Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Föstudaginn 08. febrúar 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil minna á það í þessari umræðu að það var efnahagsnefnd þingflokks Framsfl. sem lagði fram skýra stefnu í október 1989 um grunn að meira frelsi í viðskiptum og fjárfestingum erlendra aðila í atvinnurekstri og öðrum samskiptum hér á landi. Síðasta flokksþing samþykkti ákveðna stefnu hér um. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Tryggt verði að erlendir aðilar nái ekki yfirráðum í sjávarútvegi og fiskiðnaði þjóðarinnar, hvorki beint né óbeint. Þá verði jafnframt tryggt að erlendir aðilar eignist hvorki íslenskar orkulindir og virkjunarréttindi né íslenskt landsvæði. Þingið hvetur til að sett verði á yfirstandandi þingi skýr heildarlöggjöf um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi.`` Þetta frv. hér er vissulega spor í rétta átt hvað þetta varðar og þess vegna styð ég það og fagna því.
    En það sem ég vildi gjarnan koma hér að er eitt atriði í 4. gr. frv. Þar stendur: ,,Til vinnslu í þessu sambandi``, þ.e. í sambandi við atvinnurekstur í fiskvinnslunni, ,,telst hins vegar ekki umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.`` Um þetta stendur hér í skýringum: ,,Samkvæmt skilgreiningu greinarinnar á ,,vinnslu sjávarafurða`` er erlendum aðilum hins vegar heimilt að taka þátt í atvinnurekstri á sviði útflutnings á ferskum fiski og vinnslu í neytendaumbúðir svo nokkuð sé nefnt.`` Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta þarfnast meiri skýringar. Við vitum að nú þegar hafa erlendir aðilar lagt fram 20% í fiskvinnslu eingöngu, ekki útgerð, sem framleiðir beint á þann markað sem þessir erlendu aðilar sjá um. Ég er hræddur um að þarna vanti meiri skýringu. Ef það þyrfti að fara að stofna sérfélag um að pakka vörunni, sem fyrirtækið hefur verkað í þetta ástand, þá kæmi ýmislegt upp. Það mundi t.d. ekkert hamla því að erlendir aðilar ættu 100% í öðru fyrirtæki við hliðina á hinu. Mér finnst að þarna þurfi að koma frekari skýringar og skilgreining. Það er þess vegna sem ég vildi láta það koma fram við 1. umr. málsins.