Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um þetta frv. til stjórnskipunarlaga eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. Ég hef undirritað nál. með fyrirvara. Ég vil þó taka skýrt fram að ég er sammála þessu frv. í meginatriðum. Ég fagna því að nú stendur til að gera Alþingi að einni málstofu og vona að það verði til bóta. Ég vona að sá ótti sumra hv. þm. sé ástæðulaus að það verði til að skerða málfrelsi manna, en ég tel mjög mikilvægt að allir þingmenn njóti málfrelsis í ríkum mæli. Á hinn bóginn tel ég að sumir mættu gjarnan stytta mál sitt stöku sinnum.
    Ég hef leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 640 ásamt hv. 5. þm. Vesturl. Það má segja að sú brtt. lúti ekki að neinu stóru atriði í þessu máli. En þó er það yfirlýst af þeim sem það flytja að þeir hreyfi aðallega nokkrum meginatriðum sem hægt var að ná samstöðu um. Þess vegna finnst mér óþarfi að vera að hrófla við þeim greinum sem að mínum dómi mega vel standa lengur óbreyttar.
    Brtt. fjallar um að 14. gr. þessa frv. falli brott. En 14. gr. lýtur að breytingu á 47. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir, eins og mönnum er kunnugt: ,,Sérhver nýr þingmaður skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar er kosning hans hefur verið tekin gild.`` Flytjendur þess frv. sem hér er til umræðu leggja til að orðin ,,eið eða`` falli út og telja að eiðvinningin sé úrelt og fara um það mörgum fögrum orðum. Ég leyfi mér að andmæla þessu og færi þau rök fyrir máli mínu að þetta ákvæði hefur í fyrsta lagi staðið í stjórnarskrá okkar frá upphafi óbreytt til þessa dags. Í öðru lagi að hin ágæta stjórnarskrárnefnd sem vann fyrir nokkrum árum mest og best að endurskoðun stjórnarskrárinnar hreyfði ekki við þessari grein til breytinga. Í þriðja lagi vil ég benda á að í 10. gr. stjórnarskrárinnar er sambærilegt ákvæði þar sem segir að forseti vinni eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni. Á þetta líta hv. flytjendur með velþóknun og telja sjálfsagt að það standi áfram.
    Ég ætla að það sé almennt talið að eiður og drengskaparheit hafi í hvívetna sömu þýðingu að lögum svo að þess vegna má líta á þetta frá ýmsum hliðum. Ég ætla ekki að lengja mál mitt mjög mikið um svona stutta brtt. en bendi þeim sem kynnu að hafa áhuga á þessum málum og vildu lesa sér til um þau á rit dr. jur. Páls Sigurðssonar prófessors um þróun og þýðingu eiðs og heitvinningar í réttarfari. Þetta er nokkuð mikið rit. Ég get líka bent á það mönnum til upplýsinga að þessu máli hefur verið hreyft á Alþingi áður, m.a. var það á Alþingi 1909, að ég ætla, að borið var fram þingmannafrv. til laga um eiða og drengskaparorð. Flm. þess voru Jón Þorkelsson og Benedikt Sveinsson. Það frv. varð síðar að lögum 1911.
    Ég skal ekki orðlengja þetta frekar en ég tel að 47. gr. stjórnarskrárinnar megi að ósekju standa óbreytt þar til heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar hefur farið fram og alþingismenn geta litið á málin í heild með góðri yfirsýn.