Búfjárhald
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Frsm. landbn. (Skúli Alexandersson) :
    Herra forseti. Fyrirvari hv. 6. þm. Vesturl. kom mér nokkuð á óvart og þó sérstaklega sá fyrirvari sem hún gerði grein fyrir í sambandi við 4. og 7. gr. Hún hafði upplýst mig hér í hliðarherbergi um hina síðari þætti sem hún nefndi. ( DS: 4. og 6. gr. voru upphaflegi fyrirvarinn.) Mikið rétt, hv. þm., 4. og 6. gr. voru upphaflegi fyrirvarinn en í umræðum í landbn. byggðist hann ekki á frelsi sveitarfélaga. Það er í fyrsta skipti sem ég heyri það hér að ákvæðunum í 4. og 7. gr. hafi verið komið þar inn af einhverjum áhugamönnum um frelsi og ákvörðunarvald sveitarfélaga. Ég lít svo á að það hafi ekki verið, heldur hafi þau verið sett inn til þess að hjálpa til í landbúnaðarpólitíkinni við að stjórna málum þar. Að athuguðu máli var síðan talið, jafnvel af þeim aðilum sem sömdu frv., að þetta samræmdist ekki alveg lögum um búfjárhald heldur væri þetta, eins og ég sagði áður, búfjárstjórnun og ætti frekar heima í búfjárlögum eða einhverjum öðrum lögum.
    Það má náttúrlega lengi spjalla um frelsi sveitarfélaga til að gera þessa eða hina samþykktina en í þeim málum hljóta þó að vera einhver takmörk. Sveitarfélögin verða náttúrlega ekki löggjafi. Hv. Alþingi verður áfram löggjafi þó að sveitarfélögunum verði gefið aukið athafnafrelsi. Síst af öllu held ég að hægt sé að gefa sveitarfélögunum sérstakt athafnafrelsi á vettvangi sem þessum. Ef þessi hugmynd hefði komið upp í landbn. hugsa ég að við hefðum nú tekið ákveðna snerru um þessa skoðun. Ég tel náttúrlega mjög vafasamt að veita sveitarfélögum heimild til aðgerða eins og þarna var lagt til og eiga það svo á hættu að sveitarfélög hlið við hlið séu með breytilegar reglur í málum eins og þessum, sem, eins og kom vel fram í hv. landbn., fyrst og fremst eða að stórum hluta til varða framleiðslustjórnun, sérstaklega 7. gr. Það sem okkur greindi því á um í nefndinni var fyrst og fremst það hvort þessir hlutir tilheyrðu búfjárhaldi og ættu að tengjast samþykktum sveitarfélaga um búfjárhald en ekki í eðli sínu um frelsi eða möguleika sveitarfélaga til að gera þetta eða hitt með beinum og einföldum samþykktum.
    Varðandi hina þættina sem hv. þm. nefndi, þ.e. hvenær búfjáreftirlitsmaður skuli leita til dýralæknis og síðan áfram til yfirdýralæknis, tel ég rétt að gefa okkur aðeins tíma til að skoða það á milli umræðna. Sjálfsagt er að líta á það mál en ég tel þó að þar sé innifalin eftirlitsskylda yfirdýralæknis með ákvarðanatökum héraðsdýralæknis sem lagt er til í þessari grein. Og um það að kjósa búfjáreftirlitsmann eða ráða búfjáreftirlitsmann faglega, þá vona ég að sveitarstjórnir geri það alltaf. En að leggja til að ráðinn sé starfsmaður til þessara hluta utan kjörtímabils sveitarstjórna, þá finnst mér svolítið verið að snúast upp á það sem verið er að tala um frelsi sveitarstjórnanna. Ég held að það sé gott að ráðning starfsmanna sem þessara sé takmörkuð við ákveðið tímabil og ekkert tímabil er eðlilegra en kjörtímabil sveitarstjórna. Ég hef ekki nokkra trú á því að í einhverjum tilfellum

verði farið að kjósa þarna mann pólitískt. Hann sé að einhverju leyti betri sem framsóknarmaður ef framsóknarmeirihluti er í sveitarstjórninni. Ég held að það gæti alveg eins farið þannig að þeir mundu kjósa annan til þeirra starfa ef þeir teldu hann vera hæfari til starfsins. Ég sé því ekki að þær breytingar sem hv. þm. leggur til séu beinlínis á þann veg að bæta það frv. eins og við eru búin að betrumbæta það í mikilli sameiningu og einingu í landbn. en sjálfsagt er að skoða þessa báða þætti á milli umræðna.