Eftirlit með síbrotamönnum
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Í okkar tiltölulega vel upplýsta velferðarþjóðfélagi er þó nokkur hópur fólks sem telja má að séu síbrotamenn. Fáir í þessum hópi hafa þó framið alvarlega glæpi. Þó eru þar innan um nokkrir einstaklingar sem eru samfélaginu hættulegir.
    Kynferðisafbrot eru óhugnanlega tíð hér í okkar samfélagi miðað við hversu fámennt það er. Þó hafa kannanir leitt í ljós að aðeins sárafá þessara afbrota koma fram í dagsljósið. Kynferðisafbrot eru ofbeldisverk, ein grófasta tegund ofbeldis. Þetta ofbeldi er þeim mun svívirðilegra sem það bitnar eingöngu á þeim sem minna mega sín, konum og börnum. Þessi afbrot hafa vakið almennan viðbjóð og reiði, einkum þau sem framin eru gegn börnum. Því hlýtur það að vekja ugg og kvíða allra að þeim mönnum sem hafa framið hvað alvarlegust brot gegn börnum skuli hleypt óhindrað út í þjóðfélagið þegar er þeir hafa afplánað dóm, sem oftast er þó undarlega vægur, hversu oft sem þeir hafa brotið af sér. Ráðaleysi þjóðfélagsins virðist algert gagnvart þessum mönnum. Séu þeir geðsjúkir er enginn staður til þar sem hægt er að vista þá og forða samfélaginu frá tilhneigingum þeirra. Séu þeir sakhæfir afplána þeir dóm ákveðinn tíma, síðan er þeim sleppt út í samfélagið þar sem þeir brjóta af sér enn á ný.
    Þess er nú skammt að bíða að látnir verði lausir úr fangelsi tveir menn sem hafa framið alvarleg ofbeldis - og kynferðisafbrot. Hefur fangelsisvistin bætt þá og leitt þá frá villu þeirra fyrri vegar? Hefur fangelsi reynst þeim betrunarhús? Verða foreldrar að búa við sífelldan ótta og kvíða vegna barna sinna? Eiga börnin að búa við það að geta átt von á árás af völdum slíkra manna? Því leyfi ég mér að beina fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. á þskj. 554:
    ,,Eru síbrotamenn og þeir sem gerst hafa sekir um sérlega alvarleg afbrot undir sérstöku eftirliti stjórnvalda þegar þeir hafa afplánað dóm?
    Ef svo er, hvernig er slíku eftirliti háttað og er þörfin á eftirliti byggð á mati sérfræðinga á því hverjar líkur séu til þess að afbrotamaður brjóti ekki af sér á ný?
    Ef svo er ekki, eru þá einhver áform um að taka upp slíkt eftirlit byggt á sérfræðilegu mati?``