Hraðamælingar í íbúðahverfum
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Nú í janúar var birt yfirlit yfir þá ökumenn sem sviptir voru ökuleyfi fyrir of hraðan akstur í Reykjavík á liðnu ári. Kom þar fram fjöldi þeirra er sviptir voru, aldursskipting þeirra og hlutfall karla og kvenna. Fram kom að 208 ökumenn voru sviptir ökuleyfi, að helmingur þeirra var undir tvítugu og að af þessum 208 voru 16 konur. Þeir sem sviptir eru ökuréttindum vegna hraðaksturs hafa verið staðnir að því að aka meira en 50 km á klukkustund hraðar en lög leyfa á viðkomandi akbraut.
    Þær varnir sem algengast er að grípa til í íbúðahverfum til að afstýra hraðakstri eru svokallaðar hraðahindranir, þ.e. þrengingar eða upphækkanir á vegi, og svo að lögbinda hámarkshraða, t.d. 30 km hámarkshraða. Það er oft sterklega knúið á um slíkar aðgerðir af hálfu foreldra sem búa í barnmörgum hverfum en hins vegar getur það oft verið erfitt fyrir viðkomandi yfirvöld að átta sig á því hver nauðsyn sé á aðgerðum á viðkomandi svæði eða hvers eðlis þær skuli vera. Þess vegna er það athyglisvert að fram hefur komið að lögreglan hefur nú eignast radar sem settur er upp á ákveðnum stöðum og látinn ganga í langan tíma. Geymir hann allar upplýsingar í tölvutæku formi og má síðan vinna úr þeim gögnum og fá ítarlegar upplýsingar um umferðina á viðkomandi stað. Slíkt tæki hlýtur með tíð og tíma að auðvelda mjög matið á aðhaldsaðgerðum.
    En það er ekki nóg að auðveldara sé að leggja mat á t.d. að lögbinda verði í ákveðnum hverfum eða á ákveðnum götum 30 km hámarkshraða ef ekki er farið að tilmælum um aksturshraðann. Á síðustu árum hefur lögreglan verið mjög dugleg að radarmæla og við öll höfum orðið vör við það á ferð okkar og á það ekki síst við um götur við og umhverfis grunnskólana. En hversu mikil áhersla er lögð á að fylgjast með aksturshraða í íbúðahverfum? Þær spurningar sem ég hef borið fram í fyrirspurn minni til dómsmrh. eru:
    Hversu oft á síðasta ári mældi lögreglan ökuhraða um götur í íbúðahverfum þar sem 30 km hámarkshraði er í gildi:
    a. í Reykjavík,
    b. í nágrannabyggðum?
    Hver var meðalhraðinn úr þeim mælingum og hversu margir voru sviptir ökuréttindum vegna slíkra brota, hafi verið um það að ræða?