Búfjárhald
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð til viðbótar. Ég vildi aðeins minnast aftur á það sem ég var að tala um áðan sem mína fyrirvara. Það kom skýrt og greinilega fram í umræðunni hjá okkur í hv. landbn. að samþykktir sveitarfélaga um takmörkun á búfjárhaldi ættu auðvitað fyrst og fremst við þar sem þéttbýlisstaðir eru og það var skilningur allra nefndarmanna. Hv. 4. þm. Vesturl., formaður landbn., minntist á að skv. 4. og 7. gr. eins og þær stóðu sé verið að leita hjálpar sveitarfélaga í landbúnaðarpólitíkinni. Það hafi mátt skilja þessar samþykktir á þann veg. Það er okkur e.t.v. umhugsunarefni hvort það veiti nokkuð af að fá alla sem geta til þess að hjálpa okkur í landbúnaðarpólitíkinni því að það er eitt af þeim vandamálum sem okkur hefur ekki tekist að leysa og við þurfum e.t.v. að hugsa einhverjar nýjar leiðir í þeim efnum. Ég
óttast það ekki að sjálfseyðingarhvöt dreifbýlissveitarfélaga sem hafa landbúnað að sinni einu atvinnu sé svo rík að slík sveitarfélög fari að setja samþykktir þvert á eigin hagsmuni.