Framhald utandagskrárumræðu
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Herra forseti. Til að fyrirbyggja misskilning, þá vil ég að það komi alveg skýrt fram að ég hef ekki óskað eftir því að þessari umræðu sé frestað til morguns. Það hefur engin slík ósk komið frá mér. Ég stóð þvert á móti í þeirri meiningu að þessi umræða mundi halda hér áfram í kvöld eftir að atkvæðagreiðsla hefði farið fram og er albúinn í þá umræðu. Þannig að það er einhver annar en ég sem hefur óskað eftir því að þessari umræðu sé frestað til morguns og væri satt að segja fróðlegt að fá að vita hver það er sem er að óska eftir því að umræðunni sé frestað til morguns, það er a.m.k. ekki fjmrh. ( EgJ: Nei, en það eru vonbrigði fyrir fjmrh. að svo skyldi hafa verið gert.) Nei, það eru engin vonbrigði, hv. þm., ekki nokkur vonbrigði. Bara vegna getsaka sem hér komu fram í ræðustól um það að fjmrh. hefði óskað eftir því að umræðunni væri frestað þangað til á morgun og hún yrði síðdegis á morgun þegar enginn hefði áhuga á henni, þá taldi ég alveg nauðsynlegt að leiðrétta það. ( RH: Ráðherra hefur alveg misskilið þetta.) Nei, nei, ég skildi alveg nákvæmlega hvað sagt var, hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir. En ég vildi hafa það alveg skýrt. Fjmrh. er reiðubúinn að hv. þm. Pálmi Jónsson haldi áfram ræðu sinni nú þegar. (Gripið fram í.) Það er gott að hv. þm. Halldór Blöndal er nú vaknaður til lífsins aftur hérna í þingsölum og vonandi verður hann viðstaddur þessa umræðu og vonandi tekur hann þátt í henni. Ég óska eftir því að hv. þm. Halldór Blöndal taki þátt í þessari umræðu.
    Það má vel vera að það hefði átt að hafa þá ráðstefnu sem ég boðaði hér til um ríkisfjármál á öðrum tíma en síðdegis á morgun. Það vill nú svo til að þingið starfar flesta daga síðdegis og það er erfitt að finna tíma vegna þess að þingið starfar líka að morgni til. Það er erfitt að finna tíma fyrir ráðstefnur af þessu tagi þar sem þingmenn eru ekki bundnir við ein eða önnur störf (Gripið fram í.) og á föstudögum eru þingmenn líka bundnir við margvísleg störf þannig að fjmrh. fylgdi þeirri venju í þessu tilviki eins og oft er gert varðandi þing og ráðstefnuhald af þessu tagi að velja til þess tíma sem væntanlega hentaði flestum þeim sem ráðstefnuna eiga að sækja.