Mannanöfn
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Mig langaði til að lesa hér örstutt upp úr fylgiskjali, sem var með frv. sem flutt var 1971, sem samið mun vera af prófessor Halldóri Halldórssyni, um uppruna nafna, en þar er vikið að þessari spurningu um tvínefni eða fjölnefni sem ég var að gera athugasemd við hér áðan og tel rétt að menn fái að heita fleiri en tveimur nöfnum ef því er að skipta. Hér segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Tvínefni eða fjölnefni fóru í vöxt á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld. Í nafnalögunum frá 1913 er gert ráð fyrir að menn geti borið tvö eiginnöfn eða fleiri en nafnalögin frá 1925 stemma stigu við að menn geti borið meira en tvö eiginnöfn. Misbrestur hefur þó orðið á framkvæmd laganna frá 1925 í þessu efni eins og mörgum öðrum. Má skjóta því fram hér að menn sem kunnugir eru refsimálum hafa bent á hve títt það er að sakborningar heiti fleiri nöfnum en tveimur og raunar að þeir beri oft nöfn sem ankannaleg eru eða bagi er að.``
    Það er rétt að menntmn. hafi þetta veganesti með sér til starfa sinna þegar hún fjallar um 1. gr. frv. þar sem bann er lagt við því að bera fleiri en tvö eiginnöfn, en ég held að við hæstv. menntmrh. hljótum að vera sammála um að þetta sé tóm vitleysa og ekki ástæða til þess að banna mönnum að skíra börn sín því sem þeim sýnist á þessum grundvelli.