Framhald utandagskrárumræðu
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Við erum hér að tala um umræður um mjög beitta gagnrýni Ríkisendurskoðunar á embættisstörf hæstv. fjmrh. og ég tel það óviðeigandi að hann skuli ekki gefa sér tíma til að vera hér í þinginu á morgun kl. 4 þegar málið verður tekið til umræðu. Hann hélt hér uppi mjög langri ræðu í dag og auðvitað er það embættisskylda hans að láta það sitja fyrir öðru að mæta hér í þinginu. Má kannski segja að rökréttara og réttara væri að hefja umræður um gagnrýni Ríkisendurskoðunar á hæstv. fjmrh. þegar kl. 2 á morgun þannig að ekki verði bið á því að skýrsla Ríkisendurskoðunar verði rædd. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta en ég efast um að hæstv. fjmrh. skilji hvar embættisskylda hans liggur í þessum efnum.