Vegalagning í óbyggðum
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Flm. (Jónas Hallgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 572 flyt ég ásamt hv. þm. Jóni Kristjánssyni, Kristni Péturssyni, Valgerði Sverrisdóttur, Jóni Helgasyni, Málmfríði Sigurðardóttur, Jóni Sæmundi Sigurjónssyni og Eggert Haukdal till. til þál. um vegalagningu í óbyggðum. Tillagan er eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að sett verði á laggirnar formleg samstarfsnefnd Vegagerðar ríkisins, Orkustofnunar og Landsvirkjunar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við vegi samhliða línulögnum á hálendi Íslands á næstu árum.``
         Í grg. með till. kemur fram að fyrir hendi eru mótuð áform um að ráðast í verklegar framkvæmdir við virkjanir og línulagnir á hálendi landsins á næstu árum. Samkvæmt lögum er það Landsvirkjunar að standa fyrir þeim ásamt nauðsynlegum slóðum eða vegum. Eins og nú háttar hefur Vegagerð ríkisins ekki möguleika til formlegra afskipta eða þátttöku í ákvörðunum og framkvæmdum. Og þó vitað sé að samband sé á milli Vegagerðar ríkisins og Landsvirkjunar um þessi mál er þar ekki um formlega verkaskiptingu að ræða, enda ekki um samstarfsverkefni eða mynsturáætlanir að ræða. Hvað varðar hlutverk Orkustofnunar í þessum málum virðist sú stofnun enn þá lausbeislaðri.
    Það má e.t.v. segja að meginhvati þessarar tillögu sé tvíþættur: Annars vegar hin miklu virkjunar - og línubyggingaráform, sem vissulega eru nauðsynleg, og hins vegar viðbrögð heimaaðila sem á hinn bóginn eru bæði skörp og eðlileg. Ég vil leyfa mér að vitna örstutt í útdrátt af bréfi Náttúruverndarsamtaka Austurlands og Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, dags. 18. des. 1990. Bréfið varðar fyrirhugaðar línubyggingar sem liggja eiga um tvö friðlýst svæði, Krepputungu, sem nú mun vera í friðlýsingarmeðferð, og svæðið við Herðubreið og Dyngjufjöll. Í bréfinu segir síðan orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Samfara línubyggingum sem þessum fylgir slóðagerð sem eykur umferð og um leið hættu á akstri utan vega og gerir eftirlit landvarða með svæðinu nánast óviðráðanlegt.``
    Hér er því sannarlega mál að spyrna við fótum.
    Ég átti þess kost ásamt nokkrum fleiri hv. þm. að sitja ráðstefnu um svonefnda hálendisvegi 19. og 20. jan. sl. að Reynihlíð í Mývatnssveit. Ráðstefna þessi var bæði fróðleg og allfjölmenn. Í ályktun sem samþykkt var í lok hennar koma fram eindregin tilmæli til stjórnvalda um meiri formlegheit og afmörkun þessara mála en hingað til hefur verið. Ályktun ráðstefnunnar er örstutt, með leyfi forseta:
    ,,Fundur ráðstefnu um hálendisvegi og áhrif þeirra haldin í Hótel Reynihlíð við Mývatn 20. jan. 1991 beinir þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnar og Alþingis að sem allra fyrst verði gengið formlega frá samstarfi Vegagerðar ríkisins og Landsvirkjunar vegna línuvega. Veitt verði sérstök fjárveiting til þessa verkefnis án skerðingar á almennu vegafé. Lögð verði áhersla á að vegstæði verði valið þannig að þessir

vegir nýtist almennri umferð í framtíðinni, verði á snjóléttum svæðum og að tekið verði tillit til náttúruverndarsjónarmiða.``
    Ég vil ljúka máli mínu með því að láta þá skoðun í ljósi að það sé ekki með öllu vansalaust að Vegagerð ríkisins skuli ekki hafa átt þess kost að koma meira að þessum málum en raun er til þessa. Ef menn vilja gera hér bót á verður að koma á formlegum samskiptavettvangi aðila, útvega Vegagerð ríkisins fjármagn til að gerast raunverulegur þátttökuaðili í framkvæmdum. Nefndar hafa verið tölur á bilinu 20 -- 40 millj. kr. í ár af fulltrúum Vegagerðar ríkisins og það fé má alls ekki koma til frádráttar af almennu vegafé. Með þessum hætti væri Vegagerð ríkisins orðin formlegur meðeigandi í umræddum vegum og eða slóðum og ætti því rétt til umfjöllunar og afnota þeirra fyrir almenna umferð í framtíðinni ef mönnum líst svo á.
    Virðulegur forseti. Ég legg til að þessari tillögu verði vísað til allshn. og síðari umr. að loknum umræðum ef einhverjar verða.