Endurgreiðsla á gjaldi af erlendum lánum
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég taldi mig muna að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefði átt von á meiru frá ráðherranum og upplýst um það á þingfundi sem mun hafa verið 2. maí 1990. Hér stendur það sem þingmaðurinn sagði:
    ,,Hæstv. forseti. Með tilliti til orða hæstv. fjmrh. í umræðunni hér fyrir nokkrum dögum þess efnis að tekið verði á vanda Slippstöðvarinnar á Akureyri sérstaklega og þar sem hér er um tiltölulega lága upphæð að ræða þegar litið er til þess vanda sem það fyrirtæki á við að stríða, þá greiði ég atkvæði með meiri hl. fjh. - og viðskn. og segi já.``
    Í þessu held ég að felist nú það sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur verið að halda fram, að þingmaðurinn gerði ráð fyrir meiru frá ráðherranum, taldi sig hafa loforð fyrir því, heldur en því sem Halldór Blöndal lagði til. ( Fjmrh.: Það getur líka vel verið að það verði meira.) Að það verði? (Gripið fram í.) Nú jæja. Það er kannski von í málinu enn þá. En það er að verða liðið eitt ár síðan hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir mælti þessi orð og biðin er orðin ansi löng. Ég held að það sé rétt fyrir þingmanninn að fara að knýja á framkvæmdir og knýja á það og berja ráðherrann þá til hlýðni, að hann verði þá við því að láta meira rakna til Slippstöðvarinnar heldur en felst í þessu frv. hv. þm. Halldórs Blöndals.