Vegalagning í óbyggðum
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Með tillögu þeirri sem hér var mælt fyrir um samstarf um vegalagningu í óbyggðum er hreyft þörfu máli sem hv. flm. hefur gert grein fyrir. Mér gafst kostur á að vera meðflutningsaðili að þessari tillögu og efnisins vegna hefði ég fúslega gert það, en við athugun máls kom það fram að samgrh., sem hefur fengið erindi frá þessari ráðstefnu sem haldin var við Mývatn og auðvitað frá fleiri aðilum vafalaust, hefur þegar að því er mér er tjáð gert ráðstafanir til þess að koma á því samstarfi sem tillagan gerði ráð fyrir í aðalatriðum að ég held með þeim hætti sem það er gert. Það er vissulega góðra gjalda vert og auðvitað markmið þeirra sem flytja mál hér inn á Alþingi að hafa einmitt áhrif á ríkisstjórnina eins og hér er gert ráð fyrir. Og með vísan til þess sá ég ekki ástæðu til að gerast meðflutningsaðili málsins.
    Hins vegar dregur það ekkert úr því að það er gagnlegt að koma slíkum málum hér einnig fram og í umræðu á Alþingi. Ég þakka flm. fyrir frumkvæði hans að því leyti og þann hug sem fyrir liggur í þessu máli og þarfar ábendingar í greinargerð. Ég vona að því markmiði sem tillagan gerir ráð fyrir verði náð hið fyrsta með formlegu samstarfi þeirra aðila sem gert er ráð fyrir og þá sérstaklega Vegagerðarinnar og Landsvirkjunar. En mér sýnist einnig skynsamlegt að Orkustofnun fylgist með því samstarfi og ekki síður að Náttúruverndarráð eigi kost á að vera þátttakandi í því. Í rauninni held ég að það væri æskilegt að Náttúruverndarráð yrði formlegur aðili að þessari samstarfsnefnd sem nú er væntanlega verið að koma á laggirnar og því sjónarmiði hef ég komið á framfæri við hæstv. samgrh.
    Frá árinu 1972 hefur verið starfandi samstarfsnefnd iðnrn. og Náttúruverndarráðs um orkuframkvæmdir, skammstöfuð SINO. Hún er orðin mjög endingargóð þessi nefnd. Hún er enn að störfum og hefur tvímælalaust verið mjög gagnlegur samráðsvettvangur milli náttúruverndaryfirvalda og framkvæmdarvaldsins á sviði orkumála, en fyrir hönd ráðuneytisins eiga sæti í þeirri nefnd fulltrúar frá Orkustofnun, Rafmagnsveitum ríkisins og Landsvirkjun, að ég held. Þar fara menn skipulega yfir þau mál sem eru á döfinni og nú er verið á vegum þessarar nefndar að ég held að fara kerfisbundið yfir vatnsföll landsins og virkjanaáform og viðhorf til friðunaraðgerða, m.a. vegna samþykktar Alþingis um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða sem liggur fyrir frá árinu 1988.
    Ég tel að það hafi dregist vonum lengur að vegagerðarmálum í sambandi við línulagnir og raunar vegna virkjunarframkvæmda hafi verið komið í skipulegra horf og í tengsl við Vegagerð ríkisins því þó að hún hafi komið að slíkum málum varðandi undirbúning og sumpart varðandi framkvæmdir, varðandi vegalagningu, t.d. vegna Blönduvirkjunar, undirbúnings vegna Fljótsdalsvirkjunar og fleiri slíkra virkjana, þá hefur þar eins og réttilega kom fram í máli hv. 1. flm. þessa máls ekki verið um lögformlega stöðu að

ræða af hálfu Vegagerðarinnar, en úr því verður væntanlega bætt með því samstarfi sem hér er um að ræða og hugsanlegri öflun lagaheimilda í framhaldinu ef ástæða er til.
    Vegna eins máls sem bar á góma í ræðu síðasta hv. ræðumanns hér áðan, þ.e. ráðgerðrar línulagningar frá Fljótsdalsvirkjun til Norðurlands, vil ég taka mjög sterklega undir það sem þar kom fram um nauðsyn þess að vel sé hugað að línustæðum og auðvitað þá vegalagningu í tengslum við þau og að þeim áformum sem uppi voru á síðasta ári og fram á þetta af hálfu Landsvirkjunar um það línusvæði verði breytt. Það hafa þegar komið fram fjölmargar áskoranir þar að lútandi frá hagsmunaaðilum og hagsmunagæsluaðilum á sviði náttúruverndar og ferðamála sem hafa hreyft því máli. Sjálfur hef ég átt hlut í samþykktum þar að lútandi, m.a. á vegum Náttúruverndarsamtaka Austurlands á síðasta sumri, en á aðalfundi þeirra samtaka við Snæfell var þetta mál upp tekið. Ég held að það séu fyrstu upptök málsins eftir að Náttúruverndarráð hafði um það fjallað með Landsvirkjun og síðan hafa margar samþykktir verið gerðar.
    Mér var í rauninni fyrst ljóst á ferðalagi um þetta svæði, utanvert Ódáðahraun og Herðubreiðarlindir á sl. sumri, í hvað stefndi varðandi þessa línulagningu milli Herðubreiðar og Dyngjufjalla. Öllum sem um það svæði hafa farið hlýtur að vera ljóst að það væri mjög alvarlegt spor sem stigið væri ef þarna á milli, þvert yfir þetta svæði, yrði lögð raflína, jafnmikið mannvirki og um er að ræða í þessum stóru línum. Ég hef rætt þetta mál við stjórnarformann Landsvirkjunar í byrjun þessa árs og fengið fullvissu um það af hans hálfu að á þetta mál yrði litið af þeirra hálfu. Ég hef einnig átt viðræður við skipulagsyfirvöld um þetta og mér er kunnugt um að þessi mál eru í athugun á vegum skipulagsyfirvalda og væntanlega Náttúruverndarráðs á nýjan leik. Því verður að treysta að þarna verði gerð breyting á. Það eru aðrar leiðir og þó eitthvað kunni að muna í kostnaði þá ber að velja aðrar leiðir varðandi þessa línulagningu.
    Nokkuð hefur við borið í umræðum um þetta mál að tími væri naumur til stefnu að undirbúa breytingu á þessari línulögn og viðkomandi vegslóða sem fylgja mundi. Ég tel að í rauninni séu aðstæður þannig nú að ekki þurfi að óttast tímaskort við endurskoðun málsins vegna þess að augljóst er að áformum um framkvæmdir vegna álbræðslu sem hafa verið í undirbúningi á vegum hæstv. iðnrh. mun seinka frá því sem áformað var af ráðuneytisins hálfu, að ekki sé talað um það að engra heimilda hefur verið aflað af hálfu Alþingis vegna þess máls. Alþingi á því alveg eftir að fjalla um það og ég vænti að þetta ráðrúm sem sýnilega er til staðar verði notað til þess að finna ásættanlega leið fyrir þetta línustæði.
    Ég ítreka svo stuðning við það mál sem hv. 1. þm. Austurl. flutti hér og ég vona að sá rekspölur sem ég gat um að væri á þessu máli hjá samgrn. leiði til lausnar eftir þeim meginsjónarmiðum sem hann mælti hér fyrir.