Vegalagning í óbyggðum
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Þessa till. sem hér er til þál. um formlegt samstarf Landsvirkjunar, Orkustofnunar og Vegagerðar ríkisins tel ég vera mjög mikilvæga. Það er kunnara en frá þurfi að segja að fyrirhuguð eru áform um að leggja háspennulínu um hálendið. Ekki síður er nú ástæða til þess að ræða hvort um varanlega vegagerð á að vera að ræða eða ekki samfara því að auðvitað er nauðsynlegt að leggja vegslóða þegar lína er lögð.
    Í þessu sambandi langar mig til að minna á hve hraði er mikilvægur við nútímaframkvæmdir út frá arðsemissjónarmiðum. Það á að flytja fleiri hundruð tonn af stáli upp á hálendið í þessi möstur. Hvað sparast miklir peningar við þá flutninga ef um er að ræða vegi með bundnu slitlagi á móti troðningunum? Við getum séð það strax að þar er um að ræða mikla peninga. Flutningurinn á línunum sjálfum, vinnan við að byggja þessar línur. Væntanlega yrði um að ræða sparnað verktaka, verkið yrði ódýrara. Og þá komum við að einum þætti málsins sem við höfum nú nýverið upplifað, þ.e. hina íslensku veðráttu sem getur sýnt á sér sínar hvössu hliðar eins og nýverið er búið að gerast. Þá erum við komin að viðhaldi slíkra mannvirkja og mikilvægi orkukaupanda að missa ekki rafmagnið. Og ef línur slitna, að geta gert við þetta hratt.
    Orkustofnun á eftir að stunda framtíðarrannsóknir uppi á hálendinu og eftir því sem samgöngur um hálendið eru betri, því ódýrari verða þær rannsóknir fyrir þjóðfélagið. Önnur arðsemi af varanlegri vegagerð yfir hálendið gæti orðið allt annað atvinnulíf síðast en ekki síst, þ.e. það er auðveldara fyrir fólk sem býr fjarri höfuðborgarsvæðinu að ferðast þangað og fyrir framleiðendur á landsbyggðinni að skipta við markaðinn hér syðra. Allt þetta skiptir mjög miklu máli. Það sem skiptir mestu máli er að fjármunum þjóðarinnar sé varið á sem arðsamastan hátt.
    Það má ljóst vera að ekki er auðvelt að halda slíkum vegum opnum yfir háveturinn, enda ekki held ég meiningin að slíkt verði gert. En þetta er fyrst og fremst spurningin um það hvernig þeim fjármunum verði varið sem best á varanlegan hátt og hvað við eigi að taka þegar línulögninni er lokið og hverjir eigi þá að halda við þessum vegi. Auðvitað er eðlilegast að Vegagerð ríkisins taki þá við veginum.
    Rétt er að minna á þátt umhverfismála í þessu sambandi og þá byrja ég fyrst á þeim lið að það er stórt og mikið umhverfismál í mínum huga hvort svona vegur hefur bundið slitlag eða ekki. Það er mjög þurrt á hálendinu og vegur sem ekki væri með bundnu slitlagi á hálendinu yrði að engu á einum áratug. Hann mundi hreinlega fjúka út í loftið. Vatnsrennsli er oft mikið úr vegaslóðum sem eru lagðir á þann hátt sem gert hefur verið. Það rennur vatn eftir þessum slóðum sem lagðir eru einhvern veginn út í loftið og skemma og spilla umhverfi þar sem rót kemst á landið. Það er líka rétt að árétta sjónarmiðin um náttúruvernd, þ.e. að fylgjast með því að hálendi verði ekki raskað um of. Er þá ekki auðveldara að

annast það eftirlit ef vegurinn verður góður um hálendið. Og þarf ekki að nefna það að það er auðvitað sjálfsagt að allir íslenskir borgarar og ferðamenn fái að skoða hálendið. Það er paradís út af fyrir sig og þeim auðveldara þá að komast þangað. Þetta eru hinar jákvæðu hliðar málsins.
    En ég ítreka það að varanleiki fjárfestingarinnar er það sem skiptir hér höfuðmáli, þ.e. að þeir fjármunir sem fara í þessa vegarlagningu nýtist þjóðinni til framtíðarinnar. Það verði tryggt um leið hvað við taki, hverjir eigi að halda veginum við í framtíðinni eftir að þessi lína hefur verið lögð. Ég tel fyllstu ástæða til að ítreka að það verði vandlega farið yfir það hvort ekki sé jafnvel ódýrast fyrir þjóðina þegar búið er að reikna allt að þessi vegur verði lagður strax með bundnu slitlagi. Það er mín skoðun á málinu að þegar öll sjónarmið eru metin verði það ódýrast. Það samræmist best sjónarmiðum umhverfisverndar og náttúruverndar án þess að verið sé að kasta í það of miklum fjármunum. Þetta er fyrst og fremst spurningin um það að þessi framkvæmd nýtist þjóðinni sem best á allan hátt.