Félagsþjónusta sveitarfélaga
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Þetta frv. sem hér hefur verið mælt fyrir er vissulega mikið að vöxtum og því fylgir löng og mikil greinargerð. Hins vegar er það svo um mörg þau atriði sem rakin hafa verið og sem um er fjallað í þessu frv. að um þau eru til sérstök lög. Nægir þar að sjálfsögðu að nefna lögin um málefni aldraðra, lögin um málefni fatlaðra og lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem er breytt oftar en einu sinni á hverju ári, lög um vernd barna og ungmenna, barnalögin o.fl. Hér á sem sagt að setja það sem kallað er rammalöggjöf utan um og fyrir ofan öll þau lög sem fyrir eru og fjalla um þessi málefni.
    Það er auðvitað spurning hvernig menn skilgreina félagsþjónustu. Hvar á að draga mörkin? Heilbrigðisþjónusta og menntamál er auðvitað félagsleg þjónusta í víðasta skilningi og ýmislegt annað sem ráðherrann taldi hér upp, tryggingarnar t.d. Þannig að það er nú ekkert svo hlaupið að því að koma hér og segja: Við erum búin að ,,definera`` þetta nákvæmlega, skilgreina það nákvæmlega hvað sé félagsþjónusta og hvað sé annað og af því að til að mynda leikskólinn er í okkar skilgreiningu félagsþjónusta þá eigi hann heima hér en ekki til að mynda á vettvangi menntamála eða uppeldismála.
    Ég held að sá inngangur sem hafður var á þessu máli hafi einfaldað það allnokkuð sem er í raunveruleikanum. Enda er það svo að í þessu frv., einstökum greinum þess, eru mjög hallærislegar tilvísanir, ef forseti vill umbera slíkt orðalag, hallærislegar tilvísanir í önnur lög. Hér segir m.a. í 36. gr., þegar verið er að tala um þjónustu við unglinga:
    ,,Um önnur atriði, er lúta að þjónustu við unglinga, er vísað í lög um æskulýðsmál, íþróttalög, lög um grunnskóla og lög um vernd barna og ungmenna.``
    Það er eins og þetta sé einhver ályktun sem eigi að fara að samþykkja hér en ekki ný löggjöf. Þetta er afar aulalegt, aulalega frá þessu gengið og alveg með ólíkindum að ætla að bjóða Alþingi upp á það að samþykkja lög þar sem er sagt ,,að öðru leyti vísast í önnur lög``.
    Það er þó skárra sem segir í köflunum um einstaka kafla að um önnur málefni viðkomandi hópa, aldraðra og fatlaðra til að mynda, fari eftir sérlögum um þau mál. En allra aulalegast er þó, virðulegi forseti, þar sem segir í 8. gr. frv. þegar vikið er að félagsmálastofnunum og starfsmönnum félagsmálanefnda:
    ,,Félagsmálastofnun skal hafa hæfu starfsfólki á að skipa til að sinna þeim verkefnum sem lög þessi kveða á um.`` --- Það vantar eiginlega bara að skeyta aftan við þetta ,,að viðlagðri aðför að lögum`` eða ,,að viðlögðum dagsektum``, í anda hæstv. menntmrh. Þetta er auðvitað umhugsunarefni. Hvað skeður ef félagsmálanefndirnar brjóta þessa grein laganna? Hver á að skera úr um það? Það er þó skárra sem segir í 18. gr.: ,,Félagsmálanefndir skulu leitast við að hafa á að skipa menntuðu starfsfólki`` o.s.frv.
    En þetta er auðvitað fáránlegt orðalag að bjóða Alþingi upp á að samþykkja þetta svo, eins og hér er

lagt til. Ég held að það yrði að reyna að ganga út frá því í lögunum að félagsmálastofnanir og félagsmálanefndir reyndu eftir atvikum á hverjum tíma og hverjum stað að ráða það hæfasta starfsfólk sem á væri að skipa og sem völ væri á.
    Það er margt í þessu frv. sem vekur athygli og auðvitað er hægt að halda áfram að tína upp einhver svona atriði eins og ég hef nefnt sem ekki skipta meginmáli efnislega. T.d. segir í 2. gr., ef maður tekur hana aðeins í sundur, 1. mgr.:
    ,,Með félagsþjónustu er í lögum þessum átt við þjónustu í tengslum við félagslega heimaþjónustu.`` --- Þetta er auðvitað mjög nákvæmlega og vísindalega skilgreint. En það er nú kannski ástæðulaust að vera að tína upp fleiri atriði í átt við þetta og eðlilegt að nefndin sem þetta mál fær til umfjöllunar fari ofan í slík atriði. Ég vil hins vegar leyfa mér að hafa efasemdir um að það sé yfirleitt skynsamlegt að ætla að setja svona húfu yfir þá löggjöf sem fyrir er um hina ýmsu málaflokka í þessum efnum sem ég til að mynda nefndi hér áðan. Það er að vísu ekki þar með sagt að það sé mikill skaði skeður þó að svo væri gert. Ég skal ekkert halda því fram. Að auki er mikið um sjálfsögð stefnumið í þessu frv. sem flestir eru eflaust sammála um þó svo að það sé líka álitamál hversu mikið af stefnuákvæðum eigi að setja í lög. Það hefur allt of mikið verið gert af því á liðnum árum, ,,stefna skal að`` o.s.frv. En út af fyrir sig má halda því fram að slík ákvæði séu ekki neinum til ama eða vandræða.
    Hins vegar finnst mér mjög mikill keimur af því í þessu frv. að það eigi að hafa eftirlit með högum fólks umfram það sem það sjálft kærir sig um. Mig rekur minni til að hafa lesið það í blaðaviðtali við einn af höfundum þessa frv. að með því væri opnaður möguleiki á að hafa eftirlit eða yfirsýn yfir félagslega hagi fólks frá vöggu til grafar. Ég sé nú ekki að það sé endilega rétt. Í 11. gr. frv., um hlutverk félagsmálanefnda, segir að eitt af hennar hlutverkum sé að hafa yfirsýn yfir félagslega hagi fólks í sveitarfélaginu. Mér finnst þetta orðalag reyndar fullstjórnlynt, ef ég má orða það svo, bjóða upp á fullmikil afskipti af högum manna umfram það sem þeir sjálfir kjósa. En ég þykist vita að það sé ekki ætlun manna með þessu frv. heldur sé ætlunin sú að tryggja það að þeir sem standa höllum fæti í lífsbaráttunni eða þurfa á aðstoð að halda fái hana. Og ég er auðvitað sammála því ,,að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti``, eins og segir í 1. mgr. 1. gr., í markmiðsgrein frv.
    Það er ýmislegt af þessu tagi sem mér finnst óþarflega áberandi í þessu frv. auk þess sem orðið ,,félagslegt`` ríður hér húsum með þeim hætti að með ólíkindum er. Heimaþjónusta verður t.d. umfram allt að vera félagsleg. Í 26. gr. segir: ,,Sveitarfélag skal sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búa í heimahúsum`` o.s.frv. En það má auðvitað ekki sjá um bara heimaþjónustu, það verður að vera félagsleg heimaþjónusta. Og í 27. gr.: ,,Með félagslegri heimaþjónustu skal stefnt að . . . `` o.s.frv. Og í 28. gr.: ,,Með félagslegri heimaþjónustu er átt við hvers konar aðstoð við heimilishald, persónulega umhirðu, félagslegan stuðning`` o.s.frv. Þetta er nú kannski nokkuð mikið af því góða, því þó að þetta orð eigi auðvitað rétt á sér í þessu frv. þá er nú ástæðulaust að það yfirkeyri allt annað.
    Ég sé ekki betur en að kaflarnir t.d. um þjónustu við fatlaða og aldraða séu meira og minna óþarfir í ljósi þess að um þessi mál gilda sérstök lög. Þó mætti kanna það betur í nefndinni. En ég er ekki í nokkrum einasta vafa um að kaflinn um málefni leikskóla er óþarfur í þessu frv. Reyndar eru það dálítið undarleg þingsköp, virðulegi forseti, að hér skuli vera á dagskrá tvö mál um þetta málefni, því síðar á fundinum er á dagskrá annað frv., stjfrv. frá menntmrh. um leikskóla. En X. kafli í þessu frv. heitir ,,Málefni leikskóla``, eins og kunnugt er.
    Nú kom það fram í ræðu hæstv. félmrh. að menntmrh. styddi heils hugar það samkomulag sem gert hefði verið í ríkisstjórninni um að leggja fram tvö frv. og vænti ég þess að hann tjái sig sjálfur um það málefni hér í þessari umræðu, enda ástæðulaust fyrir einn ráðherra að tala fyrir annan þegar þeir eru báðir viðstaddir.
    En ég held því fram að þessi kafli um málefni leikskóla sé óþarfur í frv. og eigi að fara héðan út. Vitanlega er það svo að þessi tvö frv. skarast. Það segir í II. kafla þessa frv., í 3. gr.:
    ,,Málefni leikskóla heyra undir menntmrn. að því er varðar faglega yfirstjórn og uppeldisáætlanir.``
    En í 3. gr. frv. menntmrh. er líka tekið fram að fagleg yfirstjórn málaflokksins samkvæmt lögum þessum sé á hendi menntmrn. Auðvitað er þetta skörun. Það er verið að segja sama hlutinn á tveimur stöðum. Hvaða nauðsyn rekur til þess? Það er hins vegar undanskilið þegar talað er um faglega yfirstjórn og uppeldisáætlanir að annað það er varða kann leikskólann heyri þá undir félmrn. væntanlega.
    Síðan segir í 39. gr. frv. félmrh. að samþykki menntmrn. þurfi til að stofna leikskóla fyrir börn. Það er nú alveg furðulegt að setja það í lög á vegum félmrn. að það þurfi samþykki annars ráðuneytis til tiltekinnar starfsemi, en þetta skarast líka við 3. gr. frv. menntmrh. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Til þess að setja á stofn leikskóla þarf starfsleyfi frá menntmrn.`` Þarna er líka skörun, þetta er nákvæmlega eins og náttúrlega algjörlega ástæðulaust að setja þetta orðalag í lög á tveimur stöðum nánast á sama deginum eins og verið er að biðja þingið hér um með því að þessi tvö frv. eru fram komin samtímis og á dagskrá hér á sama fundinum.
    Það segir líka í 37. gr. frv. félmrh. að það eigi að láta fara fram mat á þörfinni fyrir leikskóla á ákveðnu tímabili, eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Sambærilegt ákvæði er líka í 3. gr. frv. menntmrh., um að sveitarfélag geri árlega könnun á því hversu margir foreldrar óski eftir leikskólavistun. Auðvitað er þetta skörun. Auðvitað er þetta enn á ný dæmi um það þegar verið er að reyna að setja í tvenn lög sama ákvæðið af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.
    Aðalatriðið í sambandi við þetta mál er auðvitað

það hvernig menn skilgreina leikskóla. Á hann að vera forskóli til undirbúnings almennu skyldunámi eða á hann að vera félagslegt úrræði fyrir foreldra til að geyma börnin sín? Á að líta á þennan skóla, leikskólann, sem vettvang til þess að undirbúa börnin undir hið almenna skyldunám
eða á að skilgreina alla foreldra leikskólabarna sem skjólstæðinga félagsmálastofnunar? Um það snýst þetta mál að mínum dómi. Hvort það eigi að skilgreina foreldra barnanna sem skjólstæðinga félagsmálastofnunar, fella þau undir hinar nýju félagsmálanefndir. Svo segir reyndar líka í 38. gr. þess frv. sem hér er til umræðu að félagsmálanefnd, skólanefnd grunnskóla eða sérstök leikskólanefnd skuli fara með stjórn leikskóla og ákvörðun um stjórn leikskóla tekur sveitarstjórn. Þessi grein er algjörlega óþörf og út í bláinn. Auðvitað ákveður hver sveitarstjórn það fyrir sig í samræmi við sveitarstjórnarlög hvernig hún skipar þessu. Hvar hún vistar innan síns stjórnkerfis stjórnun leikskólanna. Hér er bara verið að setja inn kafla, fjórar greinar, og hver einasta þeirra er óþörf, skarast annaðhvort við frv. menntmrh. eða fjallar um verkaskiptingu og innri vinnubrögð í sveitarstjórnum sem þær fara að sjálfsögðu eftir sveitarstjórnarlögum um. Ég sé því ekki hvaða nauður rekur til þess að vera að flytja þennan kafla hér í þessu frv., ekki síst þegar vitað er, eins og fram kom í máli ráðherra, að fóstrur eru þessu algjörlega andvígar og eflaust margir aðrir hópar. Til að mynda býst ég við að ýmsir sveitarstjórnarmenn séu ekkert hrifnir af þessu.
    Í 40. gr. frv. segir að markmið leikskóla skuli vera að stuðla að og örva alhliða þroska barna o.s.frv. en í frv. menntmrh. er sérstakur kafli um markmiðin með leikskólanum. Þessi grein er sem sagt líka óþörf. Þær eru allar óþarfar, hver ein og einasta. Hver á að setja þau lög eða á vegum hvaða ráðuneytis eiga þau lög að vera sem kveðið er á um í 40. gr. þar sem segir að leikskólar skuli reknir samkvæmt sérstökum lögum? Er það þá það frv. sem hér liggur frammi um leikskóla sem menntmrh. hefur flutt eða er það eitthvað annað?
    Mér finnst það með hreinustu endemum hvernig þetta mál ber hér að og hvernig þinginu er ætlað að fjalla um þetta. Félmn. Nd. mun fá þetta frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga til meðferðar, þar á meðal þennan kafla um málefni leikskóla. En menntmn. deildarinnar mun fá frv. menntmrh. að sjálfsögðu til umfjöllunar og taka afstöðu til þess þar. Það er auðvitað óviðunandi að leggja þetta fram með þessum hætti. Ég vænti þess að hæstv. menntmrh. skýri sína afstöðu til þessa máls því ég held að það veiti ekkert af því að það komi beint frá honum hverjar hans hugmyndir eru um þetta efni.
    Að því er varðar aðra þætti þessa frv. þá skal ég ekki eyða löngum tíma í þau atriði sem eftir eru og ég hef ekki nefnt. Ég sakna að vísu þess atriðis sem félmrh. nefndi að því er varðar framfærsluskyldu, að brott skuli numið hið gamla ákvæði úr framfærslulögum að börn skuli bera ábyrgð á foreldrum sínum eftir að þau eru komin á vissan aldur en ég ætla ekki að

halda hér uppi miklum ágreiningi um það á þessu stigi. Í 19. gr. frv. segir að skylt sé hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Það mætti hugsanlega koma til móts við það sjónarmið sem ég er að nefna með því að breyta þessu á þann veg að skylt væri hverjum manni að framfæra sjálfan sig og fjölskyldu sína. En um það má auðvitað ræða í nefndinni. Ég tel að það sé samhjálp af besta tagi þegar börn endurgjalda foreldrum sínum umönnunina á unga aldri með því að hugsa um þau í ellinni þegar þau geta ekki sjálf séð fyrir sér eða bjargað sér. Þó að sjálfsögðu sé ekki þar með sagt að önnur úrræði eigi ekki að vera fyrir hendi.
    Ég nefndi hér áðan að kaflinn um húsnæðismál væri þess eðlis að um þau mál væru náttúrlega önnur lög í gildi í landinu, sem félmrh. hefur nú mjög verið að beita sér fyrir breytingum á undanfarin missiri, m.a. að því er varðar leiguhúsnæði og félagslegt húsnæði af ýmsu tagi. Ég er því ekki viss um að sá kafli sem er í þessu frv., XIII. kafli, bæti neinu sérstöku efnislegu við það. Þó er rétt að benda á að í 51. gr., þar sem segir að sveitarstjórn sé heimilt að fela félagsmálanefnd umsjón með leiguíbúðum í eigu sveitarfélagsins og útleigu þeirra í stað þess að húsnæðisnefnd fjalli um það, þá er þetta ákvæði þegar í gildandi lögum ef ég man rétt. Og ef ég man rétt frá síðasta vori þá kom ákvæði sambærilegt þessu inn í frv. gegn vilja ráðherra þegar á það var bent til að mynda af hálfu Reykjavíkurborgar að óeðlilegt væri að flytja hinar félagslegu leiguíbúðir Reykjavíkurborgar, sem heyra undir félagsmálastofnun, undan henni og til húsnæðisnefndarinnar. Ég sé ekki betur en þetta skarist algjörlega við gildandi lög.
    Hins vegar er hér eitt nýmæli í 1. mgr. 49. gr. þar sem segir: ,,Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, hafa framboð af leiguhúsnæði.`` Nýmælið felst í þessu orðalagi ,,að hafa framboð``. Mér er ekki kunnugt um að það hafi áður tíðkast í lögum að skylda sveitarstjórnir eða aðra til að hafa framboð, hvorki af leiguhúsnæði né öðru. Hafa á boðstólum, bjóða fram, eitthvað því um líkt er hins vegar algengt.
    Nú er það svo, virðulegi forseti, að ég bíð spenntur eftir að heyra hvað hæstv. menntmrh. hefur um þetta frv. að segja almennt að öðru leyti en því sem hann skýtur hér inn til fróðleiks og skemmtunar og ætla þess vegna að láta máli mínu lokið á þessu stigi. En ég tel sýnt að þetta mál þurfi að fá mjög vandaða meðferð í félmn. og ég tel jafnframt sýnt að um X. kafla frv. eins og hann er nú verður enginn friður, hvorki í félmn. né í þessari hv. þingdeild að óbreyttu. Það hygg ég að komi nú ekki ráðherranum á óvart en það skal þó ítrekað hér við 1. umr.