Búfjárhald
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. frsm. landbn. skrifaði ég undir frv. með fyrirvara. Vil ég í örstuttu máli gera grein fyrir á hverju sá fyrirvari byggist. Það eru einkum atriði sem varða 4. og 7. gr. frv., þ.e. ákvæði um hvað megi standa í samþykktum sveitarfélaga, þ.e. hvað í þeim megi felast. Ég tel til bóta að sveitarfélög fái meira um sín eigin mál að segja á öllum sviðum og þá auðvitað ábyrgð á málum heima hvert á sínum stað. Í þessum samþykktum er m.a. kveðið á um leyfisveitingu til búfjárhalds skv. greinunum eins og þær stóðu upphaflega í frv. og fjölda búfjár í sveitarfélögum. Ég hefði talið það mjög til bóta ef þetta hefði fengið að standa áfram í frv.
    Það kom einnig fram í máli hv. frsm. að það hefðu komið fram skoðanir um að slík ákvæði ættu frekar að vera í öðrum lögum, þ.e. í búvörulögum. Það má að sumu leyti taka undir það sjónarmið en hins vegar finnst mér að það geti allt eins varðað aðbúnað búfjár hvernig til háttar í sveitarfélögum. Þar gæti verið um að ræða t.d. haga, beitarhólf, jafnvel umferð um sveitarfélögin. Að því leytinu til gætu þessi ákvæði vel átt heima í þessu frv. sem við fjöllum um hér núna. Ég hefði því viljað sjá þessi ákvæði 4. og 7. gr. standa óbreytt og undirstrika þá skoðun mína að ég tel að með því að dreifa ábyrgðinni á þessum málum, þá dreifum við um leið valdinu til sveitarfélaganna og það er einmitt mjög í umræðunni nú um stundir að dreifa valdi og ábyrgð. Minni ég á að það fellur mjög vel að hugmyndum og stefnu Kvennalistans.
    Þá ætla ég að víkja hér aðeins að 9. gr. þar sem kveðið er á um ráðningu búfjáreftirlitsmanns. Við töluðum dálítið mikið um búfénaðinn á þeim nefndafundum sem við héldum um málið og verð ég að játa það að e.t.v. skaust mér yfir búfjáreftirlitsmanninn í einni setningu þar sem sagt er í 9. gr. að hann skuli ráðinn til starfa af sveitarstjórn til fjögurra ára í senn að afloknum kosningum. Ég tel að búfjáreftirlitsmaður eigi að vera ráðinn á faglegum forsendum en ekki pólitískt ráðinn og hefði talið mun skynsamlegra að sveitarfélögum væri í sjálfsvald sett hvers konar ráðningarsamninga þau gera við búfjáreftirlitsmenn og til hve langs tíma. Þess vegna finnst mér það slæmt að við skyldum ekki ræða þetta atriði í nefndinni en þar verð ég að játa að mér skaust líka yfir.
    Varðandi 11. gr. vildi ég aðeins benda á að þar tel ég að landbn. hafi með brtt. sinni e.t.v. flækt það mál nokkuð. Þar er kveðið á um að héraðsdýralæknir skuli, ef hann hefur athugasemdir við búfjárhald einhvers búfjáreiganda, í samráði við yfirdýralækni gefa ákveðin fyrirmæli. Þetta kemur aftur inn á sama atriði og ég nefndi áðan. Ég vildi sjá okkur treysta héraðsdýralækninum fyrir því að gefa búfjáreigendum á svæðinu fyrirmæli skv. sínu eigin faglega mati en teldi ekkert því til fyrirstöðu að þeir tilkynntu þau fyrirmæli til yfirdýralæknis, sveitarstjórnar og trúnaðarmanns Búnaðarsambandsins. Þetta atriði á eingöngu

við þegar um það er að ræða að meðferð á skepnum brýtur í bága við lög og reglur og þegar þær líða vegna hirðuleysis. Því tel ég mikilvægt að málin geti gengið hratt og greiðlega fyrir sig án nokkurs vafsturs. Dýralæknar heima í héruðum hafa fagþekkingu til að meta ástand skepna og héraðsdýralæknar sem opinberir starfsmenn ættu að hafa vald til að gefa fyrirmæli um ráðstafanir en það væri ekki óeðlilegt að hugsa sér að búfjáreigandi gæti skotið máli sínu til yfirdýralæknis ef honum þykja kröfurnar óréttmætar.
    Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér, virðulegi forseti, en að öðru leyti tel ég að öll önnur atriði í þessu frv. til laga um búfjárhald séu til bóta. Það vantar hins vegar á varðandi 4. og 7. gr., um heimildir til sveitarfélaga til þess að gera samþykktir sínar með ákveðnum hætti. Tillagan um að fella þær burtu er það sem ég get verst sætt mig við í þessu frv. eins og það liggur fyrir núna.