Málefni Litáens
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. 18. -- 22. jan. fór utanrrh. Íslendinga í opinbera heimsókn og sótti heim hin þrjú Eystrasaltslönd, Litáen, Lettland og Eistland. Það er margstaðfest í fundargerðum af viðræðum mínum við ráðamenn í þeim löndum og af yfirlýsingum þeirra ráðamanna sem við var rætt að í þeirri ferð voru engin loforð gefin og engar falskar væntingar vaktar. Í framhaldi af þessari ferð gerðist það að ríkisstjórn Íslands samþykkti þann 23. jan. yfirlýsingu um afstöðu og aðgerðir til stuðnings sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna þriggja. Einn þáttur þess máls var að ríkisstjórnin samþykkti eftirfarandi:
    ,,Ríkisstjórnin ákvað, að ósk stjórnvalda í Litáen, að taka upp viðræður um að koma á stjórnmálasambandi.`` Það er stefna sem ríkisstjórnin markaði, það er stefna sem kynnt var opinberlega viðeigandi aðilum, það er stefna sem, eftir því sem best var vitað eftir umræður hér á hinu háa Alþingi, naut einróma stuðnings Alþingis Íslendinga. Í þeirri ákvörðun var engu slegið föstu um það nákvæmlega á hvaða stundu eða hvenær þetta skyldi gert. Í viðræðum mínum við leiðtoga Litáens höfðum við lagt niður fyrir okkur að hvaða leyti aðstæður væru breyttar og hvað þyrfti að gerast til að þessari ákvörðun yrði hrundið í framkvæmd.
    Síðan gerðist það að Alþingi Íslendinga samþykkti boð og reyndar varð við áskorun frá ríkisstjórn Íslands um að senda sendinefnd þriggja þingmanna til Litáens. Þeir þingmenn komu til baka. Það hafði gerst í millitíðinni að fjölmiðlar í Litáen höfðu birt þau tíðindi að stjórnmálasambandi hefði þegar verið komið á. Enginn kann skýringu á því á hvaða heimildum það var byggt. En ljóst er að að lokinni þessari för var málið tekið upp í utanrmn. og reyndar tekið upp af íslenskum fjölmiðlum og sá sem hér stendur var krafinn mjög alvarlegra svara við spurningunni: Hvers vegna er ekki búið að gera þetta strax? Ríkisstjórn Íslands var krafin um svar við því.
    Ég gerði rækilega grein fyrir því hvað um hefði verið rætt í Litáen og það var stutt rækilegum gögnum ef menn vilja rengja mitt mál, fundargerð undirrituð af þeim mönnum sem þar voru viðstaddir. Í raun og veru segir það sig sjálft að mínu mati að þegar ríkisstjórn Íslands ákveður að taka upp viðræður, þá gerir hún það ekki að gamni sínu, þá gerir hún það ekki til þess að vekja upp falskar vonir. Þá gerir hún það til þess að leiða það mál til lykta en áskilur sér rétt til þess að gera það að fullnægðum þeim forsendum sem samkomulag varð um.
    Það er rétt að í utanríkismálum framselja menn ekki vald sitt öðrum og að í utanríkismálum taka menn sjálfir ákvörðun um það hvenær er rétti tíminn til þess að hrinda einhverri slíkri mikilsverðri ákvörðun í framkvæmd.
    Sá texti að tillögu sem hér liggur fyrir er lagður fram af utanrmn. Hann er saman settur eftir viðræður við formenn allra þeirra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Hann er samkomulag eða málamiðlun sem

menn gerðu sér vonir um að tækist milli allra þannig að þessi tillaga yrði samþykkt ágreiningslaust. Sá texti lýsir ekki væntanlega sjónarmiðum neins eins stjórnmálaflokks eða stjórnmálamanns.
    Ég tel það styrkja stöðu mína og reyndar ríkisstjórnarinnar ef Alþingi samþykkir einróma stuðning við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem tekin var 23. jan. Ég dreg hins vegar enga dul á það að ég hef óskað eftir því í viðræðum við alla menn sem að þessu máli hafa komið að hendur mínar yrðu ekki bundnar þannig að mér gæfist a.m.k. ráðrúm til að vinna að málinu með þeim hætti sem um var rætt í viðræðum við forustumenn Litáens, með þeim hætti að mér gæfist kostur á að standa við skuldbindingar okkar Íslendinga samkvæmt RÖSE - samkomulaginu um það að kynna niðurstöður, rökstuðning og málflutning okkar Íslendinga, líka gagnvart sovéskum stjórnvöldum, og um það að mér gefist tími til þess að leggja fram rækilegar greinargerðir um rökstuðning fyrir þessum íslensku sjónarmiðum fyrir samstarfsaðila okkar og bandalagsþjóðir, ríkisstjórnir Norðurlanda og Atlantshafsbandalagsins og reyndar hugsanlega ríkisstjórnir aðildarríkja samkomulagsins um samvinnu og öryggi í Evrópu. Þetta er mitt sjónarmið og það hefur í engu breyst.
    Satt að segja bjóst ég ekki við því að þurfa að gera hv. þingheimi neina grein fyrir mínum sjónarmiðum því að þau eru öllum kunn, svo rækilega sem ég hef áður gert grein fyrir þeim. Ég neyðist hins vegar til þess að gera ákveðnar athugasemdir við málflutning hv. 2. þm. Vestf. eins og við heyrðum hann hér áðan. Hann sagði: Vegna þess að forseti Sovétríkjanna er bundinn af eiðstaf sínum við sovésku stjórnarskrána, þá er hann ekki frjáls maður að sínum gjörðum nema með því að sovéska þingið hafi hugsanlega áður breytt sovésku stjórnarskránni. Veit hv. þm. það að hinn 24. des. árið 1989 gerði þjóðfulltrúasamkunda alríkisins í Sovétríkjunum samþykkt þar sem því var yfir lýst án mótatkvæða að samningurinn milli Molotovs og Ribbentrops ásamt með öllum þeim leynisamningum sem honum fylgdu og voru ekki gerðir opinberir fyrr en eftir það væru hér með lýstir ólöglegir frá upphafi til þessa dags? En á þessum samningi og leyniskjölum hans byggðist réttlæting Sovétríkjanna á hernámi og innlimun þessara þriggja landa inn í Sovétsamveldið. Forseti Sovétríkjanna er þar af leiðandi ekki bundinn af öðru en þeirri samþykkt þjóðþingsins að þessar athafnir Stalíns og ógnarstjórnar hans hafi verið ólöglegur gjörningur. Eftir það getur það ekki verið sovéskt sjónarmið að það eigi sér stoð í lögum eða þjóðarétti.
    Annað mál. Hv. þm. hélt því fram að fyrrv. forsrh. Íslands, Geir Hallgrímsson, hefði árið 1975 með undirskrift sinni á lokaskjali Helsinki - sáttmálans samþykkt að lögum innlimun þessara landa í Sovétríkin. Ég átti satt að segja ekki von á því að heyra þessa söguskoðun eða þessa túlkun í íslenskum þingsölum af þeirri einföldu ástæðu að það er grundvallarregla í þjóðarétti að hernám, innlimun og ofbeldi skapar engri þjóð rétt og að engin þjóð ávinnur sér neinn rétt með

hernaðaraðgerðum og ofbeldi af þessu tagi. Og það þarf engar sérstakar fótnótur eða fyrirvara um það að vestræn ríki samþykkja ekki með undirskrift sinni ólöglega gjörninga af því tagi heldur einungis þau landamæri í Evrópu sem sett hafa verið með löglegum hætti.
    Hv. þm. sagði í þriðja lagi: Ætla Íslendingar að setja fram þá kröfu að þeim landamærum öllum, sem sett voru með valdbeitingu rauða hersins á styrjaldarárunum í Austur - Evrópu, skuli breytt? Veit hv. þm. það að nú hafa tekist samningar, m.a. fyrir þrýsting og samstöðu vestrænna ríkja, um það að sovésk stjórnvöld hafa samþykkt breytingar á þeim landamærum, nefnilega við þann atburð sem hvað merkastur er af þeim sem nú hafa gerst á árunum eftir stríð, að sameining Þýskalands hefur gerst með samningum við Sovétstjórnina sem m.a. fela það í sér að Sovétstjórnin samþykkti áframhaldandi aðild hins sameinaða þýska ríkis í Atlantshafsbandalaginu? Menn hefðu látið segja sér það tvisvar fyrir nokkrum mánuðum eða missirum síðan, en það hefur gerst. Það hefur nefnilega margt gerst, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Það hefur m.a. gerst það að auk þess sem Sovétstjórnin hefur undirritað lokaskjal Helsinki - sáttmálans, þá hefur hún einnig undirritað Vínarskjal á vegum Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu og leiðtogi Sovétríkjanna hefur undirritað í eigin nafni og eigin hendi Parísaryfirlýsinguna sem lýsir því yfir að ofbeldisgjörningar rauða hersins séu ólöglegir og lýsir því yfir að framvegis skuli samskipti þjóða í Evrópu byggja á grundvallarreglum alþjóðalaga, þjóðaréttar, virðingar fyrir lýðræði, virðingar fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóða, virðingar fyrir mannréttindum. Og ég verð að segja það að hv. þm. var óheppinn í líkingu sinni þegar hann nefndi nafn Abrahams Lincolns sem lagði mikið að veði við að halda Bandaríkjunum sameinuðum en í nafni þess að afnema þrælahald en ekki að viðhalda því.
    Hv. þm. spurði: Hvað með viðurkenningu annarra þjóða? Já, hvað með það? Reyndar er það fótnóta í sögunni að bandarísk stjórnvöld hafa aldrei fallið frá viðurkenningu sinni á sjálfstæði þessara ríkja, staðfestu það að sjálfsögðu með þeim fyrirvara sem Bandaríkjaforseti á sínum tíma gerði við Helsinki - sáttmálann og staðfestu það með því að þau hafa aldrei afturkallað umboð ræðismanns Eistlands og reyndar Litáens líka, sem báðir starfa í Washington og eru þar skráðir í diplómatalista sem viðurkenndir fulltrúar sinna landa, gefa út vegabréf fyrir þeirra hönd og þau vegabréf eru viðurkennd m.a. af Evrópubandalagslöndunum. En hvað með viðurkenningu annarra ríkja? Það eru 50 ríki í veröldinni sem lýsa því sem sinni afstöðu að því er varðar Eystrasaltsríkin að þau viðurkenndu gömlu lýðveldin sem stofnuð voru upp úr fyrra stríði. Þau segja: Við höfum aldrei afturkallað þessa viðurkenningu. Þau segja: Við viðurkennum ekki lögmæti hernáms og innlimunar þessara landa inn í Sovétríkin. Og þau vitna í samþykkt sovéska þingsins sem lýst hefur þann gjörning ólöglegan. Hvað merkir þetta? Þetta merkir það, ef þessi ríki meina

eitthvað af því sem þau eru að segja, að þau hafi aldrei fallið frá viðurkenningu sinni á gamla litáíska lýðveldinu sem nú hefur verið endurreist. Hvað er þeim þá að vanbúnaði að staðfesta það? Því það að koma á stjórnmálasambandi er að staðfesta það að sú viðurkenning sé enn í fullu gildi. Hvað er þeim að vanbúnaði? Jú, hv. þm. sagði: Litáen getur ekki fullnægt skilmálum Vínarsáttmálans, hefur ekki vald á landamærum sínum, hefur ekki vald á vegabréfaútgáfu, hefur ekki vald á höfnum vegna þess að landið er hernumið. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson: Áttu Íslendingar að afturkalla viðurkenningu sína á Noregi á sinni tíð af því að það var hernumið af nasistum? Eiga ríki heims sem viðurkenndu Kúvæt sem sjálfstætt ríki að afturkalla það nú vegna þess að það hefur verið hernumið og innlimað af seinni tíma fasistum?
    Virðulegi forseti. Sl. laugardag fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Litáen. Hún var að vísu óformleg. Hún var kölluð skoðanakönnun vegna þess að það lék vafi á því hvort lýðræðislega kjörin stjórnvöld þar í landi gætu framkvæmt þessa skoðanakönnun án íhlutunar sovésks hervalds þar sem þjóðin býr í hernumdu landi. Sem betur fór lét rauði herinn þessa skoðanakönnun, þessa þjóðaratkvæðagreiðslu afskiptalausa og hún leiddi það í ljós að tæplega 95% af kosningabærum mönnum tóku þátt og af þeim voru 94% sem lýstu sig fylgjandi þeirri skoðun að Litáen, þegar stofnað ríki, skyldi vera sjálfstætt ríki utan Sovétríkjanna svo sem það hefur allan þjóðréttarlegan rétt til. 6% greiddu atkvæði á móti sem m.a. staðfestir, af því að fólk af öðru þjóðerni en Litáar er um 20% í landinu, að meiri hluti þess fólks sem er af rússnesku bergi brotið, pólsku eða hvítrússnesku studdi sjálfstæði Litáens.
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að segja meir. Þessi skoðanakönnun segir það sem segja þarf.