Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Vegna þessara orða hv. 2. þm. Norðurl. v. skal eftirfarandi tekið fram: Eins og forseti gat í upphafi þessa fundar barst bréf frá hæstv. fjmrh. þar sem hann óskaði eftir við forseta að fengin yrði greinargerð um athugasemdir hans við skýrslu sem Ríkisendurskoðun hafði gert. Í því sama bréfi óskaði hann þess að sú greinargerð kæmi á dagskrá og málið allt þegar hún væri tilbúin. Við þessu urðu forsetar að sjálfsögðu.og það varð síðan að samkomulagi.
    Það kemur mér mjög á óvart og ég hafna því með öllu að embættismenn hins háa Alþingis hafi lagt á það áherslu að hér sé óeðlilega að verki staðið vegna þess að það var tillaga þeirra, það var tillaga embættismanna Alþingis, að svona skyldi með málið fara þar sem það er vissulega ekki á hverjum degi sem skýrsla af þessu tagi kemur til Alþingis og óskað er eftir umræðu þar sem sá sem skýrsluna gerði getur ekki staðið í ræðustól. Og ég ítreka það, það var gert að ráði embættismanna Alþingis eftir nákvæma könnun að nákvæmlega svona skyldu forsetar með málið fara. Allt annað eru ósannindi.
    Forsetar eru nú að biðja um að fá 25 mínútur til þess að ræða saman um annað mál en þetta, sem óskað er eftir af sjálfri hv. utanrmn. Alþingis að verði afgreitt hér í dag. Forseti reynir að verða við þeim óskum sem þingmenn koma með. Og þar sem þingflokksfundir eru fram undan kl. 5 er þetta eini tíminn sem forsetar hafa til þess að ræða það mál. Verði því mótmælt mun forseti að sjálfsögðu halda þessum umræðum áfram til kl. 5 en lengur er það ekki hægt, þá verður að fresta fundi.