Fundarsókn fjmrh.
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Stundarfjórðungi fyrir kl. 3 var fundi frestað og þá borin þau boð frá hæstv. fjmrh. að hann mundi koma hér í þinghúsið til að svara fyrirspurn sem hann hafði verið látinn vita um varðandi mál sem hér er á dagskrá og honum ber embættisleg skylda til að svara. Nú er klukkan korter yfir 3. Ég hefði farið á skrifstofu mína og unnið að verkum sem eru áríðandi hefði ég haft hugmynd um að dráttur á komu ráðherrans yrði svo langur. Vil nú óska eftir því að hæstv. forseti taki frv. um gjald af erlendum lántökum fyrir í upphafi næsta fundar á þriðjudag því ekki er hægt að una því að þingmenn þurfi að bíða hér í húsinu og gá hvort ráðherra standi við orð sín um að mæta á löggjafarsamkomunni. Það er auðvitað dæmafátt að ráðherrar skuli senda slík skilaboð og hafa þannig heilar þingdeildir að ginningarfíflum.