Félagsþjónusta sveitarfélaga
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (frh.) :
    Virðulegi forseti. Þegar ég frestaði ræðu minni sl. föstudag hafði ég lýst undirbúningi og aðdraganda þessa frv. sem og þeim markmiðum sem að er stefnt með þessu frv. Ég vil því nú hefja mál mitt með því að lýsa helstu annmörkum á núverandi skipan félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Helstu annmarkar á núverandi skipan félagsþjónustu sveitarfélaga sem frv. er ætlað að bæta úr eru:
    Í fyrsta lagi er framkvæmd félagsþjónustu sveitarfélaganna grundvölluð á mörgum sérlögum sem sett hafa verið á mjög löngum tíma. Mörg þessara laga eru fyrir löngu orðin úrelt en önnur skarast með óeðlilegum hætti. Þá er tæplega unnt að sjá innbyrðis tengingu eða skírskotun þessara laga þannig að samræmingar sé gætt við framkvæmd þjónustunnar. Þessi sérhæfingarsjónarmið í löggjöf og framkvæmd orka tvímælis.
    Í öðru lagi má nefna að sérhæfingarsjónarmiðið felur í sér mikla verkaskiptingu eftir eðli vandamála. Þannig hefur það haft í för með sér mikinn fjölda nefnda sem hver um sig fer með einn málaflokk félagsþjónustunnar. Þetta hefur torveldað heildarsýn og samræmingu við uppbyggingu og rekstur félagsþjónustunnar og getur gert hana óhagkvæma og ómarkvissa. Þjónusta við einstaklinga hefur oft verið sundurlaus og almenningi gert erfiðara fyrir í skiptum sínum við félagsþjónustuna en ella þyrfti.
    Í þriðja lagi. Sérhæfingarsjónarmiðið hefur enn fremur orðið til þess að yfirstjórn félagsþjónustu hefur dreifst á fleiri en eitt ráðuneyti. Slíkt fyrirkomulag byrgir fyrir möguleika á yfirsýn yfir málaflokkinn og getur staðið í vegi fyrir lagasamræmi og samræmdri framkvæmd. Eftirliti með og aðstoð við framkvæmd laga hefur jafnframt verið ábótavant sem rekja má til dreifðrar yfirstjórnar.
    Í fjórða lagi. Hin dreifða yfirstjórn hefur átt verulegan þátt í því að stefnumótun í félagsþjónustunni hefur átt erfitt uppdráttar. Einstakir málaflokkar félagsþjónustunnar hafa orðið að jaðarmálum margra ráðuneyta sem jafnvel hafa ekki haft á að skipa sérstökum starfsmönnum til að sinna þeim. Hin dreifða stjórn félagsþjónustunnar innan sveitarfélaganna hefur enn aukið á erfiðleika við stefnumörkun. Reyndin hefur því orðið sú að ekki er til stefna í félagsmálum sambærileg við stefnu stjórnvalda, t.d. í heilbrigðis - og menntamálum. Í sérlögum má þó finna markmiðslýsingu í einstökum málaflokkum þótt um framkvæmd þeirra markmiða fari með mjög ólíkum hætti.
    Í fimmta lagi. Ekki gætir samræmis varðandi grundvallaratriði í framkvæmd félagsþjónustunnar. Almennt hefur verið gengið út frá því að sveitarfélögin séu grunneining félagsþjónustunnar. Hins vegar eru í veigamiklum málaflokkum lögbundin starfssvæði þar sem sveitarfélögum er skylt að sameinast um þjónustu eða hafa með sér samvinnu um hana. Þessi starfssvæði eru hins vegar ekki þau sömu heldur eru þau breytileg eftir því hver málaflokkurinn er. Þannig eiga

sveitarfélög að sinna öldrunarþjónustu á grundvelli heilsugæsluumdæma, hafa samstarf í málefnum fatlaðra á vettvangi svæðisstjórna og starfa saman að vinnumiðlun á vettvangi atvinnusvæða. Þrátt fyrir þá annmarka, sem þessu fylgja vissulega, eru kostirnir þeir að reynt er að komast hjá þeim takmörkunum sem mannfæð margra sveitarfélaga setur félagsþjónustunni.
    Í sjötta lagi. Flest sveitarfélög í landinu eru of fámenn til þess að geta ein og sér risið undir því að veita félagsþjónustu sem heitið getur. Segja má að þá félagsþjónustu, sem frv. nær til, sé nú nær eingöngu að finna í stærstu sveitarfélögunum. Þetta leiðir óhjákvæmilega til ójafnaðar eftir því hvar fólk býr á landinu.
    Helstu nýjungar sem lagðar eru til með frv. þessu eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi felur frv. í sér nýja sýn á félagsþjónustu og er það grundvallaratriði að baki þess. Þau viðhorf finnast enn að félagsþjónusta sveitarfélaga sé neyðarúrræði, ætluð afmörkuðum hópi sem orðið hefur undir í lífsbaráttunni. Í frv. er þessari sýn algjörlega hafnað. Í hennar stað er lögð áhersla á þá staðreynd að félagsþjónusta sveitarfélaga felur í sér margháttaða þjónustu sem ætlað er að koma til móts við ólíkar þarfir íbúanna.
    Í augum margra felur félagsþjónusta sveitarfélaga eingöngu í sér framfærsluaðstoð sem sé angi af fátækrahjálp fyrri tíma. Erfitt hefur reynst að uppræta þann misskilning, mörgum einstaklingum til sárrar raunar. Raunin er hins vegar sú að fjárhagsaðstoð er einn liður í víðtækri aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur, þ.e. aðstoð í atvinnumálum, dagvistarmálum, barnaverndarmálum og húsnæðismálum, auk almennrar félagslegrar ráðgjafar. Þannig má segja að félagsmálastofnanir séu eini aðilinn í þjóðfélaginu sem fæst við fjölskylduvernd. Mikill ókunnugleiki virðist því ríkja um það hve fjölbreytileg þjónusta hér er á ferðinni, þjónusta sem flestir þurfa á að halda einhvern tíma á lífsleiðinni, svo sem heimaþjónusta og dagvist barna. Einnig að á vegum sveitarfélaga fer fram mikilvægt forvarnarstarf, bæði í málefnum barna og unglinga.
    Mikilvægt er að skipan félagsþjónustunnar sé með þeim hætti að ekki sé stuðlað að aðskilnaði í almennri þjónustu og aðstoð við fólk sem á í félagslegum vanda. Slíkt getur leitt til þess að skapa sérstakar ,,vandamálastofnanir`` og er afar niðurlægjandi fyrir þá sem þangað þurfa að leita.
    Með heildstæðum rammalögum um alla þætti félagsþjónustu sveitarfélaga hefur verið leitast við að ýta undir þá sýn að hér er um jafnsjálfsagðan þátt í velferðarþjóðfélagi að ræða og velferðarkerfi ríkisins býður upp á, svo sem almennar tryggingar, heilbrigðisþjónustu og skóla. Heildstæð löggjöf um þetta efni getur verið fyrsta skref í átt til þess að viðurkennt verði að félagsleg þjónusta sveitarfélaga er einn liður í velferðarkerfi samfélagsins. Einnig verður þá fyrst hægt að vinna markvisst að félagsmálastefnu sem á að vera jafnsjálfsögð og stefna í heilbrigðis - og skólamálum. Með hinni nýju sýn er hugsunarháttur fátæktar og framfærslu og sveitfesti lagður fyrir róða, hugsunarháttur sem hér hefur ríkt frá því að land byggðist. Réttur til þjónustu verði ávallt í því sveitarfélagi þar sem einstaklingur á lögheimili án þess að fortíð hans sé athuguð sérstaklega eins og núgildandi sveitfestuákvæði bjóða upp á. Öll þjónusta verði réttur fólks, jafnt fjárhagsaðstoð sem önnur þjónusta, miðað við mat á aðstæðum þeirra og reglum sem sveitarfélög setja sér innan ramma laganna.
    Í öðru lagi felur frv. í sér breytta skipan félagsþjónustu sem miðar fyrst og fremst að því að sjónarmið heildarsýnar er tekið fram yfir sjónarmið sérhæfingar í stjórn og skipan félagsþjónustunnar. Í þessu felst að stigin eru skref í átt til þess að á vettvangi ríkisins verði yfirstjórn og eftirlit með framkvæmd félagsþjónustunnar sameinuð að mestu í einu ráðuneyti. Jafnframt verði stjórn og framkvæmd félagsþjónustunnar sameinuð á vettvangi sveitarstjórnar í einni nefnd, félagsmálanefnd.
Loks er áhersla lögð á að hvetja sveitarfélög til að sameinast um framhald félagsþjónustunnar með það fyrir augum að félagsþjónusta standi öllum landsmönnum til boða.
    Hvað þátt ríkisins varðar er lagt til að félagsþjónusta sveitarfélaga heyri undir félmrn. og eftirlit með framkvæmd laganna verði á vegum þess. Með þessu er lagt til að nýr málaflokkur færist til þessa ráðuneytis auk þess sem þar verði komið á fót sérstakri deild til að sinna málaflokknum, bæði almennum atriðum hans, svo sem stefnumótun og samskiptum við hin einstöku sveitarfélög. Hin nýja deild gerir ráðuneytinu fært að sinna málaflokknum sérstaklega en hann verði ekki jaðarverkefni eins og reyndin hefur orðið fram til þessa.
    Hvað nýja málaflokka varðar skal fyrst nefnd vernd barna og ungmenna, en í samræmi við frv. til laga um vernd barna og ungmenna sem nú liggur fyrir Alþingi er lagt til að yfirstjórn þessa málaflokks færist til félmrn. Auk þess er lagt til að dagvist barna verði að hluta til verkefni félmrn. en til samræmis við frv. til laga um leikskóla er gert ráð fyrir að faglegur hluti þessa málaflokks heyri undir menntmrn. svo sem verið hefur.
    Enn fremur ber hér að geta um þá þætti í málefnum aldraðra, málefnum áfengissjúkra og vímugjafavörnum sem heyra undir sveitarstjórnir en að öðru leyti eru þeir málaflokkar á vegum heilbrrn. svo sem kunnugt er.
    Nauðsynlegt er að koma á festu í samstarfi ríkis og sveitarfélaga við framkvæmd félagsþjónustu en fram til þessa hefur slíkt samstarf verið lítið sem ekkert. Með því að fela sérstakri deild í félmrn. að vera til eftirlits og ráðgjafar fyrir sveitarfélögin við framkvæmd félagsþjónustunnar verður í fyrsta sinn séð fyrir því að sveitarfélög geti leitað til ákveðins aðila sem hefur yfirsýn yfir málaflokkinn í heild. Verður það til mikilla hagsbóta fyrir sveitarfélögin sem þannig fá aðstoð og leiðbeiningar um meðferð þessara mála. Í sveitarfélögum verða félagsmálanefnd eða félagsmálaráð, lögskipuð nefnd, nauðsynlegur samnefnari fyrir alla þætti félagsþjónustunnar. Nefndin hafi á hendi stjórn félagsþjónustunnar innan sveitarfélagsins, bæði í stefnumarkandi málum og einstaklingsbundinni aðstoð. Eins og fram kemur í 11. gr. frv. er félagsmálanefnd ætlað víðtækt verkefni sem tryggir að þar verði yfirsýn yfir hina fjölbreyttu félagsþjónustu.
    Vegna þess hve víðtækt verkefni félagsmálanefndar er hefur verið lagt til að sveitarfélagi verði heimilt að skipa undirnefnd félagsmálanefndar sem fer með sérstök verkefni. Einnig er gert ráð fyrir að í stórum sveitarfélögum megi fela undirnefnd hverfis - eða svæðisbundna þjónustu.
    Í þriðja lagi að sett verði rammalöggjöf um alla málaflokka sem teljast til félagsþjónustu sveitarfélaga. Þeir málaflokkar eru: félagsleg ráðgjöf, fjárhagsaðstoð, fjárhagsleg heimaþjónusta, málefni barna og ungmenna, þjónusta við unglinga, málefni leikskóla, þjónusta við aldraða, þjónusta við fatlaða, húsnæðismál, aðstoð við áfengissjúka og vímugjafavarnir, svo og atvinnuleysisskráning og vinnumiðlun. Hér er um að ræða málaflokka sem öll stærri sveitarfélög í landinu hafa nú þegar fellt undir starfsemi félagsmálastofnana og félagsmálaráða í sínum umdæmum í meira eða minna mæli.
    Í frv. felst í fjórða lagi sérstök hvatning til sveitarfélaga um að vinna saman að félagsþjónustu eða koma á sameiginlegri félagsmálanefnd. Með hliðsjón af sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga og anda sveitarstjórnarlaga þótti ekki rétt að leggja til að sveitarfélögunum verði skylt að stofna til samvinnu á þessum vettvangi. Hins vegar felst í frv. hvatning til þess að svo geti orðið, enda talið farsælla að sveitarfélög ákveði sjálf slíka samvinnu en að boð komi um hana ofan frá. Gert er ráð fyrir að samvinna sveitarfélaga á þessum vettvangi verði á vegum héraðsnefnda, byggðarsamlaga eða samkvæmt sérstöku samkomulagi. Félmrn. mun að sjálfsögðu verða til ráðuneytis um slíka samvinnu sem er í mörgum tilfellum í raun nauðsynleg til þess að jafnvægi megi ríkja á milli byggðarlaga hvað þjónustustig varðar.
    Í fimmta lagi eru lagðar til víðtækar breytingar hvað varðar innihald og framkvæmd framfærsluskyldu og fjárhagsaðstoðar. Í samræmi við hina nýju sýn í félagsþjónustu, hornstein þessa frv., er lagt til að framfærslulög nr. 80/1947 verði felld úr gildi með hinum nýju lögum, en í stað framfærslulaganna komi annars vegar ákvæði í almennum köflum frv. og hins vegar í VI. kafla þess sem fjallar um fjárhagsaðstoð. Sveitfestiákvæði verði afnumin en í því felst að sveitarfélög geta ekki lengur krafið hvert annað um endurgreiðslur veittrar fjárhagsaðstoðar á grundvelli sveitfesti.
    Hvað framfærsluskyldunni viðvíkur er lagt til að felld verði niður framfærsluskylda barna við foreldra sína, svo og framfærsluskylda foreldra við börn eldri en 18 ára. Slík framfærsluskylda þykir nú hafa gengið sér til húðar, enda mun henni ekki hafa verið beitt undanfarin ár. Framfærsluskylda barna við foreldra byggir á gömlum, sögulegum merg og felur í sér þá

hugsun sem áður þótti sjálfsögð að börn bæru ábyrgð á velferð foreldra sinna. Rök fyrir því að slík framfærsluskylda þykir ekki eiga við í nútímasamfélagi eru þau að afdráttarlaus lagaákvæði um ábyrgð barna á foreldrum hafi í reynd takmarkað gildi auk þess sem hvorki er æskilegt né oft á tíðum framkvæmanlegt að þvinga börn til að annast foreldra sína ef það er andstætt vilja þeirra eða getu. Þess í stað er í frv. lögð áhersla á það að fólk beri ábyrgð á sjálfu sér og öðrum. Með öðrum er hér átt við ættingja, vini, nágranna og aðra sem fólk umgengst.
    Auk framfærsluskyldunnar er einnig lögð til gagnger breyting á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Má þar einkum nefna að meginreglan verði sú að réttur til fjárhagsaðstoðar verði í því sveitarfélagi þar sem maður á lögheimili en hin gömlu sveitfestiákvæði felld úr gildi eins og fyrr var vikið að. Þetta endurspeglar það nýja viðhorf að fjárhagsaðstoð er ekki lengur ölmusa heldur réttur, séu fyrir henni gildar ástæður.
    Ekki náðist samstaða um það að kveða á um lágmark fjárhagsaðstoðar í frv., t.d. miðað við bætur almannatrygginga eða lágmarkslaun. Hér vógust á tvö sjónarmið. Annað það að ef ætlunin væri að tryggja fólki jöfnuð um allt land væri nauðsynlegt að í rammalögunum væru sett viðmiðunarákvæði um lágmark fjárhagsaðstoðar. Hitt, og það sem vóg þyngra, fól í sér að það væri andstætt sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga að segja þeim nákvæmlega fyrir verkum í þessu tilliti. Auk þess væri jafnan hætt við því að lágmarkið yrði umdeilt. Því væri nægjanlegt að ganga svo frá málum, eins og gert er í frv., að skylda öll sveitarfélög til þess að setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Slíkar reglur tryggi að réttur íbúa sé ljós og þeim sé ekki mismunað. Hugsunin er sú að ráðuneytið gangi fast eftir því að reglur þessar verði settar og hafi eftirlit með því að þær séu innan ramma laganna.
    Mikið er lagt upp úr því með hverjum hætti fjárhagsaðstoð sé veitt. Þar eru lagðar skyldur jafnt á herðar sveitarfélaga sem umsækjenda. Málið fái í alla staði faglega meðferð og komist verði hjá því að umsækjendur upplifi aðstoðina sem niðrandi heldur þess í stað sem lið í almennri þjónustu sveitarfélaga. Aðstoð verði veitt sem lán eða styrkur en óheimilt að beita öðrum aðferðum, svo sem matarmiðum eða úttektarmiðum.
    Í sjötta lagi. Í stað laga um heimilishjálp í viðlögum nr. 10/1952 er í frv. kafli um félagslega heimaþjónustu en á þessum tveimur hugtökum er mikill munur. Heimilishjálp í viðlögum felur í sér að veitt er aðstoð við heimilisstörf í hefðbundinni merkingu, svo sem við hreingerningar og hugsanlega við matseld. Í félagslegri heimaþjónustu felst hins vegar víðtæk aðstoð, þ.e. auk venjulegra heimilisstarfa dagleg umönnun, heimsending matar, endurhæfing og félagslegur stuðningur. Með félagslegum stuðningi er átt við að rofin sé félagsleg einangrun skjólstæðingsins jafnframt því sem haft sé eftirlit með heilsufarslegu öryggi hans og andlegri vellíðan. Reynslan sýnir að heimaþjónusta í þessum skilningi getur stórlega dregið úr stofnanakostnaði til hagsbóta bæði fyrir einstaklinga og þjóðfélag. Í frv. er það nýmæli að kveðið er á um skyldur sveitarfélaga til að veita fötluðum heimaþjónustu en um árabil hefur sveitarfélögum verið skylt að veita hana öldruðum samkvæmt lögum um málefni aldraðra.
    Í sjöunda lagi. Nýmæli er að kveðið er sérstaklega á um félagslega ráðgjöf en ákvæði þess efnis hefur ekki áður verið að finna í íslenskri löggjöf. Ástæða er til að leggja áherslu á að sú aðstoð og þjónusta sem þetta lagafrv. fjallar um verður vart veitt öðruvísi en á grundvelli félagslegrar ráðgjafar. Óháð því er ljóst að hið flókna nútímaþjóðfélag kallar á aðgang fólks að ráðgjöf um félagsleg réttindi og í einkamálum.
    Í áttunda lagi. Kafli frv. um þjónustu við unglinga er nýjung í löggjöf. Ekki hefur áður verið gerð tilraun í löggjöf til að draga fram þjónustu sveitarfélaga við unglinga í heild sinni. Áhersla er lögð á að samþætta almennt forvarnastarf í unglingamálum annars vegar og sértæk úrræði við unglinga í félagslegum vanda hins vegar. Þetta er í samræmi við sjónarmið fagfólks sem starfar með unglingum og ítrekað hefur bent á hættuna sem fólgin er í því að aðskilja áhættuhópa unglinga frá almennu æskulýðsstarfi.
    Í níunda lagi. Nýmæli eru ákvæði frv. um málsmeðferð og málskot. Sætir það raunar nokkurri furðu að engin ákvæði hafa verið til í íslenskri löggjöf um meðferð mála af því tagi sem félagsmálanefndir fást við, ekki síst þegar haft er í huga hversu viðkvæm þau mál oft eru. Þetta hefur valdið jafnt skjólstæðingum sem starfsmönnum félagsþjónustunnar talsverðum vandkvæðum, skapað óvissu og óöryggi og er jafnvel líklegt til að valda árekstrum. Ákvæði frv. um málsmeðferð taka mið af þeirri meginreglu að ætíð skuli höfð samvinna og samráð við skjólstæðing frá upphafi málsmeðferðar. Einungis er vikið frá þessari meginreglu í undantekningartilvikum þegar brýna nauðsyn ber til.
    Þegar nauðsynlegt reynist að grípa til þvingunaraðgerða, svo sem innlagningar á sjúkrahús eða öflunar upplýsinga án vitundar skjólstæðings, skal með þau mál farið að sérlögum, lögræðislögum eða barnaverndarlögum, þar sem engin slík heimild er samkvæmt frv.
    Þá hefur frv. að geyma ákvæði er treystir réttaröryggi skjólstæðinga á ýmsum fleiri sviðum, svo sem rétt þeirra til upplýsinga á skráðum gögnum, um varðveislu gagna og þagnarskyldu. Ekki síst er tímabært að lögfesta rétt til málskots, þ.e. rétt einstaklings til þess að skjóta málum til óháðs úrskurðaraðila, úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða og má í þeim efnum benda á að Ísland hefur þurft að sæta ámæli Evrópuráðsins þar sem ekki hefur verið virt ákvæði í félagsmálasáttmála Evrópu um lagaákvæði sem heimila málskot um félagslega aðstoð til æðri stjórnvalda.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni þessa frv. Ég vil leggja áherslu á hversu brýna löggjöf er um að ræða, nauðsynlega undirstöðu þess að sveitarfélög um land allt geti hafið markvissa félagsþjónustu er veiti íbúum þeirra nauðsynlega öryggistilfinningu. Einnig legg ég áherslu á það að hér er öðrum þræði byggðamál á ferðinni, en flótti úr dreifbýli í þéttbýli stafar í mörgum tilvikum af því hversu fábreytilega þjónustu fámenn sveitarfélög hafa veitt til þessa. Ég vil benda á að frv. hefur verið vandlega undirbúið, bæði unnið af fagmönnum og fulltrúum stjórnmálaflokka og hefur sú vinna staðið í fleiri ár. Sérstaklega vil ég taka fram að á öllum vinnslustigum frv. hefur þess verið gætt að sjónarmið sveitarstjórnanna séu virt. Frv. var samið m.a. að ósk stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga og átti hún fulltrúa í nefndinni sem samdi það. Áfangadrög að frv. voru send öllum landshlutasamtökum sveitarfélaga til umsagnar. Loks skal þess getið að við frágang frv. var haft náið samstarf við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sem lýst hefur stuðningi við öll meginatriði þess. Þá hafa borist hátt á annan tug umsagna frá sveitarfélögum sem undantekningarlaust fela í sér stuðning við frv.
    Í umsögnum 20 annarra aðila, stéttarfélaga, fagfélaga, hagsmunasamtaka fatlaðra og aldraðra og áhugahópa um málefni kvenna og barna, hefur nær undantekningarlaust komið fram eindreginn stuðningur við frv. Alþýðusamband Íslands og BSRB hafa fagnað framlagningu þess og hafa lýst stuðningi við meginatriði þess. Heildarsamtök fatlaðra, Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp, ásamt einstökum félögum fatlaðra, svo sem Sjálfsbjörg, Styrktarfélag vangefinna og Geðhjálp, hafa lagt mjög ríka áherslu á að frv. verði að lögum á þessu þingi. Þá hafa félagasamtökin Vernd, Samtök um kvennaathvarf, Félag einstæðra foreldra, Leigjendasamtökin og Landssamband aldraðra allir lýst fylgi við frv. og hvetja til þess að það verði að lögum. Loks skal getið fagfélaga á borð við Stéttarfélag félagsráðgjafa, Sálfræðingafélag Íslands, Félag þroskaþjálfa og Samtök félagsmálastjóra sem öll hafa ályktað um mikilvægi þessa frv. og veitt því stuðning.
    Ég vil vekja á því sérstaka athygli að í umsögnum um frv. kemur fram að það er einungis eitt atriði í frv. sem ágreiningur hefur verið um sem máli skiptir. Er það um málefni leikskóla og hefur Fóstrufélag Íslands einkum beitt sér gegn ákvæðum frv. í þeim efnum. Verulega hefur verið komið til móts við þau sjónarmið í frv. eins og það er nú lagt fyrir Alþingi.
    Nefnd sú sem samdi frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga lagði til að dagvistarmál heyrðu alfarið undir félmrn. og yrðu þannig samferða öðrum velferðarmálum á verkefnaskrá sveitarfélaga. Ekki hvarflaði það að nefndinni að með því yrði dregið úr uppeldislegu hlutverki dagvista og leikskóla en um mikilvægi þess er sérstaklega kveðið á í frv. Rétt er að benda á að í þeim löndum þar sem dagvistarmál hafa þróast lengst og hafa gjarnan verið fyrirmynd annarra þjóða, í Svíþjóð og Danmörku, heyra þessi mál undir félagsmálaráðuneyti. Sú nefnd sem skipuð var af ríkisstjórnarflokkunum til þess að yfirfara frv. var þessu sjónarmiði sammála ef undan er skilinn fulltrúi Alþb. Hins vegar breytti ég þessum tillögum nefndarinnar og lá

það þegar fyrir þegar frv. var lagt fram á Alþingi sl. vor í fullkomnu samkomulagi við menntmrh. Þannig er nú gert ráð fyrir því í þessu frv. að fagleg yfirstjórn, uppeldisáætlanir, dagvistarheimili og starfsleyfi fyrir leikskóla verði undir menntmrn. svo sem verið hefur. Þar er engu breytt og verkefni og skyldur menntmrn. verða nákvæmlega þær sömu og verið hefur þótt frv. um félagsþjónustu verði að lögum. Í þessu felst að engin verkefni á sviði dagvistarmála flytjast frá menntmrn. til félmrn. Hins vegar fengi félmrn., sem er ráðuneyti sveitarstjórnarmála, það verkefni að hafa eftirlit með því að sveitarfélögin í landinu sinntu uppbyggingu í dagvistarmálum jafnframt því að veita þeim aðstoð til að sameinast um rekstur dagvista. Síðastnefnda atriðið er mjög þýðingarmikið þegar hafður er í huga hinn mikli fjöldi sveitarfélaga hér á landi, svo og smæð þeirra sem krefst þess að mörg sveitarfélög sameinist um dagvistarmál ef öll börn eiga að fá notið þeirrar þjónustu, óháð búsetu. Að auki er skýrt tekið fram í því frv. sem ég hér mæli fyrir að leikskóli skuli rekinn samkvæmt sérstökum lögum.
    Þess hefur verið krafist að öll ákvæði frv. þessa um málefni leikskóla verði numin á brott og því haldið fram að þau séu í andstöðu við frv. menntmrh. um leikskóla. Ekki var menntmrh. þeirrar skoðunar sl. vor þegar samkomulag var gert í málinu og bæði frumvörpin lögð fyrir þingið. Því síður á það við um þetta frv. sem nú er lagt fyrir þingið þar sem enn hafa verið gerðar breytingar á því frá fyrri framlagningu sl. vor í þá veru að samræma hugtakanotkun beggja frumvarpanna þannig að orðið leikskóli er notað sem samheiti dagvista. Ég tel það mjög óeðlilegt að frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga taki ekki til dagvistarmála sem samkvæmt sveitarstjórnarlögum og verkaskiptingarlögum eru alfarið á ábyrgð sveitarstjórna, bæði í stofnkostnaði og rekstri. Dagvistarmál eru einn mikilvægasti þjónustuþáttur hvers sveitarfélags við íbúa sína og viðamesta viðfangsefni flestra félagsmálaráða eða nefnda um landið. Því væri afar sérkennilegt að fella út með öllu þennan mikilvæga málaflokk þegar verið er að skilgreina hvaða málaflokkar falla undir sveitarfélög í félagsmálum og hvaða skyldur sveitarfélög hafa í því efni.
    Þar sem dagvistarþáttur þessa frv. hefur verið mjög blásinn upp í fjölmiðlum og því kyrfilega haldið fram að félmrh. stæði í miklu stríði og væri í raun með frekju og yfirgangi að gera óbilgjarnar kröfur um að hrifsa þennan málaflokk undir félmrn. frá menntmrn. er nauðsynlegt í lokin að fara um það nokkrum orðum hér til viðbótar og útskýra hvers vegna dagvistarmál eru höfð á meðal þeirra málaflokka sem frv. tekur til.
    Samkvæmt sveitarstjórnarlögum og verkaskiptingarlögum ríkis og sveitarfélaga eru dagvistarmál alfarið, bæði stofnkostnaður og rekstrarkostnaður, á ábyrgð sveitarfélaganna jafnframt því að vera einn mikilvægasti þjónustuþáttur hvers sveitarfélags við íbúa sína. Því væri afar sérkennilegt að lög um félagsþjónustu sveitarfélaga tækju ekki til dagvistarmálanna eins og t.d. málefna aldraðra sem eru mjög veigamikill þáttur í þjónustu sveitarfélaga. Í hvorugum þessara málaflokka verður þó um að ræða eðlisbreytingu á þeim verkefnum sem heilbrrn. fer með í málefnum aldraðra né í málefnum leikskóla sem menntmrn. fer nú með. Frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga er í 71 grein og er fyrst og fremst frv. að rammalögum. Í 6 þeirra er fjallað um dagvistarmál og málefni leikskóla. Í 2. gr. frv. er fyrst og fremst verið að fjalla um hver sú þjónusta er sem sveitarfélögin eigi að veita og hvaða málaflokkar það eru sem þau hafa skyldur við í félagsmálum. Eru þar m.a. talin upp málefni leikskóla. 3. gr. fjallar um yfirstjórn og kemur þar skýrt fram að málefni leikskóla heyra undir menntmrn. að því er varðar faglega yfirstjórn og uppeldisáætlanir. Í fjórum greinum í X. kafla er síðan sérstaklega fjallað um málefni leikskóla og eru greinarnar orðaðar svo, með leyfi forseta:
    37. gr. Sveitarfélög skulu eftir föngum bjóða upp á leikskóla barna þar sem þeirra er þörf. Til þess að sú þjónusta verði í sem bestu samræmi við þarfir barna í sveitarfélagi skal það láta fara fram mat á þörfinni eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti.
    38. gr. Félagsmálanefnd, skólanefnd grunnskóla eða sérstök leikskólanefnd fara með stjórn leikskóla.
    Ákvörðun um stjórn leikskóla tekur sveitarstjórn.
    39. gr. Samþykki menntmrn. og hlutaðeigandi sveitarstjórnar þarf til að setja á stofn leikskóla fyrir börn.
    40. gr. Markmið leikskóla skal vera að stuðla að og örva alhliða þroska barna með því að skapa þeim góð uppeldisskilyrði undir handleiðslu fóstra og annars starfsliðs sem sérstaklega er til þess menntað.
    Leikskólar skulu reknir samkvæmt sérstökum lögum.
    Eins og sést á ofangreindu er það ótvírætt að fagleg yfirstjórn og uppeldisáætlanir verða í höndum menntmrn. eins og verið hefur. Um það er einnig kveðið á í 3. gr. frv. um leikskóla. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Stofnun leikskóla og rekstur er á ábyrgð sveitarfélaganna en fagleg yfirstjórn málaflokksins samkvæmt lögum þessum er á hendi menntmrn.`` Frumvörpin skarast því ekki og ekki er verið að flytja nein verkefni frá menntmrn. sem það hefur haft til þessa í dagvistarmálum. Í annan stað mun félmrn. samkvæmt frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga ekki geta sett neinar reglugerðir um málefni leikskóla sem eins og áður greinir skulu reknir samkvæmt sérstökum lögum. Ekkert í frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur í veg fyrir að frv. um forskólastig nái fram að ganga né heldur
skarast á við það frv. Þvert á móti undirstrikar frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga skyldur sveitarfélaga um uppbyggingu leikskóla.
    Eins og ég hef ítrekað hér, virðulegi forseti, þá er í frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga gert ráð fyrir að fagleg yfirstjórn og uppeldisáætlanir dagvistarmála verði undir menntmrn. svo sem verið hefur en hins vegar fengi félmrn., sem er ráðuneyti sveitarstjórnarmála, það verkefni að hafa eftirlit með því að sveitarfélögin sinntu uppbyggingu í dagvistarmálum, jafnframt því að veita þeim aðstoð til að sameinast um rekstur dagvista. Síðastnefnda atriðið er auðvitað mjög þýðingarmikið þegar haft er í huga að sveitarfélögin eru yfir 200 að tölu og mörg smá og verða því mörg að sameinast um rekstur dagvistarheimila ef öll börn eiga að njóta þeirrar þjónustu óháð búsetu.
    Ég tel mig, virðulegi forseti, rækilega hafa gert grein fyrir því að þessi frumvörp, frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga og um leikskóla, skarast á engan hátt og það hefur verið blásið upp og raunverulega komið fram mjög villandi útúrsnúningur um það að hér sé verið að hrifsa verkefni sem menntmrn. hefur haft yfir í félmrn. Þvert á móti eins og ég segi, þá styður þetta frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga og ákvæði þess um dagvistarmál uppbyggingu leikskóla í landinu.
    Virðulegi forseti. Ég skal nú fara að ljúka máli mínu. Það verður ekki lengur við það unað að höfuðlöggjöf sem sveitarfélög styðjast við við framkvæmd félagsþjónustunnar við íbúa sína skuli vera framfærslulög sem fyrir löngu hafa runnið sitt skeið. Félagsþjónusta sveitarfélaga er fjölþætt þjónusta sem á að koma til móts við ólíkar þarfir íbúanna í nútímaþjóðfélagi og á ekki að líta á sem aðeins neyðarbrauð þeirra sem höllum fæti standa. Segja má að félagsþjónusta sveitarfélaganna sé fimmta víddin í íslenska velferðarkerfinu, hinar fjórar, menntakerfið, heilbrigðisþjónustan, tryggingakerfið og húsnæðismálin, eru betur skilgreindar enda hefur löggjafinn sett um þær heildstæða löggjöf. Fyllilega er því orðið tímabært að slík löggjöf verði sett viðvíkjandi félagsþjónustunni eins og nágrannaþjóðir okkar hafa fyrir löngu gert.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.