Eftirlit með síbrotamönnum
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 7. þm. Norðurl. e. beinir til mín þremur fyrirspurnum um eftirlit með síbrotamönnum.
    Í fyrsta lagi er spurt: ,,Eru síbrotamenn og þeir sem gerst hafa sekir um sérlega alvarleg afbrot undir sérstöku eftirliti stjórnvalda þegar þeir hafa afplánð dóm?``
    Þegar fanga er veitt reynslulausn eða dómþola er veitt náðun af refsingu er það almennt gert með þeim skilyrðum að viðkomandi fremji ekki refsivert brot á skilorðstíma og sæti umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar. Þeir fangar sem afplána refsingu sína að fullu eru aldrei undir eftirliti eftir að afplánun lýkur, enda engin heimild til slíks að lögum.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Ef svo er, hvernig er slíku eftirliti háttað og er þörfin á eftirliti byggð á mati sérfræðinga á því hverjar líkur séu til þess að afbrotamaður brjóti ekki af sér á ný?``
    Eftirlit er almennt með þeim hætti að eftir losun úr fangelsi er viðkomandi boðaður á skrifstofu Fangelsismálastofnunar þar sem honum er kynnt innihald eftirlits o.fl. Þeim sem eru undir eftirliti er síðan gert skylt að hafa samband við Fangelsismálastofnun a.m.k. einu sinni í mánuði og oftar ef ástæða þykir til og einnig ber þeim að tilkynna breytingar á dvalarstað og vinnu. Ef þessu er ekki sinnt hefur Fangelsismálastofnun frumkvæði að því að setja sig í samband við viðkomandi og kanna hvers vegna tilkynningarskyldu hefur ekki verið sinnt. Auk þessa fylgist Fangelsismálastofnun með því hvort þeir sem eru undir eftirliti gisti fangageymslur lögreglu eða eru grunaðir um að hafa framið afbrot. Þá hefur Fangelsismálastofnun samstarf við félagsmálastofnanir og fleiri aðila varðandi málefni einstakra skjólstæðinga sinna.
    Þetta sem hér hefur verið lýst eru almennar reglur en að sjálfsögðu er það háð mati starfsmanna Fangelsismálastofnunar í hverju tilviki hvernig eftirliti gagnvart einstökum mönnum er háttað. Ef vitað er eða ástæða er til að óttast að þeir sem eru undir eftirliti lifi ekki reglusömu líferni hefur stofnunin frumkvæði að því að setja sig í samband við viðkomandi og reynir með fyrirbyggjandi aðgerðum að koma í veg fyrir að þeir fremji refsiverðan verknað á ný. Í þessu sambandi get ég upplýst að undanfarin ár hafa um 67% þeirra sem veitt hefur verið reynslulausn staðist skilorð hennar og hlutfallið er mun hærra meðal þeirra sem veitt hefur verið skilorðsbundin náðun.
    Í þriðja lagi er spurt: Ef svo er ekki, eru þá einhver áform um að taka upp slíkt eftirlit byggt á sérfræðilegu mati?
    Hér að framan hef ég lýst því að flestir þeirra sem veitt er reynslulausn eða eru náðaðir eru háðir eftirliti. Ég hef einnig sagt að eftirliti sé ekki til að dreifa í þeim tilvikum þegar dómþoli afplánar refsingu sína að fullu. Í slíkum tilfellum er litið svo á að viðkomandi hafi gert að fullu upp sakir sínar við þjóðfélagið vegna afbrotsins eða afbrotanna. Eftirlit er hluti af refsivörslu þess opinbera og ef því væri beitt gagnvart dómþola sem afplánað hefur refsingu sína að

fullu væri í reynd verið að beita viðkomandi strangari viðurlögum en refsidómur kveður á um.