Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Pálmi Jónsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forseti sagði í svari sínu til mín áðan að það væri að ráði embættismanna þingsins að hafa þetta form á og allt annað væru ósannindi, eins og hæstv. forseti orðaði það smekklega. Ég verð að segja það að ég tek mark á því sem sá starfsmaður þingsins sem fjallar um viðlíka mál og þetta að formi til hefur kannað fyrir mig og ég tek því ekki þegjandi að sagt sé úr forsetastól að það sem hann hefur sagt mér og ég flyt hér eftir honum séu ósannindi.
    Ég skal ekkert um það segja hvaða orðaskipti hafa farið á milli hæstv. fjmrh. og hæstv. forseta Sþ. og ég tek ekki meira mark á því sem hæstv. fjmrh. segir hér um þetta efni heldur en á ýmsu öðru sem hann lætur sér um munn fara. Hins vegar ítreka ég mótmæli mín við þessu vinnulagi og hlýt að krefjast þess að umræðunni verði haldið áfram með þeim hætti að það sé á eðlilegum fundartíma Alþingis og gefið sé tóm til þess að menn geti í efnislegum umræðum svarað þeirri endemis ræðu sem hæstv. fjmrh. hefur flutt því á því er full þörf þó henni hafi verið svarað að nokkru.