Framhald utandagskrárumræðu
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Vegna orða hæstv. fjmrh. og efasemdir um hver hefði óskað eftir frestun umræðunnar, þá skal það upplýst að þegar þingflokksfundir áttu að hefjast hér í dag hafði hv. 2. þm. Norðurl. v. ekki lokið ræðu sinni. Forseti tilkynnti þá að fundi yrði frestað til kl. 9. Þá kom hv. 2. þm. Norðurl. v. að máli við forseta og lýsti óánægju sinni með það að hann héldi fram ræðu sinni hér í kvöld og fór fram á það að umræðunni yrði frestað til morguns. Eftir að hafa átt fund með forsetum þingsins varðandi deildafundi á morgun varð niðurstaðan sú að fundur yrði settur í sameinuðu þingi kl. 4 á morgun að afloknum deildafundum. Þetta var rætt við hv. 2. þm. Norðurl. v. og hann féllst á þetta. En það skal játað að þá vissi enginn forseta að hæstv. fjmrh. yrði bundinn á þessum tíma og það var ekki fyrr en á þessum fundi sem nú stendur yfir að hæstv. ráðherra tilkynnti mér að hann gæti ekki verið hér fyrr en kl. hálfsex.
    Til þess að leysa þessi mál á vitrænan hátt vill forseti fara fram á það að tóm verði gefið hér að loknum þessum fundi til að reyna að leysa þetta mál svo að allir megi vel við una og mætti halda fund með hæstv. fjmrh. og þingflokksformönnum hér áður en menn fara heim í kvöld. Ef enginn mótmælir þessu munu forsetar fara svo að.