Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Pálma Jónssonar tel ég nauðsynlegt að láta það koma fram að ég óskaði ekki eftir því að þessi umræða yrði utan dagskrár. Þvert á móti lét ég þá skoðun mína í ljós að skýrslan og málið yrði sett á dagskrá. Það er því misskilningur að hæstv. forsetar séu að þóknast ósk fjmrh. með því að hafa þessa umræðu í formi utandagskrárumræðu. Það er sjálfstæð ákvörðun forsetanna sem virðulegur forseti Sþ. hefur gert grein fyrir af sínum stóli.
    Mér fannst nauðsynlegt að þetta kæmi fram, virðulegi forseti, vegna þess að það mátti skilja orð hv. þm. Pálma Jónssonar á þann veg að ég hefði óskað eftir því að formið á umræðunni yrði utan dagskrár. Það er rangt. Ég óskaði ekki eftir því.
    Hins vegar sendi ég forsetum þingsins bréf 29. jan. þar sem ég óskaði eftir því að umrædd skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu hlutabréfa ríkisins í Þormóði ramma yrði sem allra fyrst tekin til umræðu á Alþingi, þannig að mér yrði kleift að koma athugasemdum mínum á framfæri við þingheim og þingmönnum gæfist tækifæri til að ræða um sölu hlutabréfanna, um hlutverk og stöðu Ríkisendurskoðunar í tengslum við mál af þessu tagi og um þau álitamál sem upp koma í þessu sambandi. Þetta var skrifleg beiðni til forseta þingsins sem sett var fram 29. jan. sl.
    Ég vil svo að lokum vekja athygli á því að sú beiðni sem hv. þm. vísaði í frá þingmönnum kjördæmisins var ekki formlegt þingskjal heldur bréf sem sent var forsetum þingsins fyrir jól.