennt í íslenskum fyrirtækjum, þar á meðal í íslenskum iðnfyrirtækjum, og aðgangur til þróunar í sjávarútvegi sem á að opna hér fyrir, í úrvinnslu, pökkunariðnaði og frekari úrvinnslu? Hvernig haldið þið að staðan sé hjá innlendum fyrirtækjum til þess að standast freistingar erlends fjármagns sem auðvitað reynir að koma sér inn þar sem matarholur eru, þar sem arð er að fá? Og þar er sannarlega opnað fyrir með þeim ákvæðum sem hér liggja fyrir. ( Forseti: Forseta þykir lakara að þurfa að trufla hv. 2. þm. Austurl. í ræðu sinni en . . . ) Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt. Ég ætlaði ekki að halda hér langa ræðu við þessa umræðu þó að full ástæða væri til þess. Ég vil spyrja virðulegan forseta hvenær áformað er að halda fundi áfram. ( Forseti: Ef hv. þm. er tilbúinn að fresta ræðu sinni núna, það er komið að venjulegum þingflokkatíma, þá mun forseti leitast við að reyna að halda þessari áfram á föstudag ef um það næst samkomulag við þingflokkaformenn að hafa fund í deildinni á föstudaginn.) Virðulegur forseti. Þar sem óvíst er af sérstökum ástæðum að ég geti verið viðstaddur þá umræðu þá ætla ég að láta máli mínu lokið með ábendingu um eitt, ef ég fæ leyfi forseta til, en það er ákvæði í greinargerð á bls. 17 þar sem vikið er að viðhorfum innan OECD. Þar er að finna ákveðinn hugmyndagrunn á bak við þá stefnu sem hér er verið að taka. Ég vil bara vekja athygli á því hvað sá hugmyndagrunnur er hæpinn að mínu mati, svo ekki sé meira sagt, sem þar er fram dreginn og sem er undirstaða undir þá hyggju að úrlausnirnar í íslensku atvinnulífi felist í því að opna hér fyrir útlendinga með þeim hætti sem gert er með þessu frumvarpi og enn frekar í stórum samningi sem er í undirbúningi og með alla möguleika erlends fjármagns til þess að fara þar inn í matarholur og flytja arðinn úr landi.
    Þetta er stefna sem ég trúi ekki á að sé til farsældar fyrir Íslendinga. Því hef ég alla fyrirvara á varðandi afstöðu til þessa máls.