Reiðvegaáætlun
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Frsm. allshn. (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Allshn. hefur fjallað um till. til þál. um reiðvegaáætlun og skilað frá sér svohljóðandi nál.:
    ,,Nefndin hefur fjallað um þáltill. Umsagnir bárust frá Skipulagi ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Náttúruverndarráði, Vegagerð ríkisins, Fjárlaga- og hagsýslustofnun og Ferðaþjónustu bænda.
    Í greinargerð með tillögu þessari kemur fram að hún er flutt samhliða tveimur frumvörpum til laga sem nú eru til meðferðar í nefndum þingsins, 114. og 115. máli. Fjalla þau um breytingu á vegalögum og fjáröflun til vegagerðar. Allsherjarnefnd telur ekki ástæðu til þess að tengja tillögu þessa við þau frumvörp enda þótt þau fjalli um náskyld atriði. Nefndin telur vert að kanna ástand reiðvega hérlendis og að gerð verði áætlun um uppbyggingu reiðvega. Það verður síðan samgönguráðherra, eða þingmanna, að meta hvort rétt sé að flytja lagafrumvörp sem kveða á um framkvæmd slíkrar áætlunar. Því er tillögugreininni breytt í þá veru að felld eru úr henni þau atriði sem nefndinni ber að fara eftir þar sem ekki er ætlast til þess að reiðvegaáætlun greini frá framkvæmdum í smáatriðum, og eins er fellt úr tillögugreininni að áætlunin skuli gerð til fjögurra ára í senn. Hins vegar leggur nefndin ríka áherslu á að í nefndinni, sem samgönguráðherra skipar, sitji fulltrúar hestamanna og sveitarstjórnarmanna og fullt samráð verði haft við samtök þeirra.
    Nefndin leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Kristinn Pétursson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.``
    Undir þetta nál. skrifa Guðni Ágústsson, Jón Kristjánsson, Karl Steinar Guðnason, Guðrún Helgadóttir, Ingi Björn Albertsson, með fyrirvara, og Eggert Haukdal.
    Breytingartillagan hljóðar svo:
    ,,Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd með þátttöku samtaka hestamanna og sveitarfélaga til þess að kanna ástand reiðvega og gera reiðvegaáætlun.``