Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Flm. (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, með síðari breytingum, um tekjuskatt og eignarskatt. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðmundur Ágústsson, Eiður Guðnason, Margrét Frímannsdóttir og Salome Þorkelsdóttir.
    Frv. þetta fjallar um tvö óskyld atriði tekjuskattslaga. Með frv. er í fyrsta lagi gerð tillaga um breytingu sem lýtur að leigutekjum. Hugmyndin er sú að auðvelda fólki, sem áhuga hefur á, að flytja í annan landshluta um óákveðinn tíma án þess að hafa tekið ákvörðun um að flytja aðsetur sitt endanlega. En skv. lögum um tekjuskatt og eignarskatt eru leigutekjur skattskyldar án tillits til þess hvort viðkomandi aðili greiðir leigugjöld. Dæmi eru um að ungt fólk, t.d. hér í Reykjavík, sem hefur áhuga á og vill reyna fyrir sér á landsbyggðinni hefur hætt við þegar það hefur áttað sig á þessum staðreyndum. Þarna á ég ekki síst við Akureyri. Eins og hv. þm. vita þá hefur Akureyri upp á margt áhugavert að bjóða sem ég hirði ekki um að telja hér upp, en mér er kunnugt um að ungt fólk á Stór - Reykjavíkursvæðinu hefur hætt við að flytja til Akureyrar tímabundið þegar það hefur áttað sig á að það getur ekki dregið leigugjöld frá leigutekjum á meðan það leigir eignir sínar hér. Þetta er svona um stundarsakir kannski meðan fólk er að velta því fyrir sér hvort það í alvöru getur hugsað sér að flytja í annað byggðarlag eða ekki. Því finnst kannski of mikil áhætta að selja strax sína húseign og kaupa aðra í öðrum landshluta án þess að vita með vissu að því komi til með að líka staðurinn.
    Í öðru lagi er í 2. gr. frv. tillaga um að breyta ákvæðum c - liðar 7. gr. vegna þess óréttlætis sem viðgengst í núgildandi skattalögum í þeim tilfellum þegar hjón telja fram sameiginlega og annar aðilinn er með einhvers konar rekstur á sínum vegum en makinn starfar hjá opinberum aðilum. Telji hjónin ekki fram til skatts innan tilskilins frests má skattstjóri bæta 25% álagi við þá skattstofna sem hann áætlar þrátt fyrir það að annar aðilinn sé í skilum skv. staðgreiðsluskatti. Eðlilegt hlýtur að vera að álagi í slíkum tilfellum sé einungis beitt gagnvart þeim aðila sem ekki er í skilum. Reynsla mín hefur sagt mér að hér sé um atriði að ræða sem er nokkuð algengt og hér er, þó ekki fari mikið fyrir þessu frv., um réttlætismál að ræða.
    Nú er það svo að í þeim tilfellum þar sem mál sem þetta hafa komið upp hefur þetta fólk fengið leiðréttingu hjá ríkisskattanefnd eftir því sem ég best þekki til. Oft hefur verið komið fram á næsta ár þegar sú leiðrétting hefur legið fyrir og það fólk sem á í hlut hefur því orðið fyrir verulegum óþægindum af þessu. Ég hef einnig heyrt það hjá fleiri en einum skattstjóra að þeim finnst að þetta ákvæði vanti í lögin þannig að þeir þurfi ekki að vera að láta þessi mál ganga í gegnum allt kerfið þar sem, eins og kom fram áður, þau hafa fengið leiðréttingu.
    Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að þessu frv.

verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn.