Búfjárhald
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Frsm. landbn. (Skúli Alexandersson) :
    Herra forseti. Landbn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Ólaf R. Dýrmundsson ráðunaut, Sigurð Sigurðsson dýralækni og Jón Höskuldsson, deildarstjóra í landbrn. Umsagnir bárust frá Búnaðarfélagi Íslands, Brynjólfi Sandholt yfirdýralækni, Páli A. Pálssyni dýralækni, Landgræðslu ríkisins, Stéttarsambandi bænda, Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands og Búnaðarfélagi Íslands.
    Nefndin ræddi frv. á nokkrum fundum og leggur til eftirfarandi breytingar á því.
     1. Gerðar verði orðalagsbreytingar á fyrri mgr. 1. gr. þannig að búfjárhaldi verði hagað eins og kostur er í samræmi við þarfir dýranna, en ekki er hægt að miða allt búfjárhald við eðli dýra þótt vitaskuld sé nauðsynlegt að vel sé búið að búfénaði. Í því sambandi er lagt til að orðin ,,góð aðbúð`` verði notuð í stað orðsins ,,vellíðan`` þar sem þau orð eiga betur við. Einnig að notað verði orðið ,,drykkur`` í stað orðsins ,,drykkjarvatn`` þar sem nauðsynlegt er stundum að búfénaður hafi ekki bara vatn að drekka heldur líka annað, t.d. mjólk.
     2. Gerð verði orðalagsbreyting í 1. mgr. 2. gr. Þau dýr, sem talin eru upp í 1. málslið 1. mgr. samkvæmt breytingartillögunni, teljast búfé, sama í hvaða tilgangi menn halda þau, þ.e. til nytja eða til ánægju. Einnig er lagt til að öll önnur dýr en talin eru upp í 1. málslið og haldin eru til nytja falli einnig undir skilgreiningu laganna á búfénaði. Nokkuð var rætt um skilgreiningu lokamálsgreinar 2. gr. á lausagöngu búfjár. Skilgreiningin kom fram á búnaðarþingi og sér nefndin ekki ástæðu til að breyta henni, enda hefur þessi nefnd jafnan verið nokkuð höll undir búnaðarþing.
     3. Samþykktir, sem sveitarfélög gera um búfjárhald, sbr. 3. gr., verði sendar til umsagnar Búnaðarfélags Íslands áður en landbrh. staðfestir þær. Félagið hefur á að skipa sérfræðingum um málefni sem frv. þetta varðar og hafa þeir faglega yfirsýn og staðþekkingu. Þá telur nefndin óþarft að taka fram að samþykktir sveitarfélaga skuli birtar í Stjórnartíðindum.       4. Kveðið verði á um bótarétt þeirra sem verða fyrir atvinnutjóni vegna banns eða takmarkana á búfjárhaldi í samræmi við 4. gr. frv. Greinin er að mestu leyti byggð á lögum um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum, nr. 44/1964, og tengist búfjárhaldi við svipaðar aðstæður. Í þeim lögum er mælt fyrir um slíkan bótarétt úr hendi sveitarsjóðs ef unnt er að sýna fram á tjón. Eðlilegt er að ákvæðið haldist í lögum. Þá er einnig lagt til að 3. málsliður 2. mgr. falli brott vegna breytinga sem lagðar eru til á 7. gr.
     5. Graðhestar séu í öruggri vörslu allt árið frá 16 mánaða aldri í stað 18 mánaða.
     6. 1. -- 4. mgr. 7. gr. verði umorðaðar og felldar í eina málsgrein og ákvæðin þannig gerð hnitmiðaðari. Ákvæði 5. og 6. mgr. eru hins vegar felld brott en í þeim er gert ráð fyrir að landbrh. geti með reglugerð ákveðið að leyfi sé veitt til búfjárhalds í einstökum búfjárgreinum og að hægt sé að takmarka búfjárhald

í samræmi við leyfi búfjáreiganda til framleiðslu á hinum einstöku búfjárafurðum. Nefndin telur ekki rétt að setja reglur um slíkar leyfisveitingar og takmarkanir í lög um búfjárhald. Þessi málaflokkur á frekar heima í löggjöf um framleiðslustjórnun á búfjárafurðum. Sumir nefndarmenn töldu þó greinina eiga rétt á sér.
     7. Í stað þess að héraðsdýralæknar skv. 4. mgr. 9. gr. séu skyldugir til að hafa eftirlit með þeim þáttum er varða heilbrigði búfjár þá er kveðið á um í brtt. að leitað skuli til héraðsdýralækna um eftirlit með þessum þáttum. Nefndin taldi ekki rétt að skylda héraðsdýralækna til að hafa svipað eftirlit og búfjáreftirlitsmaður.
     8. Eftirlitsferð búfjáreftirlitsmanns verði lokið 1. des. á hverju ári í stað 15. nóv., sbr. 10. gr. Þá er víkkað ákvæði í 4. málslið 1. mgr. með því að talað er um ,,einstakar tegundir`` búfjár í stað ,,viðkomandi tegund``. Einnig er lagt til að allar fóðurbirgðir hvers búfjáreiganda verði kannaðar og skráðar, en ekki einungis gróffóðurbirgðir, og að búfjáreftirlitsmaður fylgist með beitilandi í byggð á starfssvæði sínu, m.a. til að tryggja að hólf, sem dýr eru geymd í, séu ekki nauðbitin. Í 3. mgr. 10. gr. er landbrn. veitt heimild til þess að veita opinberum aðilum aðgang að skýrslum Búnaðarfélags Íslands um búfjárfjölda og forðagæslu. Lagt er til að í stað heimildar til aðgangs að skýrslum þessum verði kveðið á um aðgang að upplýsingum úr skýrslunum. Að lokum er lagt til að þrengja heimild landbrh. til þess að ákveða sérstaka talningu búfjár þannig að rökstuddur grunur liggi fyrir um að talningu hafi verið ábótavant.
     9. 11. gr. verði talsvert aukin frá því sem nú er í frv. Í fyrsta lagi er búfjáreftirlitsmanni heimilað að grípa til aðgerða ef búfénað skortir beit. Þá er lagt til að mun skýrar verði kveðið á um aðhaldsaðgerðir gagnvart þeim búfjáreiganda sem sinnir ekki aðfinnslum sveitarstjórnar eða búfjáreftirlitsmanns um aðbúnað. Er hlutverk dýralæknis og lögreglustjóra mun betur skilgreint en gert er í frv. Eru úrræði svipuð þessum í gildandi lögum en höfðu fallið niður við gerð frv.     10. Nefndin telur nauðsynlegt að kveða skýrar á um gjaldtöku skv. 12. gr. frv. Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því að sveitarfélag geti bannað búfjárhald án leyfis. Lagt er til að sveitarfélögum, sem nýta þessa heimild, sé leyft að innheimta leyfisgjald til að standa undir kostnaði við búfjáreftirlit skv. 9. gr. Gjaldið skiptist í grunngjald fyrir leyfi til búfjárhalds og síðan gjald af hverjum grip sem haldinn er. Ekki er þó heimilt að leggja slíkt gjald á þá sem eiga og halda búfé á lögbýli þar sem þeir eru búsettir. Ráðherra skal ákveða í gjaldskrá hver upphæð leyfisgjalds skuli vera. Eru þessi ákvæði í samræmi við ákvæði um gjaldskrá fyrir hundahaldsleyfi, sbr. 22. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    11. Í 14. gr. er bætt við upptalningu þeirra laga er falla úr gildi við gildistöku þessa lagafrumvarps.
    Eins og ég nefndi í upphafi hélt nefndin nokkuð marga fundi um þetta frv.
og lagði í það þó nokkuð mikla vinnu. Ég þakka samnefndarmönnum mínum fyrir gott samstarf í nefndinni. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir og flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Undir nál. skrifa allir landbúnaðarnefndarmenn en Danfríður Skarphéðinsdóttir skrifar undir það með fyrirvara.