Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Pálmi Jónsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til þess að mótmæla vinnubrögðum hæstv. forseta og í raun og veru hvernig þetta mál er tekið fyrir hér í þessum þingsal. Það hefur aldrei komið fyrir, eftir því sem ég hef látið starfsmenn þingsins leita að, að skýrsla sem gerð er að beiðni Alþingis sé tekin fyrir í umræðum utan dagskrár. Ég óskaði eftir því og minn flokkur að þessi skýrsla væri tekin fyrir á dagskrá fundar í Sþ. við fyrsta tækifæri þegar efsti maður af skýrslubeiðendum væri við í landinu, hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson. Því miður hefur það dregist. Það var þó vitað að hann yrði viðstaddur í dag og það var okkar ósk og okkar krafa að þessi skýrsla yrði tekin fyrir á dagskrá. Hvers vegna? Vegna þess að það er eðlilegt að sá sem fyrstur biður um slíka skýrslu hefji umræðuna. Hæstv. fjmrh., sem átti að sitja hér fyrir svörum, mundi síðan taka til máls og þá aðrir hv. þm. eftir því sem við ætti. Þessu hefur hæstv. forseti snúið við og í fyrsta sinn gegn þingvenju, nálgast að segja gegn þingsköpum, hefur þessi skýrsla verið tekin fyrir utan dagskrár. Hvers vegna? Til þess að hæstv. fjmrh. geti hafið umræðuna, til þess að hæstv. fjmrh. geti talað hér í sjö stundarfjórðunga með árásir á eina stofnun ríkisins sem heyrir undir Alþingi. Þetta vinnulag er ekki hægt að þola án þess að mótmæla.
    Síðan ætlar hæstv. forseti að kóróna þessi vinnubrögð með því að eftir að hæstv. fjmrh. hefur flutt hér árásarræðu í sjö stundarfjórðunga og hv. 1. þm. Norðurl. v., fyrsti skýrslubeiðandi, hefur talað stutta stund, að rjúfa umræðuna og hefja hana ekki fyrr en einhvern tíma þegar dregur að miðnætti. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum og get ekki sagt annað en að það verður þá að taka þessa skýrslu fyrir á fundi í Sþ. á morgun og láta deildafundi víkja ef ekki er unnt að halda umræðunni áfram nú.