Sala hlutabréfa í Gutenberg hf.
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fjmrh. fyrir þessi svör þótt þau séu nú óttalega rýr. Reyndar vekur furðu að þessi heimild skuli sett í fjárlög án þess að menn viti hvað þeir ætli sér að gera við hana eða hafi eitthvert ákveðið markmið með því. Ég hef grun um að það sé e.t.v. að undirlagi iðnrn. sem þessi heimild er komin í fjárlögin, enda heyrir þessi prentsmiðja undir það ráðuneyti. En mér kemur mjög á óvart ef menn hafa bara sett þetta þarna inn svona upp á grín án þess að hafa nein ákveðin áform eða markmið í huga varðandi þetta. Það ber þá nýrra við í stjórnarháttum hv. núv. valdhafa, a.m.k. að þeirra eigin dómi, ef þeir vita ekkert hvað þeir eru að vilja með því að óska eftir heimildum í takt við þessa hér.
    Hins vegar er það alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að sá sem hér stendur er áhugamaður um sölu ríkisfyrirtækja og hlutabréfa sem ríkissjóður á í margvíslegum atvinnurekstri. Það er hins vegar ekki sama hvernig að því er staðið. Það mál sem hann drap hér á í upphafi síns máls og ég sömuleiðis er hins vegar þess eðlis að það verður rætt hér sérstaklega vænti ég og því fyrr því betra, en ástæðulaust að fara um það fleiri orðum á þessu stigi.
    Ég vil einungis ítreka það að ég er hlynntur því að þessi heimild sem hér er fengin verði nýtt með skynsamlegum hætti, en mér kemur á óvart ef ríkisstjórnin hefur ekki getað komið sér saman um það af hverju hún var að óska eftir þessari heimild og hvernig hún ætlar sér að hagnýta hana.