Búfjárhald
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. landbn. fyrir hennar störf að þessu máli. Hér er á ferðinni síðari hluti þeirrar heildarendurskoðunar löggjafar um búfjárrækt og búfjárhald sem hófst á árinu 1989 má segja með skipan nefndar sem þá tók til starfa. Lögfest var síðan frv. um búfjárrækt í framhaldinu eða vorið 1989. Þá var jafnframt boðað að þessari lagaendurskoðun yrði síðan lokið með því að setja sérstök lög um búfjárhald. Það væri í samræmi við upphaflegar hugmyndir nefndar, sem að þessu starfaði, að eðlilegra væri að haga löggjöf á þessu sviði þannig að lagaákvæðum væri skipt upp í þessa tvo meginþætti. Allt sem lyti að búfjárræktarstarfinu og lagaákvæði um það annars vegar og búfjárhaldsákvæði, um forðagæslu, eftirlit og því um líkt hins vegar. Hér er sem sagt á ferðinni síðari hluti þeirrar endurskoðunar. Eru hér samræmd í ein lög ákvæði nokkurra eldri laga sem um þetta hafa fjallað, einkum ákvæði búfjárræktarlaga frá 1973, með síðari breytingum, laga um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum frá 1980 og síðan laga um loðdýrarækt.
    Ég hef yfirfarið þær brtt. sem hv. landbn. leggur til og er bærilega sáttur við þær allar. Ég tel að þær séu í raun flestar til bóta og lagfæringar á frv. þó að auðvitað megi hafa mismunandi skoðanir á til að mynda þeim breytingum sem gerðar eru á ákvæðum 4. og 7. gr. eins og hér kom fram í umræðum áðan. Þar er valin sú leið að einfalda lagaákvæðin fyrst og fremst, gera einfaldari í sniðum og fáorðari þær heimildir sérstaklega sem t.d. sveitarfélög hafi til leyfisbindingar búfjárhalds. Um það vil ég segja að ég get að mörgu leyti tekið undir með formanni landbn. að það orkar tvímælis að færa inn í almenn lög um búfjárhald heimildir til framleiðslustjórnunar eða takmarkana og stjórnunar á einstökum greinum. Vel má vera að heppilegast sé að hafa þarna sem hreinust skipti þannig að búfjárhaldslöggjöfin sé mjög almenns eðlis og sem mest óháð slíkum stjórnvaldsaðgerðum á hverjum tíma eins og þeim sem lotið geta að framleiðslustjórnun eða öðru slíku.
    Hitt er nauðsynlegt að mínu mati að sveitarstjórnir hafi sterka stöðu til að stýra þessum málum og það hafa þær, leyfi ég mér að segja, þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar eru hér í tillögum landbn. Ég held að staða sveitarfélaganna til þess að kveða á um búfjárhald með leyfisbindingu og stjórnun sé áfram nægjanlega sterk til þess að unnt sé að hafa þau mál í góðu horfi. Það er afstaða landbrn., og hefur verið unnið skv. því undanfarin ár, að mikilvægt væri að fá sveitarfélögin, ekki síst þéttbýlissveitarfélögin, til samstarfs um meðferð þessara mála, búfjárhalds í þéttbýli, og afar mikilvægt að unnt sé að koma þeim málum í sem best horf. Þar hefur mikið áunnist, t.d. hafa nokkur sveitarfélög undanfarin ár verið að setja sérstakar samþykktir um búfjárhald og í framhaldinu jafnvel gripið til ráðstafana til þess að fella allt búfjárhald á sínu svæði undir slíkar samþykktir. Sem dæmi

má nefna Hafnarfjarðarkaupstað sem á undanförnum tveimur árum hefur tekið myndarlega á þeim málum, ráðist í girðingarframkvæmdir og gert ýmsar ráðstafanir til þess að koma búfjárhaldi þeirra sem þar dútla við þá hluti, fyrst og fremst í tómstundum sínum, í gott horf þannig að það samrýmist fullkomlega hagsmunum annarra íbúa sveitarfélagsins hvað varðar útivist og landnýtingu af öðru tagi.
    Um þetta er í sjálfu sér ástæðulaust að fjölyrða en ég tel, og segi það sérstaklega vegna orða hv. 6. þm. Vesturl., að eftir sem áður, þrátt fyrir þessar breytingar, sé réttarstaða sveitarfélaganna í raun og veru nægilega sterk til þess að stjórna þessum málum með farsælum hætti. Að lokum vil ég svo ítreka þakkir mínar til hv. landbn. deildarinnar fyrir hennar störf að þessu frv. Ég vænti þess að með því að það verði lögfest hafi þessi heildarendurskoðun lagaákvæða um búfjárrækt og búfjárhald komist í gott og nútímalegt horf.