Afnám einkasölu ríkisins á tóbaksvörum
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 358 leyfi ég mér að leggja fram till. til þál. um afnám einkasölu ríkisins á tóbaksvörum. Flm. ásamt mér er hv. þm. Friðrik Sophusson.
    Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. til laga um afnám einkasölu ríkisins á tóbaksvörum og aðrar nauðsynlegar lagabreytingar í því sambandi. Frv. heimilar frjálsan innflutning og dreifingu á tóbaksvörum án þess að dregið sé úr þeim tekjum sem ríkissjóður hefur nú af sölu tóbaksvara.``
    Með tillögu þessari er lagt til að innflutningur og heildsala á tóbaki verði gefin frjáls og jafnframt verði gjaldtaka ríkisins af tóbaksvörum einfölduð þannig að tekið verði upp eitt gjald, tóbaksgjald, er lagt sé á tóbaksvörur í stað þeirra gjalda og skatta sem leggjast nú á þessar vörur. Eðlilegra er fyrir ríkið og mun einfaldara miðað við núverandi aðstæður að afla þeirra tekna af tóbaksvörum, sem taldar eru æskilegar á hverjum tíma, með beinni skattlagningu á innflutning þess og framleiðslu í stað þess að ná tekjum þessum inn með einkasölu. Það er óviðeigandi í ljósi þess hve skaðsemi tóbaksneyslu er talin ótvíræð að ríkið skuli stunda verslun með tóbak.
    Hæstv. forseti. Það hefði verið ánægjulegt að hafa hér viðstaddan hæstv. fjmrh. til þess að kalla eftir viðhorfum hans til þessara breytinga á einkasölu ríkisins með tóbak, sérstaklega í ljósi þess að ég hef heyrt að hann sé ekki fráhverfur þeim hugmyndum sem hér eru lagðar fyrir. Ég ætla ekki að fara í sögulega skýringu á hvernig einkasölu var komið á, en það hefur sennilega verið milli 1920 og 1930. Það má hins vegar geta þess að á árunum 1983 -- 1984 var lagt hér fram frv. til laga um svipað efni. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til að athuga hvort hæstv. fjmrh. er í húsinu og óskað eftir því að hann komi þá og hlusti á mál hv. þm.) Hæstv. forseti, ég þakka skjót viðbrögð. Þetta var kannski ekki beint krafa af minni hálfu en það hefði verið æskilegt að heyra viðhorf ráðherra hér úr ræðustól en ekki úr einhverjum hliðarherbergjum. Ég var að segja frá því að lagafrv. um þetta efni hafi verið lagt fram hér á árunum 1983 -- 1984 og þá hafi það nánast verið komið í gegn. Það var afgreitt úr fyrri deild og kom, ef ég man rétt, til 2. umr. í seinni deild þegar það einhverra hluta vegna strandaði þar.
    Sú breyting sem hér er gert ráð fyrir felur það í sér að ríkið mun ekki tapa tekjum. Öllu frekar má segja að ríkið muni hagnast á því að færa þetta út í einkageirann, þar sem þetta mál á vissulega heima. Fyrir því eru margvísleg rök. Í fyrsta lagi má nefna að ríkið sparar sér verulega í húsnæðiskostnaði. Það sparar sér verulega í fjármagnskostnaði. Það sparar sér verulega í dreifingarkostnaði. Það sparar sér verulega í starfsmannahaldi svo að eitthvað sé nefnt.
    Áhyggjur manna af því að þetta muni auka neyslu á tóbaki er náttúrlega út í hött. Hins vegar mundi þetta auka úrvalið á markaðnum en ekki neysluna, þar

sem neyslan á tóbaki fer ekki eftir framboði og heldur ekki eftir verði. Hins vegar mundi verðið ekkert breytast og varan á engan hátt verða ódýrari.
    Hins vegar er það athyglisvert að ríkið skuli í dag vera að flytja inn vöru sem er seld í verslunum nánast eins og prins póló eða tyggjó eða hvað sem er. Þetta fæst í hvaða sjoppu og á hvaða götuhorni sem er og er selt sem almenn neysluvara.
    Í dag er ríkið að stunda þessa þjónustu nánast fyrir tvo umboðsaðila. Það eru þeir aðilar sem sitja að yfir 90% af tóbaksmarkaðnum og þætti nú einhverjum þægilegt að vera í þeirri stöðu að geta fengið ríkið til að annast um alla slíka hluti fyrir sig. Auðvitað á þessum umboðsaðilum, og ég hygg að þeir vilji það sjálfir, að vera frjálst að stýra sjálfir sínum innkaupum, sínum pöntunarstærðum og með því móti gera það sem þeir geta til þess að ná verði niður og ná sem hagstæðustum verðum og greiðslukjörum. Þeir eiga líka að stýra markaðssetningu og þeir eiga að stýra dreifingu.
    Þannig finnst mér, hæstv. forseti, að hér sé um mjög sjálfsagt og eðlilegt mál að ræða og er gott dæmi um atvinnurekstur sem ríkið á ekki að vera að vasast í og er betur komið í höndum einstaklinga.
    Það má geta þess að árið 1989 var nettóhagnaður af tóbakssölu í landinu 1 milljarður 840 millj. Hér er því um verulegar upphæðir að ræða.
    Hæstv. forseti. Ég hef flutt þetta mál hér áður og tel ekki ástæðu til að orðlengja neitt sérstaklega um það. Ég vil hins vegar af því að ég finn að hér í Sþ. er greinilegur stuðningur við málið, hér er full deild af áhugasömum þingmönnum sem greinilega ætla að taka til máls og styðja þetta mál, þá vil ég að afgreiðslu þess verði lokið sem fyrst og það komist til nefndar þar sem ég hef mikinn áhuga á því að fá þetta mál í gegn á þessu þingi.
    Að lokinni fyrri umr. legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.