Eftirlit með síbrotamönnum
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svör hans en satt að segja sýndist mér nú að þarna væri umtalsverð brotalöm í dómskerfinu vegna þess að það er sama hversu alvarlegan glæp maður hefur framið, ef hann afplánar sinn dóm að fullu þá má ekki þyngja dóminn með því að hafa manninn undir eftirliti þó vitað sé að hann sé samfélaginu hættulegur. Þetta finnst mér mjög alvarlegt mál einkum með tilliti til þess að þeir menn, sem í rauninni eru undirrót þess að þessi spurning kemur fram, hafa sýnt sig að vera samfélaginu hættulegir. Þeir hafa afplánað sinn dóm og það er engin trygging fyrir því að þeir fremji ekki afbrot á ný þegar þeir koma út, en samt sem áður þykir ekki ástæða til að þyngja dóm þeirra með því að hafa þá undir eftirliti.
    Ég vil ekki una því að börn og foreldrar séu réttminni en einstaklingur sem brýtur gegn þeim og það hlýtur að vera ástæða til, í ljósi þess hve brot þessara manna eru alvarleg, að yfirvöld hafi eitthvert eftirlit eða hafi einhvern viðbúnað til að fylgjast með þeim, að fólk þurfi ekki að búa við ótta og kvíða vegna barna sinna af því að þessir menn ganga lausir í samfélaginu.