Áfengislög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Eiður Guðnason :
    Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég heyri ekki betur en hv. 4. þm. Vesturl. hafi gjörsamlega misskilið efni þessa máls. ( Gripið fram í: Það er mjög líklegt.) Ekki voru það nú mín orð. Ég held að það hafi gerst óviljandi og ég hygg að hann muni ná áttum þegar hann hefur gert sér grein fyrir því um hvað þetta mál fjallar. Hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal gerði nokkra grein fyrir því hér áðan um hvað er að tefla. Hér er verið að fjalla um dvöl á stað. Það er um það að tefla hvort þetta fólk má fara inn á veitingastað þar sem aðrir eru að hafa áfengi um hönd og þar sem selt er áfengi af einhverju tagi, t.d. borðvín eða áfengt öl.
    Hitt er svo rétt, og það langar mig til að taka sérstaklega fram af því að aldrei þessu vant get ég verið sammála hv. 2. þm. Norðurl. e., þá tel ég ástæðu til að taka það alveg sérstaklega fram. (KP: Er það nýtt?) Við erum stundum sammála, hv. þm. Karvel Pálmason, og þá jafnvel um hin veigamiklu mál. Ég held að það sé alveg rétt að það þurfi í heild með tilliti til breyttra þjóðfélagshátta að ýmsu leyti að endurskoða ýmis ákvæði sem aldursmörk varða. Ég held að það sé tímabært. Það hefði kannski átt að gera það um leið og kosningaaldur var lækkaður í 18 ár. Það er alveg rétt ábending og ég held að löggjafinn ætti að gera það. En að hv. 4. þm. Vesturl. skuli snúast svona öndverður gegn þessu litla máli sem samt hefur þýðingu fyrir það fólk sem hér er um fjallað, það hefur félagslega þýðingu fyrir það og er ekki af hinu vonda nema síður sé, á því er sú skýring ein að hann hefur ekki skilið það réttum skilningi en það gerist nú áreiðanlega áður en langt um líður.