Framhald utandagskrárumræðu
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Var það í samráði við forseta Alþingis sem hæstv. fjmrh. efndi til sérstakrar ráðstefnu um ríkisfjármál og bauð þangað öllum alþingismönnum? (Gripið fram í.) Ja, sumum a.m.k. Ég bið nú afsökunar. Ef ég hef verið einn af hinum útvöldu þá er það nú út af fyrir sig gott en ég hélt nú satt að segja að það væri síður en svo ástæða til að taka tillit til slíks fundar, sem efnt er til á reglulegum fundartíma Alþingis, og ég get ekki skilið að hæstv. ráðherra geti reynt að skjóta sér undan að mæta hér í þinginu á þeim forsendum. Miklu fremur ætti hann að biðja okkur og stjórn þingsins afsökunar á því að velja þennan fundartíma.