Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Í lok ræðu minnar í gær sagði ég að menn ættu um tvennt að velja í þessum umræðum, annaðhvort að færa umræðuna í stíl pólitísks orðaskaks eða fara í vandaða og ítarlega umræðu. Hv. þm. Páll Pétursson og Pálmi Jónsson völdu fyrri kostinn. Þeir hafa hvað eftir annað í þessari umræðu vitnað í að fjórir þingmenn hafi beðið um skýrslu Ríkisendurskoðunar og Pálmi Jónsson og Páll Pétursson hafa í þessari umræðu hvað eftir annað sagt að skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfesti það sem við fjórmenningarnir höfðum sagt. Pálmi Jónsson sagði orðrétt áðan: ,,Grunsemdir okkar voru allar staðfestar í skýrslu Ríkisendurskoðunar.``
    Áður en þessi umræða heldur áfram er nauðsynlegt að leiða hér fram að einn af þessum þingmönnum, Jón Sæmundur Sigurjónsson, er ekki viðstaddur þessa umræðu, en einn af þessum þingmönnum, Jón Sæmundur Sigurjónsson, hefur sent frá sér sína skoðun í grein í Morgunblaðinu sem birtist sl. fimmtudag. Í raun og veru þyrfti ég ekki að gera annað hér heldur en að lesa upp þessa grein. (Gripið fram í.) Nei, það er nefnilega alveg greinilegt að hv. þm. hafa ekki lesið hana. Ég ætla nú ekki að lesa hana alla af því að það er liðið á fundinn. (Gripið fram í.)
Jú, ég gæti lesið hana alla, vissulega. Það er vísu byrjað á því að vitna í fornsögur, það má nú kannski sleppa því, en ég heyri það greinilega á frammíköllum að þessi grein er viðkvæmt mál. Ég heyri það greinilega. En ég væri alveg tilbúinn að lesa hana alla. ( StG: Gott að fá hana í þingtíðindin.) Vissulega, já, já. Ég skal lesa hana alla í þingtíðindin ef menn vilja. Það er nú ekki það sem máli skiptir og þessi taugaveiklaði hlátur Páls Péturssonar gefur greinilega til kynna að hann veit að þessi grein slátrar bara hans málflutningi gjörsamlega.
    Jón Sæmundur Sigurjónsson er þingmaður Alþfl. Hann var aðili að því að biðja um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hann hefur att kappi við Alþb. um langan tíma. ( PP: Hann gekk á hurð.) Þetta frammíkall Páls Péturssonar að Jón Sæmundur hafi gengið á hurð er akkúrat dæmi um það á hvaða stigi Páll Pétursson er í þessari umræðu. ( PJ: Hann skrifaði hana eftir það.) Hann skrifaði hana eftir það, segir Pálmi Jónsson. Það er dæmi um það að Pálmi Jónsson er á sama stigi og Páll Pétursson í þessari umræðu. ( SalÞ: Það á að kenna þingmenn við kjördæmi sín.) Já, þessir þingmenn eru allir í Norðurlandi vestra, hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, hafa alltaf verið og verða ávallt ( Gripið fram í: Það hefur ekkert farið á milli mála í þessari umræðu.) og það hefur ekkert farið á milli mála í þessari umræðu.
    Hvað segir Jón Sæmundur Sigurjónsson? Ég ætla að lesa það hér. Hvað segir hann um þá sem keyptu fyrirtækið og um söluna? Ég vitna í það, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fyrirtækið lenti í góðum höndum. Þar eru á ferðinni hörkuduglegir menn sem taka sjálfir til höndum ef því er að skipta. . . . Sú ávirðing, sem komið hefur

fram, að hér sé eingöngu um vildarvini ráðherrans að ræða, er hallærisleg og út í hött.``
    Og hvað segir hann um skýrslu Ríkisendurskoðunar, þessi einn af fjórum sem bað um skýrsluna, sá eini sem ekki er í Framsfl. eða Sjálfstfl.? Hvað segir hann, þingmaður Alþfl. sem bað um skýrsluna? Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Ég skal ekki draga dul á það að með allri virðingu fyrir vönduðum vinnubrögðum Ríkisendurskoðunar tel ég mat Ólafs Nilssonar mun nær raunveruleikanum.``
    Hafa hv. þm. Páll Pétursson og Pálmi Jónsson getið um það hér í umræðunum að einn af þeim sem bað um skýrsluna með þeim kveður upp þann dóm yfir skýrslunni að álit Ólafs Nilssonar, sem fjmrn. hefur leitt hér fram, sé mun nær raunveruleikanum en skýrsla Ríkisendurskoðunar? Þetta hafa þeir ekki leitt fram hér í umræðunni en hafa báðir talað fyrir hönd allra þessara fjórmenninga. Þeir geta ekki talað fyrir hönd Jóns Sæmundar Sigurjónssonar. Hann er á allt annarri skoðun, og hann heldur áfram, hv. þm. Páll Pétursson: ,,Þessar deilur hafa tryllt a.m.k. tvo þingmenn kjördæmisins til glórulauss upphlaups.``
    Jón Sæmundur Sigurjónsson, þingmaður Alþfl. í Norðurl. v., sem er einn af þeim sem bað um skýrslu Ríkisendurskoðunar, kallar þennan málflutning hv. þm. Páls Péturssonar og Pálma Jónssonar eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út ,,glórulaust upphlaup``. Og hann heldur áfram: ,,Það verður fróðlegt að sjá hvort sami hamagangurinn verður viðhafður til að sprengja upp verðið á frystihúsinu á Hofsósi þegar þar að kemur.`` Og hann heldur líka áfram: ,,Það veldur því nokkrum vonbrigðum að Ríkisendurskoðun velur könnun sinni forsendur sem koma Þormóði ramma lítið við.``
    Hvað ætla hv. þm. Pálmi Jónsson og hv. þm. Páll Pétursson að halda lengi áfram í þessum umræðum að tala fyrir hönd þeirra fjórmenninga sem báðu um þessa skýrslu þegar Jón Sæmundur Sigurjónsson hefur lýst því yfir að þær forsendur sem Ríkisendurskoðun byggði sína skýrslu á komi Þormóði ramma lítið við? En hann er einn af skýrslubeiðendum. Hann er sá sem gaf skýrslubeiðninni pólitískan gæðastimpil af því að hann var ekki úr hópi ofsóknarsinnanna Páls Péturssonar og Pálma Jónssonar sem höfðu áður en þeir báðu um skýrsluna fellt sinn dóm. Hann var þess vegna sá eini í þingmannahópnum sem gat kannski litið málið hlutlausum augum. Hans niðurstaða er alveg skýr. Hann segir: ,,Það veldur því nokkrum vonbrigðum að Ríkisendurskoðun velur könnun sinni forsendur sem koma Þormóði ramma lítið við.``
    Ég vil geta þess að Jón Sæmundur Sigurjónsson er menntaður í hagfræði og viðskiptafræðum. Hann er sá eini í hópi skýrslubeiðenda sem hefur faglega menntun á því sviði sem skýrslan fjallar um. Hann er sá eini sem hefur ,,akademískar kvalifíkasjónir``, faglega hæfni, til þess að fjalla um skýrsluna á faglegum grundvelli. Og hann kemst að þeirri niðurstöðu að skýrsla Ríkisendurskoðunar komi Þormóði ramma lítið við.

    Svo eru menn að saka mig um að hafa farið með árásir á Ríkisendurskoðun. Væri ekki nær að þessir fjórmenningar í hópi skýrslubeiðenda ræddu saman? Væri ekki nær að hv. þm. Páll Pétursson og Pálmi Jónsson, sem alltaf eru að hampa skýrslubeiðendum hér í umræðunni, horfðu á þann veruleika að sá úr hópi þeirra fjórmenninga, sem hefur faglega og fræðilega menntun og starfsþjálfun til að fjalla um skýrsluna á grundvelli viðskiptafræði og hagfræði, kemst að þeirri niðurstöðu að skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma sé ekki marktæk. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að álit Ólafs Nilssonar, sem fjmrn. byggði afstöðu sína á, sé nær raunveruleikanum.
    Það er leitt að Jón Sæmundur Sigurjónsson skuli vera fjarverandi. En hann heldur líka áfram: ,,Ég tel að Þormóður rammi hafi verið seldur á hærri kanti sannvirðis.`` Álit þessa þingmanns, sem bað um skýrslu Ríkisendurskoðunar, er að verðið á Þormóði ramma hafi verið of hátt. Hafi verið of hátt, hv. þm. Páll Pétursson og hv. þm. Pálmi Jónsson. Einn af ykkar félögum, sem bað um skýrslu Ríkisendurskoðunar, kemst að þeirri niðurstöðu að verðið hafi verið of hátt. ( StG: Hvaða menntun hefur fjmrh. til að fjalla um þessa skýrslu?) Ég heyri greinilega að hv. þm. Stefán Guðmundsson vill fara að tala um eitthvað allt annað heldur en álit Jóns Sæmundar Sigurjónssonar. Ég skal svara spurningu þingmannsins á eftir, en ég er bara ekki búinn með grein hv. þm. Jóns Sæmundar Sigurjónssonar, sem þingmaðurinn fyrir nokkrum mínútum síðan óskaði eftir að ég læsi alla en vill nú greinilega að ég hætti að lesa upp úr. ( StG: Nei, ég bið þig enn að lesa hana alla.) Já, já, ég er ekki enn búinn, því að hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson heldur áfram hér, að ,,Ólafur (þ.e. fjmrh.) hafi ekki fengið meira en honum bar, frekar en fyrri daginn þegar deilt var um Hvanndali.`` Síðan heldur hann áfram og segir:
    ,,Það er ólánsverk að vilja magna deilur um atvinnulíf á Siglufirði.`` Með öðrum orðum segir hann að málflutningur hv. þm. Páls Péturssonar og Pálma Jónssonar sé ólánsverk. Þannig mætti lesa fleira úr þessari grein, en hann segir hér og sendir kveðju sína til hv. þm., félaga sinna úr hópi skýrslubeiðenda, hv. þm. Páls Péturssonar og Pálma Jónssonar: ,,Næsta verkefni er vandinn vegna loðnubrestsins. Sextíu manns eiga yfir höfði sér að missa þar atvinnu sína. Það væri nær að þingmenn eyddu kröftum sínum í að finna lausnir á því.``
    Í raun og veru er þetta nóg. Það þarf ekki að segja neitt meira hér við þessa umræðu. Það voru fjórir þingmenn sem báðu um þessa skýrslu. Tveir þeirra voru haldnir pólitísku ofstæki og ætluðu í stríðsleik við fjmrh., voru búnir að lýsa því yfir þegar þeir báðu um skýrsluna. Sá þriðji, flokksbróðir hv. þm. Páls Péturssonar, yfirgefur nú ekki foringja sinn í þessu máli frekar en öðrum, enda foringjahollur maður og hefur elt Pál Pétursson út í hvaða vitleysu sem er á stjórnmálaferli sínum. ( StG: Það er ekki rétt.) En sá eini í hópi fjórmenninganna sem hafði burði til að hafa sjálfstæða skoðun, var hvorki háður hv. þm. Pálma

Jónssyni né hv. þm. Páli Péturssyni og er stjórnmálalegur andstæðingur fjmrh., hann hefur kveðið upp þann dóm að hann taki meira mark á því mati sem fjmrn. lagði til grundvallar heldur en skýrslu Ríkisendurskoðunar. ( StG: Hvað hef ég sagt í þessu máli?) Nei, hv. þm. hefur ekki enn sagt neitt í málinu. (Gripið fram í.) Ég skal að sjálfsögðu bíða með það. Menn geta því sparað sér allar þessar löngu ræður hér í salnum um okkur fjórmenningana. ( StG: Hver hefur talað lengst?) Ja, það er nú merkilegt nokk, hv. þm. Pálmi Jónsson talaði lengst því að hv. þm. Pálma Jónssyni tókst að tala hérna rúma sjö stundarfjórðunga samtals í þessari umræðu.
    Í raun og veru gæti ég hætt hér en mig langar þó að vekja athygli á því að hv. þm. Páll Pétursson vék eiginlega ekkert að skýrslu Ríkisendurskoðunar í sinni ræðu nema í örstuttu máli. Um hana sagði hann eftirfarandi: Að skýrsla Ríkisendurskoðunar væri gott verk og Ríkisendurskoðun væri traust stofnun. Þó væri það í einu atriði sem hv. þm. Páll Pétursson vissi meira um málin heldur en Ríkisendurskoðun og það væri matið á Drafnari og Egilssíld. Þar væri hann þeirrar skoðunar að Ríkisendurskoðun hefði rangt fyrir sér. Hún hefði ofmetið Drafnar og Egilssíld. Merkilegt. Páll Pétursson, sem byggir allan sinn málflutning á Ríkisendurskoðun, segir það hins vegar hér að á því eina sviði þar sem hann telur sig hafa nánari þekkingu en Ríkisendurskoðun hafi Ríkisendurskoðun rangt fyrir sér. Hún hafi metið það vitlaust. Það er dálítið fróðlegt fyrir menn að fletta upp þessum texta í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar. Því þetta var eina efnisatriðið sem hann vék að í skýrslu Ríkisendurskoðunar, það eina í allri ræðunni. Hitt var svona pólitískur skætingur um mig og hæstv. utanrrh. og fundahöld á Siglufirði og hinar og þessar persónur á Siglufirði. Þetta var eina atriðið í allri ræðunni þar sem hann vék að efnisatriðum úr skýrslu Ríkisendurskoðunar til að koma því sérstaklega á framfæri að þetta eina efnisatriði sem hann fjallaði um væri vitlaust.
    Virðulegi forseti. Það er hér eitt atriði í viðbót sem mig langar til þess að víkja að. Það hefur mikið verið gert úr jafnræðissjónarmiðum, að salan hafi ekki verið auglýst. Nú má vel vera að það hefði átt að birta auglýsingu í Morgunblaðinu svona fyrir siða sakir til að koma því til skila svona formlega á Siglufirði að fyrirtækið væri til sölu fyrir Siglfirðinga. Það vita hins vegar allir að bæjarstjórnin og fjmrn. gáfu út sameiginlega fréttatilkynningu og það vissu allir á Siglufirði að þeir gátu boðið í fyrirtækið og það vissu allir skilmálana, enda er það athyglisvert í allri þessari umræðu að það hefur ekki gefið sig fram einn einasti einstaklingur eða eitt einasta fyrirtæki á Siglufirði og sagt að hann/það hafi ekki átt kost á að bjóða í þetta fyrirtæki. Það hefur enginn komið fram og sagt það. Það sem hefur gerst er það að hópur manna sem sendir ákveðið tilboð eftir að formlegar viðræður voru hafnar við annan tilboðsaðila telur að það hefði átt að ræða áfram við sig. Það er hlutur sem má ræða fram og aftur. En þar með fellur auðvitað öll gagnrýnin um skort á auglýsingu um sjálfa sig, enda er hún ekkert

annað en í raun og veru húmbúkk í þessari umræðu vegna þess að sú aðferð sem notuð var, fundir með bæjarstjórninni, formleg tilkynning bæjarstjórnar og fjmrn., opinber í öllum fjölmiðlum, umræður á Alþingi, fundir með þingmönnum, komu því rækilega til skila --- mun betur en auglýsing í Morgunblaðinu, því að hvað kaupa margir á Siglufirði Morgunblaðið? Hvað kaupa margir Alþýðublaðið? Hvað kaupa margir Lögbirtingablaðið? Og þessi blöð sem menn hefðu getað valið um að auglýsa í, svo að ég nefni nokkur? --- komu því það rækilega til skila að það vissu allir að fyrirtækið var til sölu.
    Og án þess að ég ætli að gerast dómari í því, þá er ég alveg reiðubúinn að bera þessar aðferðir saman við þær aðferðir sem fyrri ráðherrar hafa haft þegar ríkiseignir á Norðurlandi vestra hafi verið seldar. Ég vil spyrja hér af því að það hafa nokkuð oft verið seldar ríkiseignir í Norðurlandi vestra: Hafa þau áform verið kynnt viðkomandi sveitarstjórnum? Hafa þau áform verið kynnt þingmönnum kjördæmisins á formlegum fundum? Hve oft og hvenær? Ég efast um að það hafi verið oft. Ég efast um að það hafi verið einhvern tímann fyrr en nú.
    Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að segja meira á þessu stigi málsins. Það er hins vegar misskilningur sem hér hefur komið fram í umræðunni að af minni hálfu hafi verið um að ræða árás á Ríkisendurskoðun, ófrægingarherferð eða annað af því tagi. Ríkisendurskoðun skilaði hins vegar skýrslu. Örfáir þingmenn hafa notað hana sem grundvöll að pólitískum árásum á fjmrh. Ég hef látið fræðimenn og fagmenn og sérfræðinga fara yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þeir hafa gert alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð, sett fram ítarlega gagnrýni. Ég rakti hana ítarlega hér í gær, ekki vegna þess að hún væri frá mér komin, hv. þm. Stefán Guðmundsson, enda sagði ég það í ræðu minni í gær að ég byggði það á viðræðum og greinargerðum frá kunnáttumönnum og fagmönnum á þessu sviði. En þingmaðurinn spurði hér áðan hvort ég hefði faglega menntun á þessu sviði. Ég sagði þingmanninum að ég mundi víkja að því hér seinna í ræðu minni og er að því nú. (Gripið fram í.) Nei, það sagði ég ekki. Ég sagði: sá eini úr hópi skýrslubeiðenda. (Gripið fram í.) Ég sagði úr hópi skýrslubeiðenda. Ég veit að Ragnar Arnalds hefur góða menntun, hún er í lögfræði. ( StG: Hún er ekki lakari.) Nei, nei, en hins vegar er það nú þannig um þessi fræði að menntun í viðskiptafræðum og hagfræði er vænlegri til þess að leggja mat á reikningsaðferðir, arðsemi, ávöxtunarkröfur, framlegð og annað um Ríkisendurskoðun byggir mat sitt á heldur en lögfræði og ber ég þó mikla virðingu fyrir lögfræði. Það er hins vegar staðreynd málsins. (Gripið fram í.) Það er merkilegt með svona dagfarsprúðan mann eins og Stefán Guðmundsson að síðan ég fór að vitna í hv. þm. Jón Sæmund Sigurjónsson hefur þessi þingmaður, Stefán Guðmundsson, verið mjög ókyrr í sæti sínu. (Gripið fram í.) Það er hins vegar ekkert merkilegt að hv. þm. Pálmi Jónsson skuli sífellt vera að grípa fram í því að hann hefur verið mjög órór í allri þessari

umræðu. Við getum hins vegar haldið henni lengi áfram.
    Kjarninn í þessu máli er ekki pólitískt karp milli flokka eða manna. Kjarninn í þessu máli er það sem ég sagði hér í minni ræðu við upphaf þessarar umræðu að við verðum að búa við þá skipan að vinnubrögð Ríkisendurskoðunar séu einróma lofuð af færustu fræðimönnum og fagmönnum á því sviði sem Ríkisendurskoðun starfar á.
    Ég held að ég hafi nefnt það hér í fyrra að það væri galli á þingsköpum að þegar stofnanir Alþingis væru orðnar af því tagi eins og Umboðsmaður og Ríkisendurskoðun, þá þyrfti að vera vettvangur t.d. á opnum fundum þingnefnda þar sem þingmenn gætu, líkt og gerist t.d. í ýmsum öðrum þjóðþingum, ég nefni bandaríska þingið sem dæmi, fjallað um skýrslur þessara stofnana þingsins og kallað til sérfræðinga og fengið álitsgerðir og rætt málin að viðstöddum fulltrúum þessara stofnana og að viðstöddum öðrum sérfræðingum og að viðstöddum þingmönnum utan við formið hér í þingsalnum þar sem þessir aðilar eiga ekki sæti.
    Ég vil beina því til forseta þingsins að þingsköpum verði breytt á þann veg að nefndir þingsins, t.d. sameiginlegir fundir fjh. - og viðskn. og fjvn. og þeirra þingmanna sem kjósa að sitja slíka fundi geti fjallað um skýrslur af þessu tagi þar sem menn geta í heyranda hljóði kallað til sín sérfræðinga, vegna þess að vandinn í þessu máli er sá að það er ekki höfuðatriði hvað einstakir þingmenn kunna að segja til eða frá. Höfuðatriðið er að það sé byggt upp það víðtæka, faglega og pólitíska traust sem menn þurfa að geta borið til Ríkisendurskoðunar. Ég rakti hér mjög ítarlega faglega gagnrýni á þær reikningsaðferðir sem hún notaði. Um það þarf að fjalla á ítarlegan og faglegan hátt vegna þess að þetta mál deyr út. En Alþingi þarf áfram að búa við þessa stofnun og það þarf að tryggja það að þar sé vel að verki staðið.
    Virðulegi forseti. Ég vil svo að lokum ítreka það sem ég sagði í upphafi. Í sjálfu sér hefur Jón Sæmundur Sigurjónsson dæmt málflutning hv. þm. Páls Péturssonar og hv. þm. Pálma Jónssonar sem hafa haft forustu fyrir árásum á fjmrh. Jón Sæmundur Sigurjónsson segir að þessi málflutningur sé glórulaust upphlaup. Hann segist hafa orðið fyrir vonbrigðum að Ríkisendurskoðun velur könnun sinni forsendur sem koma Þormóði ramma lítið við. Það er niðurstaða eins af þeim fjórum þingmönnum sem bað um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þarf að segja meira í þessu máli?