Mannanöfn
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Fyrir viku síðan urðu nokkrar umræður um þetta frv. sem hæstv. menntmrh. mælti þá fyrir. Hann tók sérstaklega fram að hann þyrfti ekki að hafa ítarlega framsögu þar sem málið hefði verið afgreitt með fullu samkomulagi í Ed. Vissulega er það oft svo að ástæðulaust er að flytja langt mál fyrir málum sem þannig er ástatt um, en eigi að síður þótti mér framsaga ráðherrans ekki gera nægilega grein fyrir þessu máli, enda komu strax fram athugasemdir frá tveimur hv. þm. við þá umræðu sem hér fór fram fyrir viku síðan. Það er vissulega óþægilegt, herra forseti, að ræða þetta mál að ráðherra fjarstöddum, en ég treysti því að hann sé væntanlegur.
    Ég vil drepa sérstaklega á það í upphafi að í fskj. með þessu frv. er birt bréf frá dómsmrn. þar sem gerðar eru athugasemdir við frv. Svo er ekki að sjá á nál. hv. menntmn. Ed. að þessar athugasemdir hafi fengið formlega afgreiðslu í þeirri nefnd. Hins vegar tjáði formaður nefndarinnar mér það að þeir hefðu litið á þessar athugasemdir og ákveðið að taka þær ekki til greina nema að mjög litlu leyti og einungis að því er eina þeirra varðar og finnst mér það vissulega miður. Ég tel að það hljóti að verða verkefni hv. menntmn. þessarar deildar að fara rækilega yfir þessar athugasemdir sem mér sýnist flestar hverjar hafa við veruleg rök að styðjast. Auðvitað er mjög mikilvægt að taka til skoðunar athugasemdir frá því ráðuneyti sem á að taka þetta mál að sér því gert er ráð fyrir því að þessi málaflokkur flytjist frá menntmrn. til dómsmrn. og að hin nýja mannanafnanefnd, sem svo er kölluð, verði nefnd á vegum dómsmrn.
    Hér urðu smá orðahnippingar á síðasta fundi þegar þetta mál var rætt milli hv. 17. þm. Reykv. Sólveigar Pétursdóttur og menntmrh. Það kom á daginn að hæstv. menntmrh. hefur ekki kynnt sér þetta frv. sitt til algerrar hlítar því að hann lýsti því yfir að hann væri ekki ,,sektartrúar`` í þessum efnum. Engu að síður er það svo, eins og hv. þm. Sólveig Pétursdóttir benti á, að gert er ráð fyrir sektum í frv. en athugasemdir dómsmrn. við það atriði gengu einmitt út á það að ráðuneytið treystir sér ekki til þess að beita menn sektum fyrir að brjóta þessi svokölluðu lög um mannanöfn og vill að annar aðili fari með þau úrræði, þ.e. Hagstofan. Hvort sem menntmrh. er sektartrúar eða ekki í þessum efnum, þá hefur hann hér lagt fram frv. sem gerir ráð fyrir því að hægt sé að sekta menn fyrir hvað þeir heita eða fyrir hvað þeir skíra börnin sín. Það væri athyglisvert ef hæstv. núv. dómsmrh. tjáði sig um þetta mál því að það kemur til með að heyra undir hans ráðuneyti, hvort hann er sömu skoðunar og menntmrh. virðist vera, að það eigi að beita forráðamenn barna dagsektum fyrir að láta dragast að gefa börnum sínum nafn. Flm. þessa frv., hæstv. menntmrh., segist svo ekki vera sektartrúar. Annaðhvort hefur hann ekki kynnt sér málið eða þá að hann er trúvillingur í þessum sektarmálum.
    Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að hv. menntmn. fari vel yfir þessar athugasemdir frá dómsmrn. og

raunar furðulegt að hv. menntmn. Ed. skuli ekki láta þess getið í sínu nál. hvaða afstöðu hún hafi tekið til einstakra liða í svo veigamiklum og málefnalegum athugasemdum.
    Ég hafði hugsað mér, herra forseti, að ræða hér nokkur önnur atriði í þessu frv. við hæstv. ráðherra, flm. málsins. Þó að það sé rétt að þetta frv. byggist að verulegu leyti á lagafrv. frá árinu 1971 þá hafa verið gerðar á því frv. töluverðar breytingar. Ég hef kynnt mér það frv. sem var lagt fram 1971, hef það hér undir höndum, og ég tel ástæðu til að inna ráðherrann eftir ástæðum þess að frá því frv. er breytt í veigamiklum atriðum. Reyndar eru ýmis atriði í þessu frv. sem mér finnst óskiljanleg. Af hverju mega menn ekki heita nema einu eða tveimur nöfnum? Af hverju á það að vera bundið í lög að menn eigi bara að heita einu eða tveimur eiginnöfnum? Ég þekki ýmsa góða Íslendinga sem heita þremur nöfnum og það hefur hvorki orðið þeim til ama né leiðinda. Þeir eru ekki lakari borgarar en aðrir hér á landi. Það er að vísu þannig að í þessum undarlegu lögum frá 1925 um mannanöfn segir að menn megi aðeins heita einu eða tveimur nöfnum. Það ákvæði hefur auðvitað verið brotið eins og allt annað í þeim undarlegu lögum. En það er engu líkara en að menn setji inn svona ákvæði um að banna mönnum að heita þremur nöfnum bara til þess að geta bannað eitthvað í þessum efnum. Ef ekki er hægt að finna eitthvað til þess að banna, þá er sjálfsagt að banna það að menn heiti þremur nöfnum. Þetta er atriði sem engin haldbær skýring hefur komið á. Kannski er hún til, kannski er það eitthvað á vegum
Þjóðskrár eða Hagstofu eða eitthvað sem gerir það að verkum að óþjált er að hafa þrjú nöfn inni í kerfinu. Ég veit ekkert um það, en það er engin skýring á þessu, hvorki í greinargerð né í framsögu ráðherra.
    Eins er útilokaður sá möguleiki, herra forseti, að skíra börn því sem stundum eru kölluð millinöfn. Það er raunverulega tekið fram í greinargerð þessa frv. að ekki sé ætlast til þess að fólk skíri börnin sín slíkum millinöfnum og látið að því liggja að með slíkri nafngift sé iðulega verið að koma á vísi að ættarnöfnum. Öll þekkjum við eflaust dæmi um slík nöfn sem er skotið inn á milli eiginnafns og kenninafns, en eru stundum þess eðlis að þau fá ekki staðist ein og sér sem eiginnöfn viðkomandi. Ég ætla ekkert að nefna dæmi um slík nöfn en auðvitað þekkja allir þau dæmi.
    Í frv. frá 1971 var sérstaklega áréttað um heimild manna til þess að skíra börn slíkum millinöfnum. Ég sé ekkert athugavert við það, bara ekki nokkurn skapaðan hlut. Ef menn vilja skíra börn sín einhverjum millinöfnum þá ættu þeir að mega það mín vegna og laganna vegna. Ég er hræddur um að ætla að banna það sé hreinn óþarfi og það eru náttúrlega ekki taldar upp neinar góðar ástæður fyrir því nema þá þær að slík millinöfn, sem kannski margir bræður bera hið sama eða systkini eða systur, séu eins konar vísir að ættarnöfnum. Og hvað með það? Það eru 7 þingmenn af 63, 11%, sem bera ættarnöfn, að vísu misjafnlega til komin, en gert er ráð fyrir því í þessum lögum að

handhafar ættarnafna í dag geti náðarsamlegast fengið að halda þeim. Í frv. frá 1971 segir í 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Nú er barni gefið millinafn sem ekki á við að nota sem eiginnafn að dómi mannanafnanefndar og má þá ekki gefa barninu þriðja nafnið.``
    Það er sem sagt gert ráð fyrir því hreint og klárt að slík millinöfn megi gefa. Mér finnst það afturför á tímum aukins frjálslyndis að banna slíkt. Og sama á við um það að banna að skíra nema tveimur eiginnöfnum. Ég var búinn að nefna það áður en ráðherrann kom að mér finnst það ástæðulaust og ég tel reyndar að það fari ekki vel á því að vera með mikil boð og bönn í sambandi við jafnpersónulega hluti og nöfn manna, það fer ekki vel á því. Að ég tali nú ekki um, eins og menntmrh. leggur til, að sekta menn fyrir að brjóta þessar reglur eða fyrir að verða seinir til að skíra börnin sín. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því og menntmrh. flytur þetta frv. en vill koma dagsektunum yfir á dómsmrn. sem hefur með bréfi sem birt er sem fskj. beðist undan því að þurfa að taka að sér slík verk. Ég skil það mætavel. Ég tel að Alþingi sé engin hneisa að því að setja þessi lög án þess að í þeim sé beitt fésektum. Hér voru í gildi í mörg ár lög um bílbelti án þess að við lægju sektir eða aðrar refsingar og ég tel fullkomlega ástæðulaust í þessum efnum að taka hér upp einhverja sektartrú, eins og hæstv. menntmrh. kallaði það á síðasta fundi, sagðist ekki vera sektartrúar en hafði ekki áttað sig á því að hann leggur sjálfur til með þessu frv. slíkar sektir.
    Það er eitt atriði enn eða reyndar tvö, virðulegi forseti, sem ég vil nefna. Í frv. frá 1971, sem þetta frv. er að verulegu leyti byggt á eins og fram hefur komið, er gert ráð fyrir því að menn megi taka upp ný ættarnöfn samkvæmt leyfi dómsmrn. Bæði frv. nú og frv. þá gerðu ráð fyrir tvenns konar kerfi kenninafna hér á Íslandi, annars vegar hinna hefðbundnu kenninafna þar sem menn kenna sig til móður eða föður með endingunni son eða dóttir, eða ættarnafna sem kenninafna. Frv. frá 1971 var hins vegar að því leyti til frjálslyndara en þetta frv. að það gerði ráð fyrir þeim möguleika að það mætti taka upp ný ættarnöfn með heimild dómsmrn. en þetta frv. gerir ekki ráð fyrir þeim möguleika. Það er sem sagt þrenging frá því sem þá var lagt til. Og þó ekki sé líklegt að margir kjósi að búa til ný ættarnöfn eða taka upp, önnur en þau sem innflutt eru, finnst mér ástæðulaust að banna þetta með öllu, ef það væri einhvern tíma einhver ein fjölskylda eða tvær sem teldu sér akk í því eða teldu sér það til þæginda, t.d. vegna flutnings úr landi eða tímabundinnar veru erlendis, að taka upp ættarnafn. Ég er ekkert að mæla með því að menn geri það en mér finnst ástæðulaust að banna það eins og gert er með þessu frv. Ég tek undir sjónarmið prófessors Ármanns Snævars, sem kemur fram í greinargerð frv., þar sem hann telur eðlilegt að hafa þennan möguleika fyrir hendi eins og frv. frá 1971 gerði ráð fyrir. Hann telur, að því er segir í greinargerðinni, að það sé óeðlileg mismunun milli manna að einhverjir borgarar í þessu landi, eins og sá sem hér stendur og

einir sex aðrir þingmenn, Haukdal, Blöndal, Sólnes og fleiri, megi halda sínum ættarnöfnum en aðrir borgarar megi ekki verða sér úti um slík nöfn ef þeir af einhverjum ástæðum telja sér hag í því, þó að ég dragi mjög í efa að þeir séu margir sem þannig yrði hugsanlega ástatt um. Mér finnst ástæðulaust að banna það. Arnalds, Mathiesen og Björnsson ( Gripið fram í: Hvað með Kvaran og Snævarr?) eiga ekki, ásamt þeim sem ég nefndi hér áðan, að hafa einhver forréttindi umfram aðra. Og svo er það vissulega rétt sem hv. 13. þm. Reykv. bendir á að tveir höfundar frv. eru í þessum flokki ásamt okkur nokkrum þingmönnum. Gert er ráð fyrir því að þeir sem hafa ættarnöfn núna, hvaðan svo sem þau kunna að vera upprunnin, geti haldið þeim og niðjar þeirra ef þeir svo kjósa en það megi ekki búa til ný.
    Ég beini því til hv. menntmn. að hún kanni frv. frá 1971 og þessi atriði sem ég hef verið að nefna sem búið er að þrengja með þeim hætti sem ég hef hér rakið. Mér finnst ekki hafa komið fram haldbærar ástæður fyrir þeim þrengingum.
    Ég ætla að nefna hér eitt atriði enn, virðulegi forseti, sem varðar 10. gr. frv. Þar er orðalag sem ég tel óeðlilegt nú á dögum þegar um er að ræða það að gera mun á því hvort karl eða kona á hlut að máli. Hér er til meðferðar í þinginu frv. um að breyta lögum um jafnréttismál og hv. menntmn. Ed. gerði eina eða tvær breytingar sem eiga að draga úr því að gerður sé munur á því hvort um er að ræða karl eða konu. En í 10. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Erlend kona, sem giftist Íslendingi . . . `` o.s.frv. og síðar: ,,Hafi íslensk kona gift Íslendingi . . . `` o.s.frv. Mér finnst eðlilegast að breyta þessu og segja bara: Íslenskur borgari eða erlendur borgari, erlendur einstaklingur, íslenskur einstaklingur o.s.frv. Þó að það sé það algenga í dag, ef um er að ræða eitt fjölskyldunafn, að kona taki upp nafn mannsins, t.d. við dvöl erlendis, þá er ekkert útilokað að það geti verið á hinn veginn, það er ekkert útilokað að kenninafn konunnar verði fyrir valinu, ég tala nú ekki um ef hún heitir einhverju fallegu íslensku ættarnafni en eiginmaðurinn einhverju erfiðu íslensku föðurnafni upp á hefðbundna móðinn. Það er allt til í dæminu í þessum efnum. Það er ástæðulaust að banna hluti eða vera hér með óþarfa boð og bönn gagnvart þeim einstaklingum sem þannig er ástatt um sem hér um ræðir í þessum málsgreinum 10. gr.
    Auðvitað er margt sem mætti tína til varðandi þetta frv. og er auðvelt að hafa skoðanir á flestum atriðum svona máls. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu um of, en ég hygg að það sé öllum ljóst að eðlilegt sé að um þessi mál gildi einhver lög. Ég tel að þau eigi að vera frjálslynd og náttúrlega sýna lögin frá 1925, sem eru mjög stutt og margt sem í þeim er bannað, að eftir slíkum lögum er ekkert farið. Þá kemur auðvitað til greina, eins og menntmrh. leggur til, að beita menn dagsektum og því um líku, en það er hins vegar ekki sú aðferð sem ég kæri mig um að standa að og ég efast um að hann geri það sjálfur svona við nánari athugun.

    Ég ætla rétt að nefna, virðulegi forseti, að í 2. gr. frv. segir: ,,Eiginnafn skal vera íslenskt eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Eiginnafn má ekki heldur vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.`` Það er þetta með að hafa áunnið sér hefð í íslensku máli annars vegar og hins vegar að mega ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það geta verið dæmi um nöfn sem ákveðin hefð er fyrir sem samt brjóta reglur íslenskrar málfræði eða framburðarfræði. Hvað á þá að gera í slíkum tilfellum? Það geta verið eiginnöfn sem eiga uppruna sinn í nálægum löndum þar sem framburður er annar en hér en sem hafa áunnið sér hefð erlendis og eru notuð hvort heldur er til skírnar drengja eða stúlkna. Hvað á þá að gera, hvor setningin er þá sterkari? Það að nafnið hafi áunnið sér hefð í íslensku máli eða hin að nafnið megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi? Ég bendi á þetta til athugunar. Það getur hugsast að þarna komi fram mótsagnir. Ég tel mig geta nefnt dæmi um slík nöfn, en ég sé ekki ástæðu til að tína til einstök mannanöfn í þessum umræðum.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu eins og ég sagði, virðulegi forseti. Ég hef komið þessum athugasemdum mínum á framfæri. Ég tel einsýnt að breyta 10. gr. til samræmis við núgildandi jafnréttissjónarmið. Um hin atriðin má vissulega deila og menn sem vilja banna mikið og margt, þeir banna mönnum að bera þrjú eiginnöfn, banna mönnum að bera millinafn og banna mönnum að taka upp ný ættarnöfn og leggja síðan dagsektir við viðurlögum á þessu öllu saman. (Gripið fram í.) Það þyrfti þá sennilega að breyta frv. aðeins til að leggja dagsektir við öllu en það eru dagsektir við að skíra ekki börn sín nógu tímanlega. Það er rétt að ég leiðrétti það hér með.
    En um þessi atriði má vissulega deila. Menn kunna að hafa á þeim misjafnar skoðanir. Ég beini því til menntmn. að fara yfir þessi atriði öll og sömuleiðis þær athugasemdir sem fram koma hjá dómsmrn. því þar er vissulega um að ræða, eins og að því er varðar hinar athugasemdirnar, atriði sem eiga fullan rétt á því að vera tekin til gaumgæfilegrar athugunar.
    Það er ástæða til þess að setja ný lög um mannanöfn, en það er ekki ástæða til að setja ný lög með atriðum í sem geta valdið erfiðleikum, geta orðið mönnum til ama, eins og segir í frv., ef hægt er að komast hjá því. Ég treysti því að hægt verði að ná samkomulagi í nefndinni og við hæstv. menntmrh. um eitthvað af þessum breytingum.