Endurgreiðsla á gjaldi af erlendum lánum
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) (frh.) :
    Herra forseti. Það kom fram þegar þetta mál var síðast til umræðu hér í hv. deild, í máli hv. 5. þm. Norðurl. e., að hæstv. fjmrh. gæti ekki fallist á það að það frv. sem hér liggur fyrir yrði samþykkt á þessu þingi. Dýrt er drottins orðið fyrir þau fyrirtæki sem verða fyrir barðinu á hans heilagleika. En á hinn bóginn hafi hæstv. fjmrh. lofað því að um enn hærri og frekari greiðslur yrði að ræða til Slippstöðvarinnar á Akureyri þegar kaupandi fyndist að því skipi sem þar er nú óselt. Hæstv. fjmrh. gaf svipaðar yfirlýsingar sl. vor þegar þetta mál var til umræðu. Þá átti það að vera mikil hjálp við skipasmíðaiðnaðinn að hann ætlaði að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt, sem hann hefur nú rausnast til að gera, svona hér um bil. Það vantar pínulítið upp á samt, látum nú kyrrt liggja. Seint og um síðir stóð hann við það svona nokkurn veginn, skulum við segja. En hitt stendur eftir að þrjú fyrirtæki hafa verið skattlögð sérstaklega með gjaldi af erlendum lántökum, þ.e. Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar á Ísafirði, Slippstöðin á Akureyri og skipasmíðastöð á Seyðisfirði.
    Hv. 5. þm. Norðurl. e. Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsfl., telur sig ekki geta samþykkt þetta frv., hvorki nú né í maímánuði sl., vegna þess að fjmrh. hafi heitið sér því að bregðast rausnarlega við og greiða Slippstöðinni á Akureyri enn hærri fjárhæðir en þá sem felst í þessu frv. um endurgreiðslu lántökugjalds af erlendum lántökum. Nú langar mig að spyrja hæstv. fjmrh.: Er það rétt skilið hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. að þvílíkt loforð hafi verið gefið gagnvart Slippstöðinni á Akureyri? Hvers eiga þeir þá að gjalda sem reka skipasmíðastöðvar á Ísafirði og Seyðisfirði? Hugsar hæstv. ráðherra sér að láta þá sem fyrir þeim rekstri standa bera lántökugjaldið að fullu en endurgreiða kannski tvöfalt til Slippstöðvarinnar á Akureyri? Ég hef verið mikill baráttumaður fyrir Slippstöðina, ég neita því ekki, en ég ætlast ekki til þess að ríkisvaldið sé svo rausnarlegt gagnvart þessari stöð, þó hún sé á Akureyri, að hún eigi að sitja við allt annað og betra borð í skattalegu tilliti en sambærilegar stöðvar á Ísafirði og Seyðisfirði.
    Ég gæti, hæstv. forseti, rifjað upp eitt og annað sem ráðherrann sagði í vor um það hversu mikið hann og ríkisstjórn hans hygðist gera fyrir skipasmíðaiðnaðinn. Það átti að nema tugum milljóna sem þá átti að gera fyrir skipasmíðaiðnaðinn. Við þetta hefur ekki verið staðið, síður en svo, og skal ég ekki fara út í þá sálma að þessu sinni. Þjóðin veit ofurvel að þessi ríkisstjórn stendur ekki við það sem hún segir yfir höfuð að tala. Og þó ég geti bent hér á eitt atriði til viðbótar, þá er það ekki kjarni málsins nú heldur hitt að hæstv. ráðherra endurtaki það hér í ræðustól sem hann hefur sagt við hv. 5. þm. Norðurl. e. prívat, að til standi að veita enn hærri fjárhæðir til Slippstöðvarinnar á Akureyri af opinberu fé, úr ríkissjóði, en nemur þeim fjárhæðum sem við erum að tala um samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir.