Frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga
Föstudaginn 08. febrúar 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. 14. þm. Reykv. sem hér talaði áðan. Mér finnst full ástæða til þess ef á að ræða þetta sérstaka mál, sem ég er ekki að lýsa yfir að ég sé andvígur á þessu stigi málsins, heldur hitt að það liggur alveg fyrir að dregist hefur í marga mánuði að leggja þetta mál fyrir þingið vegna innbyrðis deilu í ríkisstjórninni milli ráðherra. Við höfum hlustað á hótanir ráðherra á víxl um það að leggja málefni um félagslega þjónustu sveitarfélaga og leikskóla fram í nafni viðkomandi ráðherra sem þingmannafrv. Þetta víxlast fram á síðasta dag að þannig var fjallað um þetta í hæstv. ríkisstjórn. Ég tel að þetta sé svo nátengt, þar sem bæði frumvörpin fjalla í raun og veru um málefni sveitarfélaga og það er hlutverk sveitarfélaganna samkvæmt lögum að annast um félagslega þjónustu og þar inn í eru að sjálfsögðu leikskólinn og dagvistunarstofnanir almennt, að ekki sé hægt að taka það til 1. umr. öðruvísi en báðir hæstv. ráðherrar, sem þessi mál heyra undir og sem eru orsök þess að hér eru komin fram tvö aðskilin frumvörp um félagslega þjónustu sveitarfélaga, séu viðstaddir.