Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Pálmi Jónsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Sú umræða utan dagskrár um málefni Þormóðs ramma sem hófst hér í gær var einstæð og það á margan hátt. Í fyrsta sinn svo vitað sé hefur skýrsla til Alþingis verið tekin fyrir utan dagskrár en ekki sem dagskrármál. Í fyrsta sinn svo vitað sé hefur ráðherra úr ríkisstjórn hafið umræðu utan dagskrár um slíka skýrslu. Og í fyrsta sinn svo vitað sé hefur ráðherra í ríkisstjórn Íslands talað í nærfellt tvo klukkutíma, í sjö stundarfjórðunga, til þess að ófrægja eina af stofnunum ríkiskerfisins. Öll ræða hæstv. fjmrh. í gær miðaði að því einu marki að rakka niður þá af stofnunum ríkiskerfisins sem einnar mestrar virðingar nýtur, stofnun sem heyrir undir Alþingi og Alþingi ber ábyrgð á. Þetta framferði er fordæmanlegt og vinnulagið við að hefja þessa umræðu er einnig fordæmanlegt, eins og ég sagði í upphafi máls míns í gær. Það er fordæmanlegt að ráðherra, hæstv. fjmrh. í þessu tilliti, skuli hefja umræðu utan dagskrár um þetta mál og tala nærfellt allan eðlilegan fundartíma Alþingis. Síðan var ætlast til þess að aðrir, að frátöldum hv. 1. þm. Norðurl. v., skyldu tala á kvöldfundi eftir að búið væri að ræða þá tillögu sem var til meðferðar í gærkvöldi um Litáen. Þá hefði umræðunni verið haldið áfram kl. 11 eða skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi. Ætlun hæstv. ráðherra með þessu vinnulagi var vitaskuld sú að vera sjálfur hér að breiða úr sér í rógsherferð sinni á hendur Ríkisendurskoðun, en ætla síðan öðrum sem til varnar mundu taka og mundu sækja að þessum hæstv. ráðherra, sem er í sporum, eins og hv. þm. Páll Pétursson sagði, ekki sóknaraðila heldur varnaraðila og sá sem er að reyna að bera hönd fyrir höfuð sér. Aðrir skyldu þá tala þegar flestir væru gengnir til náða, þar á meðal fulltrúar fjölmiðlanna. Þetta vinnulag allt er fordæmanlegt. Og ég get ekki annað, þó ég vekti á þessu rækilega athygli í gær, en hafið þennan hluta ræðu minnar með sambærilegum hætti.
    Ég hlýt að ætlast til þess að Alþingi sem heild taki til varnar þegar þannig er sótt að einni af undirstofnunum þess. Það er vitaskuld hlutverk hæstv. forseta Alþingis. En það er einnig hægt að hugsa sér að það sé gert af öðrum hv. þm., til að mynda af hálfu formanna þingflokka hér á Alþingi, ef hæstv. forsetar sjá ekki sóma sinn í því að taka á málinu með þeim hætti.
    Ég lýsti því í inngangi ræðu minnar í gær á hvern hátt í stórum dráttum hefði verið staðið að þeirri sölu sem fram fór á hlutabréfum Þormóðs ramma. Ég lýsti því að þar hefðu verið sniðgengin viðskiptaleg og siðferðileg sjónarmið sem skylt er að hafa í heiðri við sölu á ríkiseign. Ég lýsti einnig því að hæstv. ráðherra fjármála hefði valið þá leið við sölumeðferð á þessari eign ríkisins sem sýnilegt var að mundi stefna til ófriðar í Siglufirði og til pólitísks ágreinings við hæstv. ráðherra hér á hinu háa Alþingi í stað þess að freista þess að ná saman þeim aðilum sem höfðu sýnt áhuga heima á Siglufirði við að kaupa þessa eign. Hann valdi sjálfur þessa leið.

    Hæstv. ráðherra valdi einnig þá leið að sniðganga viðskiptalegar og siðferðilegar leikreglur. Hæstv. ráðherra breiddi úr sér í ræðu sinni í gær með því að telja sig vera einhvern sérstakan merkisbera frjálslyndis í viðskiptalegu tilliti. Hann væri markaðshyggjumaður og hann stæði vörð um leikreglur markaðarins og leikreglur frjálshyggjunnar. Það væru einhverjir aðrir sem væru að halda í afgamlar og steindauðar leikreglur kommúnismans. Ekki veit ég hvort hann var að senda þetta til hv. þm. Páls Péturssonar eða til verkalýðsfélagsins á Siglufirði sem sendi mótmæli gegn þessari ráðstöfun á Þormóði ramma. Hafi hann verið að kasta þessu til mín . . . ( Fjmrh.: Já, akkúrat.) Já, akkúrat, segir hæstv. ráðherra, ( Fjmrh.: Aðallega til þín.) aðallega kannski, þá er það gersamlega út í hött eins og annað í hans málflutningi sem mest má vera. Ég lýsti því í máli mínu í gær að ég hefði aldrei mælt gegn því að þessi hlutabréf yrðu seld, enda væru þá eðlilegar leikreglur virtar og eðlilegir skilmálar settir fram. Hæstv. ráðherra var í lófa lagið, ef hann vildi viðhalda þeim leikreglum, ef hann vildi hafa eðlileg vinnubrögð, að auglýsa þessi bréf með þeim kvöðum og með þeim skilmálum sem þurftu að vera. Það var honum í lófa lagið. Það var í raun og veru eina aðferðin sem dugði endanlega til þess að kanna hvert væri markaðsverð þessara eigna.
    Hæstv. ráðherra, sem hér talaði í sjö stundarfjórðunga í gær um verðgildi þessara eigna þar sem hann var að bera brigður á útreikninga Ríkisendurskoðunar, fór ekki þessa einföldu leið. Hann valdi hina leiðina. Hann valdi þá leið að pukrast með þetta og semja um það við nokkra vildarmenn sína með aðstoð nokkurra vildarmanna sinna í Stjórnarráðinu sem sumir hverjir eru þar ekki fastir starfsmenn en aðrir sumir hverjir eru þar væntanlega úr hópi þeirra sem hæstv. ráðherra hefur ráðið þar án allra heimilda. Því þar er hann með starfsmenn á sínum snærum, nokkra sína vildarmenn, sem er lögleysa að ráða til starfa, svo sem ég hef skýrt í öðrum ræðum og þarf ekki að fara að endurtaka hér, og brotin eru hvort tveggja lög um Stjórnarráð Íslands og reglugerð við lögin um Stjórnarráð Íslands. Það var sem sagt hæstv. ráðherra sem valdi þessar leiðir allar og það er þetta á fyrri stigum þessa máls sem er aðalgagnrýnisefnið. Út yfir tekur þó þegar hæstv. ráðherra ræðst að Ríkisendurskoðun sem ég mun koma að síðar í ræðu minni.
    Ég hafði hugsað mér að draga fram nokkur atriði um það hvernig hagað hefur verið sölu á ríkiseign þar sem farið er að með eðlilegum, viðskiptalegum hætti og siðgæði í leikreglum er beitt og þær virtar. Þetta á til að mynda við, svo dæmi sé tekið, um sölu á svokölluðum raðsmíðaskipum sem boðin voru út og tilboð bárust í frá 10 -- 20 aðilum. Þau tilboð voru síðan könnuð eins og eðlilegt er og tekið þeim tilboðum sem traustlegust þóttu og fullnægðu því að bjóða best verð. Sama má segja um sölu til að mynda á skipinu Mánabergi til Ólafsfjarðar þar sem komu ein tíu tilboð. Á allan hátt var fyllilega að farið í samræmi við eðlilegar leikreglur. Sömu sögu má segja um til að mynda skipið Hafþór sem selt var fyrir ekkert

mjög löngu. Hæstv. ráðherra getur því sótt sér fyrirmyndir að því hvernig eigi að fara að því að selja eignir ríkisins, ef hann hefði kosið, þannig að ekki væri gagnrýnisefni.
    Hæstv. ráðherra nefndi hér hvernig staðið hefði verið að sölu á Sigló á sínum tíma. Þar var staðið að með eðlilegum hætti. Samþykkt voru lög um það mál þannig að það var lagaheimild frá Alþingi. Verð á þeirri eign ríkisins var fundið út með þeim hætti að nefnd valinkunnra manna starfaði, ekki einhverra skósveina sem hæstv. ráðherra hafði á sinni hendi, heldur var það nefnd manna sem í áttu sæti Halldór Kristjánsson deildarstjóri, sem var formaður nefndarinnar, þar var Gunnlaugur Claessen ríkislögmaður og þar var Guðmundur Malmquist, sem nú er forstjóri Byggðastofnunar eins og allir vita. Ef hæstv. ráðherra hefði sett á laggir nefnd manna sem áttu að baki sér fótfestu víðs vegar í ríkiskerfinu og hefðu reynslu og þekkingu á borð við þá menn sem ég hef hér talið upp, þá hefði það verið með allt öðrum hætti. Þá hefði þetta vinnulag verið með öðrum hætti.
    Með þessari nefnd starfaði einnig maður frá Ríkisendurskoðun, Sveinn Arason, þannig að það voru engar sprungur á milli fjmrn., sem stóð að þeirri sölu, og Ríkisendurskoðunar á þeirri tíð þótt
ekki væru yfirmenn Ríkisendurskoðunar viðriðnir það verk. Þannig eru auðvitað næg fordæmi sem hægt hefði verið að fara eftir við vinnulag í þessum efnum en hæstv. ráðherra kaus að nýta sér þau ekki.
    Niðurstaða úr þessu máli, aðalgagnrýnisefnið við þessa sölu er sem sé þetta: Almennir viðskiptahættir voru að engu hafðir. Komið var í veg fyrir að jafnræðissjónarmiða hugsanlegra kaupenda væri gætt og þess var ekki gætt að verðmæti eignanna væri metið á jafnræðisgrundvelli. Þá er einnig að viðskiptasiðgæði var sniðgengið með þessum hætti. Það er því upplýst að hér er í raun um að ræða siðleysi í meðferð opinberra eigna.
    Til viðbótar má endurtaka það sem fram kom í gær að boð 175 Siglfirðinga var að engu haft og þess í stað valið að afhenda á tilteknu verði tveimur aðilum meirihlutaeign í þessu fyrirtæki. Ég vil gjarnan taka það fram að við þá sameiningu eignar sem þarna hefur orðið eru litlar líkur til þess að verið sé að greiða fyrir einhverri leið til þess að Siglfirðingar heima fyrir bjóði í það hlutafé sem hæstv. ráðherra hefur hugsað sér að bjóða út á næstunni vegna þess að eftir að þessi fyrirtæki eru komin saman í eitt er þetta ekki lengur jafneftirsóknarverð eign og áður. Það er því meira en hæpið að sú fullyrðing hæstv. ráðherra standist að með þessum ráðstöfunum hafi hann verið að styrkja atvinnulíf í Siglufirði. Með sameiningu þessara þriggja fyrirtækja, Þormóðs ramma og tveggja smáfyrirtækja, er verið að koma að heita má öllu atvinnulífi Siglufjarðar á fárra hendur. Og það er nú svo að þrátt fyrir að annað sé látið í veðri vaka þá hygg ég að enginn vafi sé á því að litlu fyrirtækin, Drafnar og Egilssíld, eigi eftir að veikja stöðu Þormóðs ramma en ekki hið gagnstæða.
    Ég vil gjarnan taka það fram að ef eðlilegar viðskiptavenjur hefðu verið í heiðri hafðar, hvort sem það væri, sem best er, að það væri gert með útboði sem fylgdu tilteknir skilmálar eða tilteknar kvaðir ellegar þá að það hefði verið farið að með því að nefnd manna víðs vegar að úr ríkiskerfinu hefði staðið að mati á þessum verðmætum, þá hefði ekkert sérstakt verið við verðið að athuga, hvert sem það í raun og veru var. Ef eignin hefði verið boðin út og markaðurinn látinn ráða er ekkert við því að segja hvert verðið er. Þá kæmi markaðsverð en ekki eitthvað annað. Ég ætla ekkert að fullyrða um það hvert það verð hefði orðið. En við það að hneykslanlega er staðið að sölu, þá verður verðið einnig gagnrýnisvert. Þess vegna er það mál einnig tekið upp að gagnrýna það verðmætamat sem á þessum eignum er gert. Það var undir þessum kringumstæðum sem okkur fjórum þingmönnum kjördæmisins þótti nauðsynlegt að biðja forseta þingsins að óska eftir skýrslu um málið frá Ríkisendurskoðun. Það var undir þessum kringumstæðum þar sem við sáum að ekki var farið að leikreglum við söluna og að mat á þessum eignum var í hæsta máta vafasamt, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið. Og grunsemdir okkar voru allar staðfestar í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
    Nú voru viðbrögð hæstv. fjmrh. við skýrslu Ríkisendurskoðunar á þá lund að skrifa forsetum Alþingis bréf þar sem með ósvífnum hætti var ráðist að Ríkisendurskoðun og skýrslu sem hún hafði látið frá sér fara. Þetta var auðvitað afar óvenjulegt og í hæsta máta ósvífið. Ég verð því að fara örfáum orðum um það að það eru ýmsir fleiri en Ríkisendurskoðun sem hafa tjáð sig um þetta mál og það verðmætamat sem í skýrslu Ríkisendurskoðunar er lagt til grundvallar sem og það verðmætamat sem lagt var til grundvallar sölu hæstv. ráðherra á þessum eignum.
    Í ræðu sinni í gær vitnaði hæstv. ráðherra, sem hefur nú tekið upp þann sið sem hann tíðkar mjög hér á fundum þegar hann vill helst loka eyrunum fyrir því sem ræðumenn í ræðustóli á Alþingi segja, að lesa sér til í erlendum tímaritum. ( Fjmrh.: Ég heyri allt sem ræðumaður segir.) En í ræðu sinni í gær gerði hæstv. fjmrh. mikið úr því að virt verðbréfafyrirtæki úti í bæ, eins og hann kallaði það --- og það kom síðan upp að þar bar hann fyrir sig Sigurð B. Stefánsson endurskoðanda, og taldi að hann hefði látið frá sér fara einhver gögn ( Fjmrh.: Það sagði ég aldrei. Ég sagði að hann hefði framkvæmt mat, þingmaðurinn skal fara rétt með.) jæja, framkvæmt mat sem styddi það ( Fjmrh.: Og hann var reiðubúinn til viðræðna við Ríkisendurskoðun.) já, ég skrifaði það eftir hæstv. ráðherra, að hann hefði framkvæmt mat sem færi í bága við mat Ríkisendurskoðunar og að hann væri reiðubúinn til viðræðna við Ríkisendurskoðun um málið. Nú vill svo til að ég hef hér undir höndum yfirlýsingar Sigurðar B. Stefánssonar sem birtast í Morgunblaðinu. ( Fjmrh.: Það er annar maður, þú skalt ekki vera að rugla þessu saman. Þingmaðurinn ætti að kynna sér betur hlutina, hann skal passa sig á þessu.) Ég hef ( Fjmrh.: Það var elskulegt af Geir Haarde að stoppa þingmanninn.) Ja, hér er það Sigurður Stefánsson endurskoðandi sem á hlut að máli ( Fjmrh.: Það er allt annar maður.) og ég hef þá aðeins feiltekið mig á því og það verður þá að hafa það. ( Fjmrh.: Það er nú ekki það eina sem þingmaðurinn feiltekur sig á.) Ja, það er nú fleira sem hæstv. ráðherra feiltekur sig á. En Sigurður Stefánsson endurskoðandi segir . . . ( Gripið fram í: Hann er með virtari endurskoðendum landsins.) Hann er mjög virtur endurskoðandi. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Mér finnst mat Ríkisendurskoðunar hógvært og heldur í lægri kantinum. Ef litið er á eignamatið má deila um virði kvótans en það hefur rokkað á bilinu 120 -- 140 kr. kg,`` sagði Sigurður. Síðan segir Sigurður: ,,Endurskoðendur sem veittu ráðherra ráðgjöf hljóta að hafa verið í vanda vegna þess að þarna eru menn að kaupa sig inn í auðlindina. Hvað er hægt að gefa fyrir hana? Söluverðið hlýtur að byggjast á framtíðinni. Það má ekki aðeins horfa á fortíðina við svona mat. 6 þús. tonna kvóti, sem fylgir skipunum ásamt frystihúsi, er mjög þægileg eining sem hefði mátt selja fyrir gott verð. Vandinn er sá víða úti á landi að hús af sambærilegri stærð og Þormóður rammi eru kannski með 1 -- 2 þús. tonna kvóta og þau lenda í vanda,`` sagði hann. Enn segir Sigurður að eftir að ríkissjóður færði skuldir fyrirtækisins niður um tæpar 400 millj. kr. á síðasta ári væri skuldabyrði þess ekki mjög erfið.
    Í þessu er það staðfest að Sigurður Stefánsson endurskoðandi telur að mat Ríkisendurskoðunar sé í lægri kantinum og hógvært. Og það eru ýmsir fleiri sem taka með svipuðum hætti til orða. Það er til að mynda Guðmundur Malmquist, forstjóri Byggðastofnunar, sem segir, með leyfi forseta: ,,Það má skoða þetta mál frá ólíkum sjónarmiðum en mér finnst samt Ríkisendurskoðun taka hógværlega á þessu og meta fyrirtækið nokkuð rétt,`` sagði Guðmundur.
    Í sama flokki viðtala í Morgunblaðinu er viðtal við Eirík Tómasson, útgerðarmann í Grindavík, þar sem hann segir að ekki séu miklar athugasemdir við sölu á fyrirtækinu af hálfu fjmrh. Hann kemur svo daginn eftir með athugasemd og segir: ,,Þormóður rammi seldur langt undir sannvirði.`` Hann segir m.a. að það sem eftir honum var haft í Morgunblaðinu daginn áður varðandi söluverð Þormóðs ramma hafi verið byggt á ófullnægjandi upplýsingum sem blaðamaður hafi veitt honum um skuldastöðu fyrirtækisins. Var honum tjáð að heildarskuldir hefðu verið nálægt 800 millj. kr. en að frádregnum veltufjármunum nema þær raunverulega 554 millj. kr. eins og fram kom í fréttaskýringum blaðsins á laugardaginn.
    Hvers vegna er nú þessi misskilningur? Það er auðvitað vegna þess að í árásum sínum á Ríkisendurskoðun hefur hæstv. fjmrh. haldið því fram að skuldir Þormóðs ramma hefðu verið 800 millj. kr. og í gær í ræðu sinni sagði hann að þær væru 800 -- 900 millj. kr. Ef veltufjármunir eru hins vegar dregnir frá eru þessar heildarskuldir 500 -- 600 millj. kr. eða eftir þeim gögnum sem ég hef um 554 millj. kr. Villandi og rangar upplýsingar og yfirlýsingar hæstv. ráðherra í fjölmiðlum um þetta mál hafa auðvitað leitt til þess að

fjöldi manna hefur fengið aðra skoðun á málinu en rétt er. Menn fá villandi upplýsingar og standa í þeirri trú að allra handa villur séu réttar. Rangfærslur hæstv. ráðherra miða allar að þessu sama marki og hann gekk mjög ötullega fram í því að halda áfram á þeirri braut í ræðu sinni í gær.
    Í DV fimmtudaginn 7. febr. er grein eftir Hilmar Viktorsson viðskiptafræðing, sem m.a. starfar við skipasölu, þar sem hann segir: ,,Ríkisfyrirtæki undir hálfvirði.`` Kemur það vitaskuld heim og saman við mat Ríkisendurskoðunar í þessu máli. Hilmar Viktorsson nefnir í grein sinni sölu á fyrirtæki og sölu á skipum til þess að styðja sitt mál. Hann segir t.d. að á árinu 1990 hafi yfirfæranlegur aflakvóti verið seldur á bilinu 140 -- 150 þús. kr. tonnið staðgreitt. Í mati Ríkisendurskoðunar á verðmæti aflakvóta Þormóðs ramma er gert ráð fyrir að fáist 125 þús. kr. fyrir tonnið. Ég hef hins vegar sannspurt að nú í kringum áramótin hafi gangverð á þorskkvóta verið um 150 kr. á kg., þ.e. 150 þús. kr. tonnið, og að selt hafi verið upp í 158 þús. kr. tonnið sem hægt væri að fá staðgreitt á þremur dögum. Nú segir hæstv. ráðherra að þetta sé nú lítið að marka vegna þess að það er sú kvöð á þessari sölu að ekki megi selja kvótann úr bænum. En þetta sýnir eigi að síður að þarna er verið að selja mikla eign og það er verið að selja mikla hlutdeild í þeim afla sem enn er óveiddur í sjónum. Hilmar Viktorsson segir, með leyfi forseta: ,,Harpa GK - 111 var seld á nálægt 250 millj. kr. með tæplega 1100 tonn þorskígildi. Guðfinna Steinsdóttir ÁR var seld á 170 millj. en kvóti Guðfinnu var 683 tonn þorskígildi 1990.`` Þá segir Hilmar Viktorsson: ,,Gjaldþrotabú Rafns hf. í Sandgerði seldist á 370 millj. kr., þ.e. bátarnir Víðir II GK, Barðinn GK, frystihús og eignir í landi. Kvóti var 874 tonn þorskígildi, 41 tonn rækja og síldarkvóti.`` Þarna er á nauðungaruppboði selt gjaldþrota fyrirtæki, með aðeins 874 tonna þorskkvóta og 41 tonn í rækju og skelkvóta, á 370 millj. kr. á meðan Þormóður rammi, með 6050 tonna þorskkvóta og 100 tonna rækjukvóta ásamt þremur togurum, fullbúnu frystihúsi og öðrum eignum sem eru verulegar, er seldur á 150 millj. kr.
    Ég held að varla blandist nokkrum manni hugur um það að þetta bendir til þess, mjög ótvírætt, að verð á þessum eignum hafi verið lágt. Ég endurtek að ef vinnulag við sölu hefði verið með eðlilegum hætti væri ekkert við því að segja og ef tekist hefði um þetta mál friður heima í Siglufirði, náðst hefði saman um þetta mál, þá var ekkert við því að segja og þá engin ástæða til að áfellast ráðherra fyrir að hafa ekki spennt verðið upp. En þegar að sölu er staðið með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, bæði hér áðan og eins í ræðu minni í gær, þá er þetta ekki einungis tortryggilegt heldur í hæsta máta vafasamt og fordæmanlegt.
    Ég hef hér undir höndum gögn varðandi sölu á einum togara, sem er Hjörleifur RE og keyptur var til Seyðisfjarðar. Þessi togari er með 450 tonna þorskkvóta. Hann var eigi að síður keyptur á 125 millj. kr. Það munar litlu

að verð á þessum eina togara með 450 tonna þorskkvóta sé hið sama og mat á öllum eignum Þormóðs ramma. Þeir segja það líka á Seyðisfirði að þeir muni þurfa að fá 1000 -- 1100 tonna viðbótarkvóta til þess að hægt sé að reka skipið. Ekki veit ég hvort hæstv. sjútvrh. útvegar þeim þennan kvóta en þrátt fyrir þessa stöðu, þrátt fyrir að það vanti 1000 -- 1100 tonna kvóta á skipið, þá selst hann samt á 125 millj. kr.
    Hæstv. ráðherra flutti hér langa ræðu í gær, nærfellt tveggja tíma ræðu þar sem farið var yfir ýmsar forsendur sem hægt væri að leggja til grundvallar við mat á slíkum eignum. Það var arðsemismat, það voru framlegðartölur o.s.frv., sem ég ætla ekki að fara hér út í í löngu máli. En allt slíkt tal er lítils virði þegar reynslan af sölu sambærilegra verðmæta á frjálsum markaði talar sínu máli sem kemur þvert ofan í allt það sem þessi hæstv. ráðherra hefur sagt.
    Hæstv. ráðherra sagði hér í gær að virði hlutabréfa í Þormóði ramma væri ein ákveðin tala í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þetta er vitaskuld ekki rétt frekar en flest annað sem þessi hæstv. ráðherra lét sér þá um munn fara. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er talan 250 -- 300 millj. kr. Það er ekki ein tala. Jafnvel ætti hæstv. fjmrh. að geta skilið það. Það er hlaup í þessari tölu. Og það er þess vegna ekki ein tala sem Ríkisendurskoðun hefur látið frá sér fara heldur er mat hennar á þessu róli og það mat er varfærið í mörgum greinum eins og hér hefur komið fram.
    Ráðherra sagði í gær það væri ekki sérstaklega vel grundað hjá Ríkisendurskoðun að nota hugtakið framlegð, þ.e. mismun rekstrartekna og gjalda fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Enda sé það ekki hagfræðilega rétt. Fremur eigi að nota svokallaða verga hlutdeild fjármagns eins og Þjóðhagsstofnun gerði. Og hann bætti því við og tók það fram hvað eftir annað að framlegðartölur Ríkisendurskoðunar væru miðaðar við eina dagsetningu, einn tímapunkt á árinu 1990. Þetta er heldur ekki rétt. Ríkisendurskoðun fór yfir framlegð fyrirtækisins á þremur árum, 1988, 1989 og 1990.
    Nú er það svo að framlegð sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 1988 var afbrigðileg vegna þess hvað hún var lág, vegna þess hve rekstrarskilyrði voru þá erfið í sjávarútvegi. Þess vegna var meira mið tekið af framlegðartölum ársins 1989 og ársins 1990. Og það er ekki framlegðartala sem byggist á einum tímapunkti, á einni dagsetningu eins og hæstv. ráðherra lét sér um munn fara hér í gær.
    Í sambandi við tal hæstv. ráðherra um mismun rekstrartekna og gjalda fyrir afskriftir og fjármagnsliði og verga hlutdeild fjármagns, eins og ég gat hér um áðan, þá getur hann þess hins vegar ekki að sá maður sem hann nefnir sem sérfræðing ráðuneytisins við sölu Þormóðs ramma, þ.e. Ólafur Nilsson, notar hugtakið framlegð í greinargerð sinni sem birt er með greinargerð Ríkisendurskoðunar og byggir m.a. mat sitt á verðmæti fyrirtækjanna á því. Ráðherra hæstv. sakar Ríkisendurskoðun um að rugla saman hugtökum en kann þó ekki sjálfur betri skil á þeim hugtökum sem hann notar en svo að hann ruglaði saman hugtökunum framlegð og vergri hlutdeild fjármagns í bréfi sínu til forseta Alþingis. En þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar var verg hlutdeild fjármagns, sem er hið sama og framlegð í þessu tilfelli, 9,5% af tekjum í blönduðum rekstri meðalfyrirtækis með sömu uppbyggingu og Þormóður rammi hf. á árinu 1989 ef ekki er reiknað með greiðslum úr Verðjöfnunarsjóði og í, en 11,8% að þeim meðtöldum.``
    Þessi misskilningur hæstv. ráðherra er honum síðan tilefni til þess að saka Ríkisendurskoðun í bréfi sínu til forsetanna um að birta rangar upplýsingar um meðalframlegð yfir 50 fyrirtækja með blandaðan rekstur í botnfiskveiðum og vinnslu á árinu 1989.
    Hæstv. fjmrh., sem hér var að saka mig um rugling á mannanöfnum, ruglar saman hugtökum og leggur út af þeim í sínum útreikningum hér í gær, leggur út af þeim í máli sínu sem stóð í sjö stundarfjórðunga og gerir það vitaskuld af ráðnum hug. Ég frýja honum ekki vits en hann gerir það af ráðnum hug til að fá niðurstöður sem honum eru þóknanlegar og eiga að kasta rýrð á þá stofnun sem heyrir undir Alþingi og er Ríkisendurskoðun, og okkur er öllum mikið í mun að haldi sinni virðingu óskertri sem hún að sjálfsögðu gerir hvað sem líður árásum þessa hæstv. ráðherra.
    Hæstv. ráðherra taldi auðsýnt í máli sínu hér í gær að 10% ávöxtunarkrafa sé allt of lág. Hann telur að því er virðist eðlilegt að ávöxtunarkrafan sé 15%, 20% eða jafnvel 25%. Þá má nú kannski spyrja: Í hvaða fyrirtækjum á Íslandi ætli menn fjárfesti ef ávöxtunarkrafan er 25%? --- Mér þykir vænt um að sjá hæstv. ráðherra í svona miklu návígi. Ég sé að hann hefur svo mikinn áhuga fyrir því sem ég er að flytja hér í ræðustólnum að hann er hættur að lesa hin erlendu tímarit. ( Fjmrh.: Ég sé að þessi texti er allt í einu vélritaður.) Það er nú svo, hæstv. ráðherra, að stundum vélritar maður, lætur vélrita kafla úr ræðum sínum og stundum ekki. --- Í hvaða fyrirtækjum á Íslandi skyldi það nú vera sem menn fjárfesta ef ávöxtunarkrafan er 25%? Hvaða ávöxtunarkrafa skyldi í raun og veru gerð í sjávarútvegi þegar menn greiða allt að 150 kr. fyrir hvert þorskígildi? Hvort ætli mat Ríkisendurskoðunar eða hæstv. ráðherra sé því nær lagi í íslensku atvinnulífi? Hvaða valkosti um fjárfestingar ættu kaupendur Þormóðs ramma sem greiddu út 7,5 millj. kr. af kaupverðinu en fengu eftirstöðvar, tæpar 80 millj. kr., lánaðar hjá ríkissjóði til allt að 12 ára með 4,3% vöxtum auk verðtryggingar? Áttu þessir menn einhverja peninga til að fjárfesta í skuldabréfum ef þeir hefðu ekki fjárfest í Þormóði ramma?
    Það má vel vera að maður sem á 87 millj. kr. fari til Sigurðar B. Stefánssonar verðbréfasala og kaupi af honum skuldabréf sem gefa 10 -- 12% ávöxtun. En maður sem ekki á 87 millj. kr.? Skyldi Sigurður B. Stefánsson vilja lána honum kaupverðið í 12 ár með 4,3% vöxtum? Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra reiknar með því. En skyldi þessi maður telja 10% ávöxtunarkröfu of lága ef hann ætti þess kost að fá

lán hjá ríkissjóði til að kaupa fyrirtæki með fyrrgreindum kjörum? Og hvernig dettur síðan hæstv. ráðherra þá í hug að halda því fram að menn væru að fórna einhverri ávöxtun með því að kaupa fyrirtæki miðað við 10% ávöxtunarkröfu?
    Hæstv. ráðherra tók eftir því að þessi klausa í ræðu minni er vélrituð. Það vill svo til að hæstv. ráðherra, sem flutti hér ræðu sína í gær, dreifði á borð okkar þingmanna meginhlutanum af ræðu sinni eða drjúgum kafla úr ræðu sinni sem var vélritaður. Ég hafði þess vegna aðstöðu til að lesa það yfir sem þar var sagt og búa mig undir að svara því að nokkru.
    Þá segir ráðherra einnig í þessum kafla ræðu sinnar að gengi hlutabréfa --- og hann gerði mikið úr því --- að gengi hlutabréfa í traustum sjávarútvegsfyrirtækjum, svo sem eins og Granda, Skagstrendingi hf. og Útgerðarfélagi Akureyringa hf., sýni að verðmæti þessara fyrirtækja sé mun lægra en mat Ríkisendurskoðunar á Þormóði ramma. Sala á hlutabréfum í Þormóði ramma er ekki sambærileg við sölu hlutabréfa á almennum hlutabréfamarkaði. Þar er verslað með mun minni hluta og þar eru því önnur sjónarmið sem ráða verði og ráða kaupum. Einnig er ástæða til að ætla að gengi hlutabréfa á markaðnum sé oft of lágt eins og lítið framboð á mörgum bréfum sýnir.
    Það er svo enn fremur um þetta að segja að það er að mínum dómi næsta hæpið að krefjast þess að ávöxtun eða arðsemi hlutabréfa í fyrirtæki sem eigendur eru nýbúnir að eignast og hafa væntanlega þurft að stofna til skuldbindinga í sambandi við kaupin, að sú ávöxtunarkrafa sé jafnhá og hjá hinum traustustu fyrirtækjum sem verið hafa í rekstri í 20 ár eða lengri tíma.
    Í sambandi við verðmætamat á þeim eignum sem hér er um að ræða er auðvitað ekki hægt að fara fram hjá því að annað er lagt til grundvallar við mat á eignum hinna litlu fyrirtækja, Drafnars og Egilssíldar, heldur en á Þormóði ramma. Eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar er mat á eignum Þormóðs ramma í raun skrúfað niður, vægilega áætlað um helming, á meðan eigið fé Drafnars og Egilssíldar er margfaldað með 2,4. Það er því gerólíkur grundvöllur að mati á eignum Þormóðs ramma annars vegar og hinna litlu fyrirtækja hins vegar. Og þetta kalla ég að jafnræðissjónarmiða sé ekki gætt við mat á eignum. Þess er enn að geta að eignir þessara fyrirtækja eru kannski sumpart hæpnar. Þar á ég við það að meginstoðin í eigin fé Drafnars eru birgðir af rækju sem í mati fjmrh. er upp á 88 millj. kr. En það vita allir að verð á rækju hefur farið hríðfallandi á undanförnum mánuðum og hætt er við að hér sé nokkuð of í lagt. Þetta mat er gamalt og Ríkisendurskoðun gerir í sinni skýrslu ráð fyrir að það sé ofmetið um 10%. En á sama tíma, frá því að matið var gert, hafði rækjuverð fallið um 18%. Þetta er aðeins eitt dæmið um varfærna niðurstöðu Ríkisendurskoðunar í sinni vönduðu skýrslu. Það er sem sé augljóst að jafnræðissjónarmiða er ekki gætt í mati á þessum eignum.
    Þá er þess enn að geta að einungis fimm mánaða

uppgjör frá síðasta ári lá að baki rekstraryfirliti Þormóðs ramma, þ.e. til 31. maí. Það er þó vitað að hagur fyrirtækisins hefur batnað mjög á síðari hluta ársins svo talið er að nemi um 80 millj. kr. og að hagnaður af rekstri fyrirtækisins nemi á síðasta ári um 120 millj. kr.
    Auðvitað var í öllum þessum vinnubrögðum hæstv. fjmrh. forðast að draga fram t.d. níu mánaða uppgjör sem sýnt hefði allt aðrar tölur heldur en fimm mánaða uppgjör. Á sama tíma gerist það vitaskuld að hagur litlu fyrirtækjanna er að veikjast. Þó að reikningar sem þar er byggt á séu til sjö mánaða þá er það svo að við verðfall á rækju er a.m.k. mikil hætta á því að staða Drafnars hafi versnað á síðustu mánuðum ársins og það mjög. Og það er líka hætta á því að staða Egilssíldar hafi versnað á síðari mánuðum ársins. Hvers vegna? Vegna þess að það er sölutregða og nást ekki samningar við Rússa á niðurlagningarvörum. Hér ber því allt að sama brunni: Jafnræðis er ekki gætt. Það er forðast að verða við þeim kröfum sem ég og aðrir þingmenn kjördæmisins settum fram um að það væri byggt á eigi minna en níu mánaða rekstraruppgjöri, helst tólf mánaða, við sölu vegna þess að á síðari hluta ársins er hagur Þormóðs ramma að batna stórum en á síðari hluta ársins er hagur hinna litlu fyrirtækjanna að versna stórum.
    Þetta er auðvitað einn þátturinn í því að gera það að verkum að ráðstafanir hæstv. fjmrh. á þessum eignum eru hneykslanlegar. Ég endurtek: Þær væru ekki hneykslanlegar ef eðlilegra vinnubragða hefði notið við, ef þessi eign hefði verið auglýst, ef það hefði komið í ljós í tilboðum sem byggðust á útboði, sem eðlilegar kvaðir fylgdu, hvers virði þessi eign væri. Þess var ekki gætt og hæstv. fjmrh. var ekkert knúinn til þess að selja hverjum sem hafa vildi þó svo tilboð hefðu komið. En það hefði komið í ljós hið raunverulega eignamat þessara bréfa og þessa fyrirtækis.
    Ég vil þá víkja nokkrum orðum að árásum hæstv. ráðherra á Ríkisendurskoðun. Hæstv. fjmrh. sagði skömmu eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út og eftir að hann hafði ritað sitt endemis bréf til forseta Alþingis að Ríkisendurskoðun hefði skilað tveimur skýrslum um Þormóð ramma og að þessar tvær skýrslur stönguðust á. Eftir að greinargerð Ríkisendurskoðunar var komin út, þá segir hæstv. fjmrh. allt í einu að Ríkisendurskoðun hafi þá eftir allt saman skilað þremur skýrslum. ( Fjmrh.: Þremur útgáfum.) Þremur skýrslum, hefur fjmrh. sagt. ( Fjmrh.: Þremur útgáfum.) Allt er þetta rangt eins og flest annað í málatilbúnaði hæstv. ráðherra. Allt er þetta rangt. Ríkisendurskoðun hefur ekki skilað nema einni skýrslu um Þormóð ramma og það er sú skýrsla sem hér er til umræðu.
    Hæstv. ráðherra segir að skýrsla hafi borist til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina og hann segir að stjórnarmenn í Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina hafi séð þar skýrslu og einn stjórnarmanna, Jóhann Antonsson, birtir bréf sem hann greinir frá í þessari skýrslu. Allt er þetta rangt nema að því leyti að vinnugögn voru send af hálfu Ríkisendurskoðunar

til nokkurra aðila til umsagnar, vinnugögn um afkomu nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja, sem áttu að fylgja skýrslu Ríkisendurskoðunar um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina. Þessi vinnugögn voru trúnaðarmál og á fundi í Atvinnutryggingarsjóði lét forstjóri þess sjóðs þess getið að hann hefði fengið slík trúnaðargögn í hendur en gæti eigi rætt þau vegna þess að um trúnaðarmál væri að ræða. Við þessi vinnugögn og drög voru gerðar ýmiss konar athugasemdir og þeim var mjög breytt þegar Ríkisendurskoðun hélt áfram sinni vinnu. Og þegar Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina var forsendum og útreikningum að því er laut að afkomu Þormóðs ramma og afkomumöguleikum gerbreytt frá þessum drögum. Eigi að síður hefur hæstv. fjmrh. komist yfir þessi vinnugögn, sem voru trúnaðarmál, með aðstoð sendimanns síns í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina og notar þau til þess að segja það að þar hafi Ríkisendurskoðun gefið út skýrslu sem hafi átt að sanna það að fyrirtækið Þormóður rammi væri einskis virði eða gæti ekki staðið að baki þeim skuldbindingum sem það tók á sig vegna hugsanlegrar aðstoðar Atvinnutryggingarsjóðs.
    Eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar um Atvinnutryggingarsjóð kemur út, en henni var dreift á Alþingi hinn 23. febr. 1990, kemur í ljós að mat Ríkisendurskoðunar á afkomu Þormóðs ramma er mjög með sambærilegum hætti eins og mat Ríkisendurskoðunar nú í byrjun þessa árs. En hæstv. fjmrh. sagði hér í gær að þessi skýrsla hefði aldrei verið gefin út, hún hefði aldrei sést, hann hefði aldrei séð hana og stjórnarmenn í Atvinnutryggingarsjóði hefðu aldrei séð þessa skýrslu. Þetta fullyrti hann hér í gær. Samt var skýrslunni dreift á Alþingi 23. febr. 1990, samt var hún tekin til umræðu á fundi Atvinnutryggingarsjóðs þann 15. mars 1990 og var auðvitað notuð þar sem grundvöllur að því mati sem Atvinnutryggingarsjóður þurfti að leggja á þetta fyrirtæki eins og önnur.
    Sendimaður hæstv. fjmrh. í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs, sem kvað heita Jóhann Antonsson, kemst einhvern veginn yfir trúnaðargögn og kemur þeim í hendur fjmrh., trúnaðargögn sem eru vinnuskjöl, frumgögn og er síðan breytt á margan máta við þær athugasemdir sem fram koma og nýjar upplýsingar yfir í það að mat Ríkisendurskoðunar verður sambærilegt í skýrslunni sem út er gefin við skýrslu Ríkisendurskoðunar nú í janúar um afkomumöguleika Þormóðs ramma. Hæstv. fjmrh. fullyrðir síðan að vinnugögnin hafi verið skýrsla sem gefin hafi verið út af Ríkisendurskoðun og hann fullyrðir síðan að skýrslan sem raunverulega kom út hafi aldrei sést. Þetta eru meðal margra dæma um ósannindavaðal þessa hæstv. ráðherra og blekkingar hans og rangfærslur til þess eins að reyna að ófrægja þessa stofnun sem hér hefur verið gerð að umtalsefni.
    Þess má svo geta að frá því að drög Ríkisendurskoðunar voru gerð, sem send voru sem trúnaðarmál nokkrum aðilum til athugunar, og þangað til skýrslan kom út, þá hafði það gerst að hæstv. fjmrh. hafði

breytt skuldum Þormóðs ramma, sem námu tæplega 400 millj. kr., yfir í hlutafé. Og þegar búið var að létta af fyrirtækinu 384 millj. kr. af skuldum þess, þá voru auðvitað rekstrarskilyrði þess önnur en fyrr.
    Enn fremur hafði það gerst að almenn rekstrarskilyrði í sjávarútvegi höfðu farið stórbatnandi þó svo þau ættu eftir að batna enn frá því sem þá var. Hæstv. fjmrh. sagði hér í ræðu sinni í gær að hækkun á fiskverði á síðasta ári væri meiri en elstu menn muna. Samt notar hæstv. fjmrh. ósannindi og rangfærslur um þessi efni sem meginuppistöðu í viðtölum sínum við fjölmiðla þegar hann er að dreifa því til landslýðsins að Ríkisendurskoðun sé ótraust stofnun og ekki trúverðug. Og hann notar þetta enn sem meginuppistöðu í öllu því skvaldri sem frá honum gekk hér í þingsal í gær þegar hann var að ófrægja þetta fyrirtæki.
    Þegar svona er staðið að málum, þá er ekki von að vel fari um trúverðugheit þess sem frá svona hæstv. ráðherrum kemur. Enda minnist ég þess aldrei, ég er nú búinn að sitja hér á Alþingi í nokkuð langan tíma, ég minnist þess ekki nokkurn tíma áður, og hafa þó hér verið margir ráðherrar í minni tíð, að nokkur ráðherra hafi leyft sér að fara með staðhæfingar sem byggjast á ósannindum, rangfærslum og vinnugögnum sem sendimenn ráðherra hafa með einhverjum hætti komist yfir en áttu ekki að komast í annarra hendur þar sem þau voru trúnaðargögn. Það er nóg af þessu í máli hæstv. ráðherra. Og þó að hann setji slíkan orðaflaum fram með sæmilega góðu yfirborði, þá fer það svo þegar kafað er í hans mál að þá sést í gegnum allan blekkingarvefinn.
    Það er svo með hæstv. ráðherra að hann þolir ekki gagnrýni. Það hefur auðvitað komið í ljós, bæði nú og fyrr. Og hann notar nokkurn veginn sömu aðferðirnar þegar hann fær á sig gagnrýni. Þá ræðst hann á þann sem gagnrýnir með offorsi hvað sem líður vegum sannleikans. Hann ræðst með offorsi, steigurlæti og orðaflóði á þann sem leyfir sér að gagnrýna. Þetta hefur hann gert fyrr.
    Við munum það hér frá fundum á Alþingi fyrir ári síðan eða svo þegar hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. líkaði miður við ríkislögmann, einn af hinum virtari starfsmönnum ríkisins, þegar hann gaf út álit sitt á meðferð þessara tveggja hæstv. ráðherra á svokölluðu Sturlumáli og varaði mjög við og lýsti andstöðu við hvernig ráðherrar færu með það mál. Þá fékk hann á sig árásir þessara tveggja hæstv. ráðherra.
    Við munum líka eftir því hér á hinu háa Alþingi að þegar gagnrýni kom fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis, þá voru viðbrögðin nokkuð með sama hætti. Það var gert lítið úr hæfni þess starfsmanns sem þar á hlut að máli, dr. Gauks Jörundssonar, og það voru gerðar tilraunir til þess af hálfu hæstv. fjmrh. að gelda starfsemi þeirrar stofnunar með því að skerða framlög á fjárlögum. Það voru gerðar tilraunir til þess.
    Og undir lok ræðu sinnar í gær gaf hæstv. ráðherra það í skyn svo að ótvírætt var að það þyrfti að hreinsa til í Ríkisendurskoðun. Þetta eru vinnubrögð sem við erum farin að þekkja hér á hinu háa Alþingi

hjá þessum hæstv. ráðherra.
    Það er svo að hæstv. ráðherra minnir mig á ónefndan rómverskan keisara sem hafði þann sið að taka af lífi þá menn sem komu með fréttir sem keisaranum þótti ekki gott að heyra. Slíkir menn voru auðvitað þegar í stað teknir af lífi. Og þeir sem keisarinn áleit að væru eitthvað að þvælast fyrir sér voru auðvitað umsvifalaust höggnir eða hent fyrir villidýr. Vinnubrögð þessa hæstv. ráðherra eru með sambærilegum hætti. Þessi keisari sem þarna situr ræður að vísu ekki yfir jafnáhrifaríkum aðferðum og Rómarkeisarar til forna, en það er auðséð að það er margt líkt, það er auðséð að hugurinn stendur í þessa átt. Og þó að hann hafi ekki yfir að ráða öðru en sínum orðaflaumi og blekkingum og sinni pólitísku aðstöðu og sínu pólitíska valdi, þá notar hann þetta allt til þess að ná sér niðri á þeim sem leyfa sér að gagnrýna keisarann.
    Hæstv. fjmrh., þessi nútíma Rómarkeisari hér í íslensku ríkisstjórninni, ætti að taka eftir því að vinnubrögð af þessu tagi eru ekki í samræmi við það sem íslensk þjóð vill að sé við lýði hjá sínum ráðamönnum. Og þessi hæstv. ráðherra, þessi Rómarkeisari nútímans, ætti sannarlega að finna fyrir því að það dugar ekki að beita í sífellu steigurlæti og blekkingum, orðaflaumi og ósannindum til þess að ráðast að þeim sem leyfa sér að gagnrýna keisarann. Það fer svo að sannleikurinn kemur í ljós og fólkið mun sjá í gegnum allan blekkingarvefinn.
    Ég vil ljúka máli mínu með því að skora á hæstv. ráðherra að biðja Ríkisendurskoðun afsökunar á þeim heiftarlegu árásum sem hæstv. ráðherra hefur gert. Það væri mannsbragur að því ef þessi keisari sem þarna situr, Rómarkeisari nútímans, breytti nú um svip og viðurkenndi að hann hafi farið offari í blekkingarleik sínum og bæði Ríkisendurskoðun afsökunar.
    Ég endurtek það að ég tel að ekki verði hjá því komist að Alþingi bregðist til varnar vegna þess að Ríkisendurskoðun getur ekki varið sig hér í þessari málstofu. Þess vegna er það Alþingis að verja sínar undirstofnanir þegar með ódrengilegum og ósönnum hætti er á þær ráðist af slíkri heift sem hér hefur verið gert.