Mannanöfn
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Ég verð að taka undir það með hæstv. menntmrh. að auðvitað er nauðsynlegt að um svona lagasetningu takist svokölluð þjóðarsátt, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, og ég vil ekki draga úr því að það eigi einmitt við í svona löggjöf sem snertir hvern einasta einstakling í okkar landi.
    Ég verð að segja það eins og er að ég hef þá skoðun að það eigi að ríkja talsvert frjálsræði í þessum málum, það eigi ekki að setja of mikið af boðum og bönnum í sambandi við þetta atriði í lífi okkar Íslendinga. Ég held að fólki á liðnum tímum hafi tekist nokkuð vel upp í sambandi við mannanöfn og það er svo í dag, finnst mér, að ungt fólk, vel menntað fólk og ungt fólk almennt, sem er að velja nöfn á sín börn hefur sýnt alveg ótrúlega hæfni til þess að setja saman mannanöfn sem skaða hvorki íslenskt málfar né íslenska tungu á einn eða neinn hátt. Ég dreg þess vegna í efa að mannanafnanefnd, þó hún sé ágæt og nauðsynleg, eigi að hafa of mikið vald í þessum efnum þannig að fólk hafi ekki möguleika til að sýna hæfni sína í því að setja saman ný nöfn á nýja borgara landsins. Þess vegna vil ég koma því að að mér finnst að það eigi ekki að skerða þennan möguleika fólks í þessum lögum.
    Ég get tekið undir margt sem hér hefur komið fram í þessum umræðum. Ég er t.d. ekkert viss um að það eigi að banna fólki að hafa fleiri en tvö nöfn. Það getur vel farið svo að einstaklingurinn sem er skírður þremur nöfnum velji kannski þriðja nafnið og leggi áherslu á að það sé notað í hans æviferli. Ég get heldur ekki séð að það þjóni sérstökum tilgangi að hafa það óheimilt að taka upp ný ættarnöfn hér á landi. Þessir ágætu aðilar hér á landi sem hafa valið sér ættarnöfn --- það fer vel á þeim flestum. Ég veit um fólk sem hefur verið að tala um að það væri áhugavert að taka upp slík ættarnöfn og miða það við algjörlega íslensk nöfn.
    Ég vil að lokum taka undir það að ég er andvígur því að það sé verið að setja hörð sektarákvæði í sambandi við þessa löggjöf. Mér finnst það óþarft í alla staði. En ég vildi aðeins koma þessu að. Ég vil ekki una því að hin svokallaða mannanafnanefnd geti ráðið um of möguleikum fólks til þess að velja nöfn sem bæði eru skemmtileg í meðferð og stangast alls ekki á við íslenska tungu eða málfar en geta verið miklu meðfærilegri og mætari heldur en mörg þau nöfn sem mest áhersla er lögð á í skýrslu mannanafnanefndar.