Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Föstudaginn 08. febrúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Ég kem hér upp aðallega vegna þess að hæstv. forsrh. túlkaði orð mín rangt. Ég tók það fram að ég mundi ekki styðja þetta frv. óbreytt. Það er nokkuð annað heldur en það sem hann vildi vera láta. Ég gat ekki betur heyrt á hans máli en að það væri ekki nein sérstök ánægja með margt í þessu frv. og að hann sjálfur væri ekki sáttur við ýmislegt sem er í þessu frv. eins og það stendur. (Gripið fram í.) Ja, hann sagði a.m.k. að hann hefði viljað hafa það á annan veg ef hann gæti ráðið því. Ég held að það þurfi að skoða þetta frv. miklu betur en hefur verið gert, þó ég efist ekkert um að unnið hefur verið í því nokkuð vel,
og reyna að setja upp önnur gleraugu en þeir hafa haft, ráðherrarnir hæstv. og þeir sem stjórna þessu verki, því að hér eru mjög mörg álitamál. Ég hugsa að það yrði til bóta. Og ég tek það fram að ég er algerlega á móti því að einum ráðherra sé gefin svona heimild í eins veigamiklum málum og hér um ræðir og tel sjálfsagt mál að ríkisstjórnin í heild gefi slík leyfi eða undanþágur. Auðvitað eru allar þessar undanþágur til þess að þynna út efni frv. Það á að reyna að hafa þessar greinar á þann veg að þær feli það í sér sem löggjafinn vill láta þar standa og svo ekki neinar undantekningar frá því. Ég held nú að sú reynsla sem hefur orðið af samskiptum okkar við erlenda aðila og þeirri linku sem Íslendingar hafa í mörgum tilvikum sýnt í þeim samningum ætti að kenna okkur það sem hér erum og berum ábyrgð á slíkum málum að reyna nokkuð að geirnegla það sem frá okkur kemur til þess að ekki sé hægt að gera allt aðrar ráðstafanir en í raun og veru meiri hluti þingsins vill og heldur að hann sé að gera.