Endurgreiðsla á gjaldi af erlendum lánum
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst geta þess að söluskattur var endurgreiddur til iðnaðarfyrirtækja í samræmi við þær heimildir sem voru í fjárlögum til slíkra greiðslna. ( HBl: En ekki í samræmi við loforð ráðherrans.) Fjmrh. hefur aldrei gefið loforð um að endurgreiða eitt eða neitt umfram það sem er í fjárlögum. ( HBl: Fjmrh. skammtaði sér sjálfur fé í fjárlögunum í gegnum sinn meiri hluta.) Það er nú ekki þannig að fjmrh. skammti sér sjálfur í gegnum meiri hlutann. Það væri létt verk að vera fjmrh. ef það gengi þannig fyrir sig. ( HBl: Það gengur nú þannig fyrir sig.) Það hefur kannski gengið þannig fyrir sig þegar hv. þm. Halldór Blöndal var í ríkisstjórn og er þá engin furða þó að hlutirnir færi úr böndunum. ( HBl: Það vantar 1 / 6 upp á og það veit ráðherrann.) Það vantar engan 1 / 6 upp á. ( HBl: 5 / 6 voru greiddir og vantar 1 / 6 .) (Forseti hringir.) Þetta er allt í lagi, forseti, ég kann ágætlega við það að ræða við þingmanninn hérna og hef aldrei verið á móti slíku og er frekar andvígur þessum eilífu bjölluhringingum hérna í þinginu. Ef ræðumaður getur ekki haldið sjálfur hljóði í salnum, þá á hann bara að hætta að tala.
    Hins vegar er rétt að geta þess að ég sótti í tvígang um viðbótarfjármagn gegnum fjáraukalög til þess að geta endurgreitt uppsafnaðan söluskatt til iðnaðarfyrirtækja og annarra fyrirtækja, m.a. vegna þess að áætlanir fyrirtækjanna um þessar upphæðir reyndust ekki vera réttar. En það er nú liðin tíð, því máli er lokið farsællega.
    Það koma hins vegar oft upp mál á þann veg að menn vilja snúa hjólinu aftur á bak og fara aftur fyrir ákvarðanir sem teknar voru af þargildum löglegum stjórnvöldum á sínum tíma. Eitt af því er auðvitað þetta gjald sem lagt var á erlendar lántökur,
ekki af núv. hæstv. ríkisstjórn, heldur af þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. Halldór Blöndal studdi, þannig að það var nú ekki uppfinning okkar að leggja gjald á erlendar lántökur til atvinnulífsins heldur var það uppfinning ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. (Gripið fram í.) Nei, nei, það er alveg rétt. Ég skil þess vegna vel að hv. þm. Halldór Blöndal er að reyna að baksa við það hér í þingsölum að þessi gjöld sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar lagði á atvinnulífið séu greidd til baka, en ég skil ekki af hverju hann vill ekki bara endurgreiða þau öll til baka, fyrst það er á annað borð byrjað á þessu. Þannig að ég beini því nú til þingmannsins að hugleiða það hvort hann vilji ekki flytja hérna frv. um að atvinnulífinu verði endurgreidd öll þau gjöld sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar lagði á atvinnulífið.
    Ég hef þess vegna ekki viljað fara þá leið sem hv. þm. hefur sífellt verið að leggja til hér í þinsölum, að tekin væri upp sú regla að endurgreiða gjöld sem lögleg stjórnvöld lögðu á viðkomandi aðila með löglegum hætti á tilteknum tíma, því það er það sem hér um ræðir. Og sú skoðun mín er ekkert breytt. Til mín hafa komið t.d. fulltrúar ýmissa fyrirtækja sem hafa vakið athygli á því að þær breytingar á tollalögum

sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar beitti sér fyrir hafi komið sér mjög illa fyrir --- ég er ekki búinn, hv. þm., þetta er nú allt í lagi, ég má setja þetta aðeins í samhengi --- að þær breytingar á tollalöggjöf sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar beitti sér fyrir hafi komið þeirra fyrirtækjum mjög illa vegna þess að þau hafi verið búin að kaupa vélar og tæki og greitt af þeim tolla, en samkeppnisaðilarnir keypt eftir að niðurfelling tollanna átti sér stað og það hafi skekkt mjög samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja gagnvart öðrum fyrirtækjum. Og þeir hafa farið fram á það að þessir tollar væru endurgreiddir til þess að styrkja samkeppnisstöðuna á nýjan leik. Þannig er auðvitað hægt að halda áfram endalaust ef menn á annað borð opna fyrir það að stjórnvöld nokkrum árum seinna fari að endurgreiða gjaldtöku sem hafi komið atvinnufyrirtækjunum illa þó að sú gjaldtaka hafi verið ákveðin með löglegum hætti.
    Í málefnum Slippstöðvarinnar á Akureyri er það hins vegar rétt sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefur væntanlega sagt, þó ég ætli nú ekki að treysta öllum útleggingum hv. þm. Halldórs Blöndals á hennar orðum, að ég hef átt viðræður bæði við hana og við forsvarsmenn Slippstöðvarinnar á Akureyri og stjórn Slippstöðvarinnar. Ég fór til Akureyrar sérstaklega til þess að eiga viðræður við stjórn fyrirtækisins og bæjarstjórn Akureyrar og lét í ljósi þá skoðun að mikilvægt væri að selja umrætt skip, sem hv. þm. Halldór Blöndal átti hlut í að ákveða að yrði byggt án þess að nokkur kaupandi væri til að, og það væri réttlætanlegt að lækka verðið eða grípa til annarra ráðstafana, sem hlutafjáreigendur fyrirtækisins þyrftu þá að bæta því með einum eða öðrum hætti til þess að styrkja rekstrargrundvöll Slippstöðvarinnar áfram. Þar yrði auðvitað að taka mið af heildarskuldastöðu og gjaldastöðu fyrirtækisins. Ég hef gefið vilyrði fyrir því að þau mál verði skoðuð í samhengi við söluna á skipinu og það verð sem endanlega fæst fyrir skipið og rekstrarstöðu fyrirtækisins að öðru leyti. Það voru fullkomlega faglegar og eðlilegar viðræður og ég varð ekki var við annað en stjórnendur fyrirtækisins, bæði forstjóri og stjórnarmenn, væru mjög ánægðir með það. Síðan hefur verið unnið að því að reyna að selja skipið og meta þetta á skynsamlegan hátt. Þetta er þess vegna allt saman í eðlilegum farvegi og fullkomið samkomulag um það milli mín og hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur og stjórnenda fyrirtækisins og forstjóra.
    Auðvitað munum við tryggja hag Slippstöðvarinnar á Akureyri og auðvitað munum við koma í veg fyrir það að sú vitlausa ákvörðun sem tekin var á sínum tíma komi til með að bitna á fyrirtækinu um aldur og ævi. Við erum í þessum efnum eins og öðrum að leysa þau vandamál sem aðrir skildu eftir sig.